Jón Þór Björnsson fæddist 17. febrúar 1945. Hann lést 5. júlí 2022.

Útförin fór fram 13. júlí 2022.

Það er með hryggum hug að ég kveð þann sómadreng sem nú hefur kvatt þennan heim eftir langvarandi erfiðan sjúkdóm. Það var í september 1979 að leiðir okkar Jóns Þórs lágu saman, er ég hóf störf hjá Verkfræðistofunni Hnit hf. Verksvið mitt voru landmælingar og urðum við því fljótt samstarfsfélagar þar sem Jón Þór var sérfræðingur á því sviði. Mér líkaði strax vel að starfa með Jóni Þór, hans létta skap og meðfædda kímni var hvetjandi og efldi starfsandann. Á þeim hálfa fjórða áratug sem við höfum unnið saman hafa verkefnin verið miskrefjandi og breytileg að umfangi. Þegar ég hóf störf hjá Hnit hf. voru nýlega komnir í almenna notkun lengdamælar sem unnu á innrauðu ljósi.

Þessir mælar ollu straumhvörfum hvort heldur var í margs konar uppmælingum og jafnframt staðsetningu ýmissa mannvirkja. Við Jón áttum margar stundirnar saman þar sem ég stóð við tækið og elti hann með kíkinum hvort sem um var að ræða uppmælingu lands og/eða mannvirkja eða verið var að staðsetja ný mannvirki. Í þessum ferðum sýndi sig oft þrautseigja og úthald hjá Jóni Þór því oft urðu dagarnir langir og veður misjöfn. Að loknu verki gat andinn verið orðinn nokkuð lágstemmdur, en þá gat Jón Þór, með sinni eðlislægu hnyttni, hresst andann með nokkrum vel völdum orðum og það birti aftur til. Árið 1996 keypti Hnit hf. GPS-búnað sem samanstóð af tveimur sjálfstæðum einingum þar sem annarri var stillt upp á þekktu merki sem grunnstöð en hin var borin á bakinu sem flakkari en með honum var gerð sú mælingavinna sem fyrir lá. Þetta var alveg ný tækni og gátu úrlausnirnar verið snúnar þegar tækin voru notuð við netmælingar. Með sinni eljusemi og þrautseigju tókst Jóni Þór að leysa flókin og erfið úrlausnarefni. Einhverju sinni var Jón Þór að fást við úrvinnslu netmælinga sem hann gerði við annan mann á Vestfjörðum. Hann var orðinn vondaufur um að mælingarnar svöruðu þeirri nákvæmni sem krafist var. Hann var þá á leið til útlanda í frí, en tók með sér gögnin til að fara á vit manna sem hann taldi að gætu hjálpað sér. Enga fékk hann úrlausnina, en þeir ráðlögðu honum að endurtaka mælingarnar. En það fór þannig að hann kláraði verkefnið og allt gekk upp að lokum. Þetta sýnir það mikla baráttuþrek og fagmennsku sem hann var gæddur.

Jón Þór var bóngóður og vinsæll jafnt utan sem innan Hnits. Til hans leituðu margir eftir faglegum ráðleggingum því hann var virtur sem mælingaverkfræðingur. Hann lagði sig allan fram við að skila sem bestu verki og dagarnir urðu oft langir við hvort heldur mælingar eða úrvinnslu þeirra.

Ég tel það til mikils happs að hafa fengið Jón Þór sem vinnufélaga við störf mín hjá Hnit hf.

Við áttum ágætlega skap saman og reyndist hann mér ætíð vel er ég leitað til hans eftir faglegum stuðningi.

Kæru, Hanna Brynja, Júlíana, Jón Axel, Engilbert og afabörn.

Við Lára vottum ykkur okkar einlægan samhug og hluttekningu við fráfall Jóns Þórs.

Minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar og vekur ljúfar minningar.

Jón Gunnar Guðlaugsson.