90 ára Gunnar er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann stundaði nám við MR og útskrifaðist með stúdentspróf þaðan árið 1952.
90 ára Gunnar er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann stundaði nám við MR og útskrifaðist með stúdentspróf þaðan árið 1952. Gunnar lauk byggingaverkfræðiprófi frá Technische Universität í München og starfaði á verkfræðistofu þar í borg bæði með námi og eftir nám. Gunnar var framkvæmdastjóri, bæði hjá Byggingafélaginu Brú hf. og Byggingaráætlun ríkisins auk þess að vera verkfræðingur hjá Fasteignamati Reykjavíkur 1969-71. Gunnar rak eigin verkfræðistofu í Reykjavík 1970 til 2008 og annaðist um tíma, ásamt öðrum verkfræðingum, heildarendurmat á öllum fasteignum Reykjavíkurborgar. Hann var verkefnisstjóri við ýmsar stórbyggingar í Reykjavík og víðar, m.a. við stækkun Háskólabíós, endurreisn Þjóðleikhússins, stækkun Sjúkrahússins Vogs fyrir SÁÁ og margt fleira. Hann var líka stundakennari og fyrirlesari við HÍ. Gunnar var lengi virkur í félagsmálum og sat í stjórn hjá ýmsum íþróttafélögum. Hann spilaði golf um árabil og var sæmdur gullmerki Golfklúbbs Reykjavíkur, Handknattsleikssambands Íslands og Glímufélagsins Ármanns. Gunnar fær nánustu ættingja sína í boð til sín á afmælisdaginn.

Fjölskylda

Eiginkona Gunnars var Svana Jörgensdóttir, f. 28.3. 1934, d. 23.8. 2020, fv. landsliðskona í handbolta. Hún varð Norðurlandameistari utanhúss 1964 og lék þar að auki í Þýskalandi. Dætur Gunnars og Svönu eru 1) Laufey, f. 4.1. 1952, lífeindafræðingur í Reykjavík. Dóttir hennar er Nanna Dís, tækiteiknari og ljósmyndari í Brussel. 2) Anna Úrsúla, f. 11.6. 1957, íþróttafræðingur, sjúkranuddari og sjúkraþjálfari í Reykjavík. Dóttir hennar er Jóhanna, ráðgjafi verktaka í Hamborg. Foreldrar Gunnars voru Torfi Guðmundur Þórðarson, f. 6.11. 1901, d. 15.12. 1975, kaupmaður og stjórnarráðsfulltrúi í Reykjavík, og Anna Úrsúla Björnsdóttir, f. 10.1. 1092, d. 12.1. 1957, húsmóðir í Reykjavík. Systur Gunnars voru Guðrún Ásta Torfadóttir, f. 19.3. 1925, d. 16.5. 2004, húsmóðir og fyrrv. fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Elín Torfadóttir, f. 22.9. 1927, d. 9.1. 2016, fóstra, forstöðukona og síðar framhaldsskólakennari í Reykjavík.