Horfur Spáð er 4,1% vexti vöruflutninga með flugi.
Horfur Spáð er 4,1% vexti vöruflutninga með flugi.
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur lækkað langtímaspár sínar og væntir þess nú að öll flugfélög á heimsvísu muni þurfa um 41.170 nýjar flugvélar á komandi 20 árum. Fyrri spá hljóðaði upp á 43.610 nýjar flugvélar á sama tímabili.

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur lækkað langtímaspár sínar og væntir þess nú að öll flugfélög á heimsvísu muni þurfa um 41.170 nýjar flugvélar á komandi 20 árum. Fyrri spá hljóðaði upp á 43.610 nýjar flugvélar á sama tímabili.

Um helmingur þeirra flugvéla sem Boeing áætlar að framleiðendur muni afhenda á næstu tveimur áratugum verða viðbót við flota flugfélaganna en hinn helmingurinn mun koma í stað eldri véla sem teknar verða úr notkun. Verða flotar flugfélaga heims orðnir tvöfalt stærri árið 2041 en þeir eru í dag.

Af þeim nýju þotum sem afhentar verða næstu tuttugu árin áætlar Boeing að 7.230 verði breiðþotur en fyrri spá hljóðaði upp á 7.670 slíkar, að því er Reuters greinir frá.

Spá Boeing undanskilur Rússlandsmarkað, sem annars myndi þurfa um 1.540 nýjar flugvélar, en þær refsiaðgerðir sem lagðar hafa verið á Rússland vegna Úkraínustríðsins skapa algjöra óvissu um hvort og hvenær framleiðendur munu selja Rússlandi flugvélar á ný.

Þrátt fyrir lækkaða langtímaspá hækkaði Boeing eftirspurnarspá sína fyrir næstu tíu ár og áætlar að 19.575 flugvélar verði afhentar á tímabilinu.

Farþegaspá Boeing lækkar lítilsháttar, úr 4% vexti árlega niður í 3,8%, en hins vegar væntir fyrirtækið þess að vöruflutningaflug muni vaxa um 4,1% árlega en hafði áður spáð 4% vexti. ai@mbl.is