Skrúðganga Íslenskir stuðningsmenn marsera.
Skrúðganga Íslenskir stuðningsmenn marsera.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa verið gríðarlega áberandi og vakið verðskuldaða athygli á Englandi síðan lokakeppni Evrópumótsins hófst hinn 6. júlí.

Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa verið gríðarlega áberandi og vakið verðskuldaða athygli á Englandi síðan lokakeppni Evrópumótsins hófst hinn 6. júlí.

Stuðningsmenn Íslands hafa verið í miklum meirihluta á fyrstu tveimur leikjunum, gegn Belgíu annarsvegar og Ítalíu hins vegar, en þeir hafa báðir farið fram á akademíuvelli Manchester City í Manchester.

Á leiknum gegn Belgíu hinn 10. júlí voru 2.000 Íslendingar í stúkunni en 500 frá Belgíu. Hinn 14. júlí, gegn Ítalíu, voru svo aftur rúmlega 2.000 Íslendingar í stúkunni en tæplega 150 manns voru frá Ítalíu.

Þá hafa stuðningsmenn Íslands verið duglegir að hita sig upp á svokölluðum stuðningsmannasvæðum, eða Fanzone, en skipulag þeirra hefur verið í höndum Þurýjar Bjarkar Björgvinsdóttur, sendiráðunautar í sendiráði Íslands í London.

„Þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt starf en þessi verkefni sem eru í gangi núna í kringum Evrópumótið eru sérstaklega skemmtileg,“ sagði Þurý í samtali við Morgunblaðið í Manchester.

„Það eru margir þræðir sem þarf að halda utan um sem snúa að stuðningsmannasvæðunum, ferðalögunum á leikina og svo auðvitað miðunum sjálfum á leikina. Það er líka hitabylgja í gangi núna sem er ekki beint að einfalda hlutina fyrir okkur og það þarf að undirbúa Íslendinga sérstaklega fyrir hana líka.

Vatn, sólarvörn og hattar eru einstaklega mikilvægir þegar það er svona heitt úti og fólk þarf að vera duglegt að drekka.“

Mikil ánægja ríkir hjá mótshöldurum með Íslendinga í Manchester.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel og verið algjörlega til fyrirmyndar. Fulltrúar Manchesterborgar, sem halda utan um alla framkvæmd í kringum mótið, sem og forsvarsmenn enska knattspyrnusambandsins höfðu orð á því að stemningin á stuðningsmannasvæðum Íslands hefði verið sú besta á mótinu hingað til.

Þeir voru líka sérstaklega ánægðir með það hversu vel allt hefur farið fram og það er ekkert vesen á okkur Íslendingum, bara gleði og gaman. Það er mikil samheldni og fjölskyldustemning hérna og það er ótrúlega gaman að upplifa þetta. Íslendingar leggja mikið í það að styðja sín lið, það eru ráðherrar hérna og forsetinn til dæmis. Við berum mikla virðingu fyrir þessu afreki stelpnanna og við erum að sýna þeim algjörlega þá virðingu sem þær eiga skilið,“ bætti Þurý við. bjarnih@mbl.is