Gyða Þórarinsdóttir fæddist í Reykjavík 28. apríl 1935 og ólst upp á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi. Hún lést 1. júlí 2022 á Hjúkrunarheimilinu Mörk.

Gyða er dóttir Rósu Lárusdóttur frá Breiðabólsstað á Skógarströnd, f. 3. febrúar 1904, d. 17. mars 1987, og Þórarins Árnasonar frá Stóra-Hrauni, f. 8. ágúst 1898, d. 8. ágúst 1990.

Systur Gyðu eru: Kristín Guðríður, f. 1922, látin. Lára Arnbjörg, f. 1924, látin. Anna María Elísabet, f. 1925, dó ung. Anna María Elísabet, f. 1927, látin, Elín, f. 1929, dó ung. Inga Erna, f. 1930, dó ung. Elín, f. 1932, látin og Inga Erna, f. 8.11. 1933.

Þann 30. júní 1956 giftist Gyða Hafliða Guðjónssyni, f. 21. apríl 1936. Foreldrar Hafliða eru Guðjón Hafliðason og Halldóra Þórólfsdóttir frá Skaftafelli í Vestmannaeyjum.

Börn Gyðu og Hafliða eru: Guðjón, kvæntur Líneyju Kristinsdóttur, börn þeirra eru Hafliði og Hafsteinn. Ómar Hafliðason, áður giftur Signýju Guðbjartsdóttur, börn þeirra eru Andri og Tinna. Áður kvæntur Elísabetu B. Ólafsdóttur, börn þeirra eru Nanna, Ómar Óli og Gyða Ósk. Trúlofaður Frieda Roolf Michisdóttur, og Arnbjörg Hafliðadóttir trúlofuð Sævari Jóhannessyni, börn hans eru Sigrún Nanna og Úlfur.

Gyða ólst upp á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi en flutti ung með foreldrum sínum og systrum á Drangsnes. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur. Eftir að Hafliði kom til sögunnar og þau giftu sig bjuggu þau lengst af í Reykjavík, þó með stuttu stoppi í Vestmannaeyjum og Stórholti í Dalasýslu. Þar ráku þau bú með systur Hafliða, Ester, og Benedikt Frímannssyni. Gyða vann ýmis stöf en þó lengst af, eða í 24 ár, sem aðstoðarkona tannlæknisins Guðmundar Hafliðasonar.

Gyða og Hafliði störfuðu einnig í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu til margra ára, þar sem þau lögðu fram krafta sína, meðal annars með söng og hljóðfæraleik. Gyða spilaði á gítar og söng af mikilli innlifun.

Gyða var mikil handverkskona og voru ófáar lopapeysurnar, rúmföt, fatnaður og útsaumur sett saman í höndum hennar. Heimilið var henni hugleikið og prýddi hún það með mikilli natni og ræktarsemi. Börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin voru Gyðu allt og voru ófá matarboðin þar sem hún settist sjaldan niður á meðan hún lagði mat og heimabakað á borðið. Gyðu leið best þegar fjölskyldan var saman komin.

Útför Gyðu fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hátúni 2 Reykjavík, í dag, 18. júlí 2022, kl. 13.00.

Streymi: https://

tinyurl.com/4xfby44f.

Nú hefur Gyða Þórarinsdóttir frá Stórahrauni, kletturinn okkar og límið í fjölskyldunni, kvatt þennan heim. Það gerði hún hljótt og milt í faðmi fjölskyldunnar. Við vissum hvert stefndi og fengum þá gjöf að vera hjá henni þann 1. júlí á fallegum degi, þegar hennar jarðneska líf slokknaði. Í söknuði verður minningin um þennan dag okkur huggun, því stundin var auðvitað erfið en um leið einstök og falleg fyrir okkur sem fengum að vera með henni.

Mamma var merk kona. Hún var sterk þegar á reyndi en rík af kærleik og djúpum skilningi þegar við vorum aum eða veröldin var okkur grimm. Hún var lítillát og stærði sig ekki af neinu nema þá helst af trú sinni á Jesú Krist og af manninum sínum og afkomendum.

Mamma var yngst níu dætra Rósu Lárusdóttur og Þórarins Árnasonar frá Stórahrauni á Snæfellsnesi, en þrjár dóu ungar. Systurnar sex sem eftir lifðu voru glæsilegar og auðvitað fannst okkur börnum og eiginmanni Gyðu hún vera þeirra fallegust, þótt hún sjálf mótmælti því. Fegurð hennar kom þó skýrast fram í eiginkonu- og móðurhlutverkinu, ásamt þeim dugnaði og trúfesti sem hún sýndi í þjónustu við kirkjuna sína. Hún kenndi börnum sínum að besta leiðin í gegnum lífið er að fylgja Jesú. Einlæg trúfesti Gyðu var okkur og öðrum fyrirmynd og til eftirbreytni. En þessi lávaxnasti meðlimur í okkar annars hávöxnu fimm manna kjarnafjölskyldu, bar þó þyngstu byrðarnar. Það voru stöðugar áhyggjur af velferð og öryggi okkar, því ekki hafði hún áhyggjur af sjálfri sér. Bænir mömmu voru hennar besta bjargráð og grundvöllur sem við öll í fjölskyldunni stöndum á. Við höfum svo sannarlega fundið vernd Guðs í lífi okkar og bænir mömmu og pabba fyrir fjölskyldunni, vinum, ættingjum, kirkjunni og öllum sem Guð lagði þeim á hjarta, ómuðu daglega við morgunverðarborðið á heimili þeirra. Pabbi heldur áfram að biðja en þótt mamma sé farin þá lifa bænir hennar áfram því Guð heyrir bænir og svarar þeim.

Heimili mömmu og pabba var alltaf glæsilegt, hvort sem þau bjuggu í bæ, borg eða sveit. Ekki aðeins var mömmu lagið að fegra í kringum sig, því þegar fátæktin var mest á yngri árum þá saumaði hún á sig kjóla sem báru af og flíkur á börnin sem tóku fram þeim sem hún hafði ekki ráð á að kaupa. Lífið var ekki alltaf dans á rósum en mamma gat með hæfileikum og útsjónarsemi breitt yfir, bætt og fegrað. Með mömmu í liði unnust sigrar.

Mamma var hláturmild og glaðlynd og þótt hennar síðustu mánuðir hafi oft verið þungbærir og erfiðir þá átti hún bros og glettni ásamt von í hjarta um eilíft líf hjá frelsara sínum. Gyða undirbjó útför sína með lista af fyrirmælum og þar á meðal var setningin „...og ekkert hrós! Ég á það ekki skilið.“ Við erum þessu hjartanlega ósammála en virðum óskir hennar og því eru þessi orð okkar fátæklegri og lágstemmdari en hún átti skilið. Með okkur lifir minningin um konu sem sameinaði og sætti, eiginkonu og móður sem var sælust þegar við vorum öll saman. Guð blessi minningu Gyðu, eiginkonu, móður, ömmu og langömmu sem var elskuð og dáð.

Hafliði Guðjónsson,

Guðjón Hafliðason, Ómar Hafliðason og Arnbjörg Hafliðadóttir.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans

fund

og fangar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær

sérhver und

hve gott og sælt við hinn hinsta

blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva

og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur

að sjá

í alsælu og fögnuði himninum á,

er sofnum við síðasta blundinn.

(Hugrún)

Elsku Gyða! Hafðu þökk fyrir samfylgdina og allan stuðning við mig og mína. Í þér átti ég alltaf bandamann og félaga. Takk fyrir allar góðar stundir við kaffibollann.

Þín tengdadóttir,

Líney Kristinsdóttir.