[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Gunnhildur Sif Oddsdóttir gunnhildursif@mbl.is Stærsti jarðskjálftinn sem varð í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga og varð líklega valdur að eldgosinu í Geldingadölum á Fagradalsfjalli var ekki óvenjulegur skjálfti.

Fréttaskýring

Gunnhildur Sif Oddsdóttir

gunnhildursif@mbl.is

Stærsti jarðskjálftinn sem varð í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga og varð líklega valdur að eldgosinu í Geldingadölum á Fagradalsfjalli var ekki óvenjulegur skjálfti. Algengt er að slíkir skjálftar verði alls staðar innan gosbelta á Reykjanesinu, og það geta margar orsakir hafa verið fyrir honum.

Þetta segir Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðskjálftafræðingur og ein þeirra sem standa að grein um jarðskjálftann 24. febrúar 2021 og skjálftavirknina í tengslum við framrás kvikugangsins. Að greininni standa þrír vísindamenn frá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og hópur vísindamanna frá Tékklandi.

„Það eru greinilega breytingar á svæðinu. Það byrjaði 2020 í kringum Þorbjörn, þá var landris og landsig og búin að vera mikil skjálftavirkni á öllum Reykjanesskaganum. Mögulega hefur spennusviðið breyst út af þessari kvikusöfnun og spennusviðið breytist í nærsvæði þessa stóra skjálfta sem hugsanlega kom ganginum af stað,“ segir hún.

Geti hafa verið tilviljun

Spurð hvort álíka jarðskjálfta þurfi til að annað gos verði á Reykjanesskaga, segir Þorbjörg að það þurfi ekki að vera nauðsynlegt, tímasetning jarðskjálftans og eldgossins geti verið tilviljun en miðað við þau gögn og það skjálftamælanet sem hópurinn hefur þá geti jarðskjálftinn verið upphaf gossins.

Greinin byggist á skjálftamælaneti sem ÍSOR rekur í samstarfi við tékknesku vísindaakademíuna. Þegar skjálftavirknin var mikil á Reykjanesskaga bæði 2020 og 2021 þá voru mælarnir settir í streymi til ÍSOR og Tékklands og svo áður en gangurinn fór í framrás voru þeir settir í streymi til Veðurstofunnar.

Það var gert til þess að hjálpa til við vöktun en eftir því sem skjálftamælanir eru fleiri þeim mun nákvæmari niðurstöður er hægt að fá um hvar jarðskjálftavirknin er og hvernig jarðskorpan brotnar.

Þorbjörg segist ekki muna eftir því að önnur eldgos hafi orðið á Íslandi sem byrja út frá einum stórum skjálfta eins og í Fagradalsfjalli í fyrra.

„Það hefur oft sést að ef þú ert með stóra skjálfta, þá færðu svokallaða eftirskjálftavirkni. Það hefur til dæmis gerst í Suðurlandsskjálftum, þá færðu einn stóran skjálfta og svo eru ákveðnar sprungur sem verður mikil skjálftavirkni á í kjölfarið. En þetta er aðeins öðruvísi þar sem um er að ræða framrás kvikugangs. Þú ert að fá mjög stóran skjálfta sem veldur spennubreytingum í jarðskorpunni, líkanið okkar sýnir að framrás gangsins hefst á svæði rétt tvo kílómetra norðaustan við stóra skjálftann, þar sem urðu jákvæðar spennubreytingar sem auðvelda losun frekari jarðskjálfta. Á því þriggja vikna tímabili staðsetjum við níu þúsund skjálfta mjög nákvæmlega, sem sýna framrás kvikugangsins og gikkvirkninnar til austurs og vesturs við Fagradalsfjall.“

Greinin er fyrsta greinin af mörgum frá sama hópi en um er að ræða þriggja og hálfs árs verkefni þar sem skoðuð verða aðallega jarðskjálftagögn frá Reykjanesskaga. Hópurinn fékk styrk frá EES fyrir verkefninu. Verkefnið nefnist NASPMON og hægt er að fylgjast með því á twitter: @naspmon og á heimasíðu verkefnisins.

Stóð yfir í sex mánuði

Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 19. mars 2021. Þá hafði jarðskjálftahrina staðið yfir á Reykjanesskaga um þriggja vikna skeið. Gosið var það fyrsta á skaganum í næstum 800 ár og endaði sem meðalstórt gos.

Það stóð í sex mánuði eða til 18. september 2021 en formlega var tilkynnt um goslok í desember. Fjöldi fólks gerði sér ferð að eldgosinu meðan á því stóð, sumir oftar en einu sinni, og voru skráðar ferðir um 360 þúsund.