Keyrsla Karl og Grétar fóru hringinn árið 2015, en ekki Vestfirðina.
Keyrsla Karl og Grétar fóru hringinn árið 2015, en ekki Vestfirðina. — Ljósmynd/Aðsend
Æskuvinirnir Grétar Gústavsson, meistari í bifvélavirkjun, og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands, eru nú meira en hálfnaðir með Vestfjarðahringinn sem þeir fara á tveimur Massey Ferguson-traktorum.

Æskuvinirnir Grétar Gústavsson, meistari í bifvélavirkjun, og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands, eru nú meira en hálfnaðir með Vestfjarðahringinn sem þeir fara á tveimur Massey Ferguson-traktorum. Karl segir Vestfirðinga hafa tekið vel á móti þeim félögunum, en þeir hafi þurft að lengja ferðina um einn dag. „Í dag [í gær] sprakk fremra hjólið á öðrum traktornum og kom þá bifvélavirki á Súðavík okkur til hjálpar, en þetta mun tefja okkur aðeins.“

Tilgangur ferðarinnar er að vekja athygli á og safna styrkjum fyrir Vináttu, forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. „Flestir sem við hittum vilja styrkja og við vonum að með þessu átaki náum við að vekja meiri athygli, en við höfum líka einstaka sinnum lent í því að fólk gefi okkur nokkra seðla sem fara auðvitað til Barnaheilla.“

Verkefnið er hægt að styrkja á vefsíðu Barnaheilla eða með því að senda SMS-skilaboðin Barnaheill í síma 1900.