Við förum hvergi, veriði bless, sagði Biden

Fjögurra daga ferð Joes Bidens Bandaríkjaforseta til Mið-Austurlanda, þeirri fyrstu í því embætti, lauk á laugardag. Biden og hans menn í Hvíta húsinu telja ferðina góða og geta í því sambandi til dæmis vísað í skilaboð forsetans í lok ferðarinnar sem voru út af fyrir sig jákvæð. Biden sagði að Bandaríkin myndu ekki hverfa frá svæðinu og skilja eftir „tómarúm fyrir Kína, Rússland eða Íran að fylla“. Og hann sagðist vilja byggja á því sem í ferðinni hefði verið rætt með virkri forystu Bandaríkjanna, byggðri á grundvallarafstöðu. „Bandaríkin eru ekki að fara neitt,“ sagði Biden, en einhverjir gætu talið táknrænt að skömmu síðar var hann kominn um borð í Air Force One og floginn á braut.

Mið-Austurlönd verða seint talin auðveld eða einföld viðureignar. En svæðið er mikilvægt fyrir Vesturlönd og heiminn allan og þess vegna skiptir máli hvernig haldið er utan um samskipti við ríkin á svæðinu, bæði þau sem Vesturlönd hafa átt vinsamleg samskipti við og eins hin sem hafa verið óvinveitt. Vandinn sem Biden glímir við nú er ekki aðeins sú flókna staða sem ævinlega er uppi í þessum heimshluta heldur líka að skilaboð hans og Baracks Obama forseta, sem Biden starfaði með sem varaforseti, hafa verið óskýr og misvísandi. Þess vegna hljómar það ekki mjög sannfærandi þegar Biden segist hvergi fara. Sádi-Arabía minnist til að mynda í því sambandi að Obama og Biden fylltu fjárhirslur Írans fyrir nokkrum árum af ómerktum peningaseðlum sem nýttir voru til að ýta undir hryðjuverkastarfsemi á svæðinu. Og Sádi-Arabía, Ísrael og fleiri óttast að Biden muni endurtaka afleikinn og hafa þessi ríki fulla ástæðu til slíkra efasemda. Sádi-Arabía og fleiri eru líka án efa hugsi yfir því hve hikandi Bandaríkin hafa verið að styðja hernaðarlega við þennan gamla bandamann sinn í átökunum við fulltrúa Írana í Jemen, jafnvel þegar ráðist hefur verið inn fyrir landamæri Sádi-Arabíu. Það er við slíkar aðstæður sem hættan eykst á því að gamlir bandamenn halli sér að Rússlandi og Kína enda er þeim tekið fagnandi þar og athugasemdir um mannréttindi flækjast ekki fyrir samtölunum.

Biden gekk afar langt í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum og sagði Sádi-Arabíu úrhrak meðal þjóða vegna Khasoggi-málsins. Þetta fór ekki mjög vel í forystu konungdæmisins sem sást til að mynda á því hve hófstilltar móttökurnar voru. Ferðin og fundurinn með krónprinsinum eru þó til marks um að Biden sé að innbyrða aftur ummæli sín, þó að hann hafi tekið málið upp á fundinum. Ef marka má lýsingar beggja vegna borðsins mun Biden hafa nefnt morðið og sagst telja ábyrgðina hjá krónprinsinum, en sá hafi á móti sagt að búið væri að refsa hinum ábyrgu og að hann hafi ekkert haft með morðið að gera. Þetta hafi verið mistök og fleiri ríki geri mistök, svo sem pyntingar á vegum Bandaríkjanna í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak séu dæmi um. Þá sé leyniþjónusta Bandaríkjanna ekki óskeikul í mati sínu, líkt og staðhæfingar um meint gereyðingarvopn Saddams hafi sýnt. Lengra virðist þetta samtal ekki hafa náð og segja talsmenn prinsins að umræðurnar hafi verið stuttar. Enda aðeins til málamynda og þó að Biden hafi sagt að svona lagað mætti alls ekki koma fyrir aftur, þá fylgdi ekki sögunni hvað gerðist ef svo færi. Mun hann þá taka málið upp á næsta fundi þeirra? Það hlýtur að hafa farið um krónprinsinn.

Það sem Mohammed bin Salman krónprins veit er að Biden var ekki síst í heimsókn til að biðja Sádi-Araba um aukna olíuframleiðslu og að samhliða slíkum erindum er erfitt að vera með margar aðrar kröfugerðir. Biden sagði eftir fundinn að hann væri bjartsýnn á aukið framboð olíu en að það kæmi ekki í ljós „næsta hálfa mánuðinn“. Ekki þarf að efast um að markaðir og kjósendur í Bandaríkjunum, en það eru kjósendurnir í nóvember sem Biden er fyrst og fremst með hugann við, munu fylgjast með því hvort olían fer að renna greiðar innan fárra vikna. Markaðir voru þó í það minnsta ekki mjög trúaðir á þetta á föstudag, því að þá hækkaði olían í verði. Og það þarf ekki að koma á óvart því að eftir yfirlýsingu Bidens sá fulltrúi Sádi-Arabíu ástæðu til að benda á að Biden hefði verið sagt að eftirspurn réði því hvort olíuframleiðsla yrði aukin.

Annað sem Biden fagnaði er að Sádi-Arabía hefði opnað lofthelgi sína fyrir flugi frá Ísrael, en Air Force One flaug einmitt þá leið til konungdæmisins og nú mun öðrum það sömuleiðis fært. En fulltrúi Sádi-Arabíu sá einnig ástæðu til að tjá sig eftir þennan fögnuð Bidens og nefna það að þessi „sögulegu“ tíðindi, eins og Biden kallaði þau, hefðu ekkert með samskipti Sádi-Arabíu og Ísraels að gera og væru engin vísbending um frekari skref í þessa átt.

Biden er svo sem ekki óvanur því að starfsmenn hans í Hvíta húsinu „útskýri“ hvað hann átti við en það er óvenjulegra að erlendir gestgjafar sendi frá sér slíkar áréttingar. En segja má að þetta sé hluti af breyttri heimsmynd og ekki síður veikari forseta Bandaríkjanna en í það minnsta núlifandi menn hafa áður séð. Bandaríkin hafa ekki lengur þá stöðu sem þau höfðu áður. Að hluta til stafar það af auknum styrk annarra en að hluta til af því að Bandaríkin hafa sent misvísandi og veik skilaboð um hvar þau standa, ekki síst í málefnum Mið-Austurlanda. Á meðan svo er munu heimsóknir sem þessar aðeins skila takmörkuðum árangri.