— AFP
Mótmælahreyfingin á Srí Lanka náði hundraðasta degi sínum í gær, en mótmælendur hafa á þeim tíma rekið forsetann frá embætti og beina sjónum sínum að arftaka hans nú þegar efnahagskreppan heldur áfram í landinu.

Mótmælahreyfingin á Srí Lanka náði hundraðasta degi sínum í gær, en mótmælendur hafa á þeim tíma rekið forsetann frá embætti og beina sjónum sínum að arftaka hans nú þegar efnahagskreppan heldur áfram í landinu. Gotabaya Rajapaksa flúði höll sína skömmu áður en mótmælendur réðust inn í hana um síðustu helgi og á fimmtudag sagði hann af sér forsetaembættinu.

Íbúar landsins segja að fjármálaóreiðu Srí Lanka megi rekja til óstjórnar fráfarandi forsetans og saka hann um að hafa neytt 22 milljónir íbúa landsins til að þola skort á matvælum, eldsneyti og lyfjum, sem hófst seint á síðasta ári. Fækkað hefur í hópi mótmælenda eftir brottför Rajapaksa og hafa þeir yfirgefið þrjár helstu ríkisbyggingarnar sem þeir hertóku; forsetahöllina, bústað forsætisráðherrans og skrifstofu hans.

Ranil Wickremesinghe tók við keflinu sem forseti, en hann hefur skipað hernum og lögreglunni að gera allt sem þarf til að tryggja röð og reglu. Embættismenn varnarmálaráðuneytisins hafa sagt að fleiri hermenn og lögregla verði flutt inn í höfuðborgina í dag til að efla öryggi í kringum þingið.