Styrkur Sigríður Valdimarsdóttir stofnaði sjóðinn sjálf árið 1967.
Styrkur Sigríður Valdimarsdóttir stofnaði sjóðinn sjálf árið 1967.
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Vestfirsk ungmenni hafa frest til loka júlí til að sækja um styrk til framhaldsnáms úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku .

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Vestfirsk ungmenni hafa frest til loka júlí til að sækja um styrk til framhaldsnáms úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku . Að sögn Heiðu Jónu Hauksdóttur, sem situr í stjórn sjóðsins, er sjóðurinn hugsaður til að gera vestfirskum ungmennum kleift að sækja nám sem er ekki hægt að stunda í heimabyggð þeirra.

Styrkir úr sjóðnum eru veittir árlega og hafa verið veittir síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Í fyrra var einum nemanda veittur styrkur að upphæð 200 þúsund krónur. Aðspurð segir Heiða það alveg fara eftir því hversu margir sækja um þegar metið er hversu margir fá styrk en bendir á að síðastliðin ár hafi sjóðurinn veitt einum til þremur nemendum styrk til framhaldsnáms.

Þurfti að brjótast til mennta

Sjóðurinn var stofnaður af Sigríði Valdimarsdóttur, fyrrverandi formanni Vestfirðingafélagsins, árið 1967. „Hún stofnaði þennan sjóð því hún sjálf þurfti að berjast fyrir því að komast til mennta og er sjóðurinn hugsaður til að styrkja ungar konur og börn einstæðra mæðra til náms,“ segir Heiða.

Sigríður lagði sjálf allt fé til sjóðsins en síðan þá hefur milljónum króna verið varið til þess að styrkja vestfirsk ungmenni. Samkvæmt reglum sjóðsins njóta ungmenni sem hafa misst móður, föður eða báða foreldra forgangs í sjóðnum. Á eftir þeim í forgangsröðinni koma einstæðar mæður og svo konur, svo lengi sem fullu launajafnrétti hafi ekki verið náð. Ef engar umsóknir eru frá Vestfjörðum koma umsóknir Vestfirðinga sem búsettir eru annars staðar til greina.

Áhugasamir geta sent umsókn fyrir lok júlí til menningarsjóðsins á netfangið hjhauks@gmail.com . Með umsókninni þarf að fylgja umsögn frá skólastjóra eða öðrum sem þekkja viðkomandi nemanda og ástæður hans fyrir umsókn.