Sigríður E. Konráðsdóttir fæddist í Reykjavík 23. mars 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 5. júlí sl. Foreldrar hennar voru Konráð Stefán Óskar Guðmundsson, vélstjóri og kyndari í Reykjavík, f. 9. ágúst 1906, d. 11. febrúar 1944, og kona hans Aðalheiður Nanna Einarsdóttir ráðskona, f. 29. maí 1907 á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu, d. 1. september 1984. Bróðir Sigríðar var Þórir H., f. 26. apríl 1929, d. 12 mars 2003. Eftirlifandi eiginkona hans er Oddný Dóra Jónsdóttir, f. 13. október 1930. Sonur þeirra var Konráð, f. 4. október 1956, d. 11. september 2007.

15. apríl 1953 giftist Sigríður Hjalta Ragnarssyni vélfræðingi, f. 12. janúar 1925, d. 11. desember 2007. Foreldrar hans voru Ragnar Benediktsson Bjarnason, afgreiðslumaður á Ísafirði, f. á Nesi í Norðfirði 23. maí 1899, d. 18. febrúar 1941, og kona hans Guðrún Arnbjörg Hjaltadóttir, f. á Ísafirði 25. júní 1903, d. 27. janúar 1995.

Sigríður og Hjalti eignuðust fjögur börn: a) Konný Rannveig, f. 26. október 1953, gift Óskari Guðjónssyni, f. 10. júní 1952. Börn Sigurður Heiðar, f. 20. júní 1976, búsettur í Danmörku ásamt unnustu og sonum, drengur, f. 15. júlí 1985, d. 4. október 1985 og Edda Ósk, f. 26. nóvember 1986, búsett í Danmörku ásamt eiginmanni. b) Hjalti Heiðar, f. 23. september 1957, kvæntur Margréti Jónsdóttur, f. 6. september 1955. Börn Sara Ellen, f. 14. september 1978, búsett í Japan ásamt eiginmanni og þremur börnum, Jón Ágúst, f. 8. febrúar 1981, búsettur í Danmörku ásamt unnustu og dóttur, Einar, f. 23. júní 1984, býr í Hafnarfirði ásamt eiginkonu og dóttur og Jóhann Markús, f. 15. nóvember 1994. c) Sigurður Ingvar, f. 19. ágúst 1962, kvæntur Magneu Helgu Magnúsdóttur, f. 31. mars 1964. Börn Andrea Rakel, f. 2. október 1992, býr í Kópavogi ásamt unnusta og tveimur börnum, Alexander Helgi, f. 8. apríl 1996, býr í Svíþjóð og Aðalsteinn Freyr, f. 6. nóvember 2002. d) Aðalheiður Íris, f. 2. september 1965, gift Árna Árnasyni, f. 2. ágúst 1966, d. 3 desember 2019. Börn Hjalti Stefán, f. 19. júlí 1987, býr í Svíþjóð ásamt unnustu og Þórir Róbert, f. 26. maí 1993.

Sigríður útskrifaðist sem hárgreiðslustúlka frá Iðnskólanum í Reykjavík 1950 og fór svo til Kaupmannahafnar og dvaldist þar í tvö ár til að vinna við þá iðngrein, en í desember 1953 fékk hún meistararéttindi í greininni. Hún starfaði ýmist heima með stofu eða með öðrum, ásamt því að ala upp fjögur börn. Í nóvember 1977 kláraði hún sjúkraliðanám frá Sjúkraliðaskóla Íslands. Sigríður vann til sjötugs, m.a. á gjörgæsludeild Landakots og á heila- og taugadeild Borgarspítala.

Sigríður vann einnig sem sjálfboðaliði við ýmis góðgerðarmál, t.d. hjá Rauða krossi Íslands, og var virkur félagi í kvenfélagi. Sigríður og Hjalti hófu búskap sinn á Freyjugötu en fluttu svo á Birkihvamm í Kópavogi.

Útför Sigríðar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. júlí 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

„Þakklát“ var fyrsta orðið sem kom upp í hugann þegar ég fékk símtalið að elsku besta amma mín væri farin yfir móðuna miklu. Svo þakklát fyrir að hafa fengið að verja miklu af minni barnæsku heima hjá henni og í sveitinni á Vatnsnesinu á sumrin. Mikið af yndislegum minningum hefur komið í hugann síðustu daga og kannski þær kærustu eru minningarnar um mig liggjandi í sófanum hennar að lesa klukkustundum saman og finna svo lykt af pönnukökum koma úr eldhúsinu. Bækur og pönnukökur með miklum rjóma og innilegt spjall við ömmu um lífið og tilveruna... held að ekki sé hægt að upplifa betri barnæsku en það! Ég hef búið erlendis í yfir tuttugu ár, í Bandaríkjunum og Asíu síðustu fimm. Því miður voru komin fimm ár frá síðustu heimsókn þegar ég kom heim í maí en ég er svo þakklát fyrir tvær vikur í spjalli við ömmu yfir kaffi og kökum. Svo dýrmætur tími!

„Ertu komin heim?“ var alltaf hvernig hún svaraði mér í símann og ég elskaði alltaf þegar ég gat svarað „já ég er komin heim“.

Er völlur grær og vetur flýr

og vermir sólin grund

kem ég heim og hitti þig

verð hjá þér alla stund.

Við byggjum saman bæ í sveit

sem brosir móti sól.

Ljúfu lífi landið vítt

mun ljá og veita skjól.

Sól slær silfri á voga

sjáið jökulinn loga.

Allt er bjart fyrir okkur tveim

því ég er kominn heim.

Að ferðalokum finn ég þig

sem mér fagnar höndum tveim.

Ég er kominn heim

já, ég er kominn heim.

(Höf. Óðinn Valdimarsson)

Elsku amma, þú fagnaðir mér alltaf höndum tveim og að fara heim verður aldrei eins. Takk fyrir að elska mig og börnin mín. Þín verður ávallt sárt saknað.

Bestu kveðjur á alla ástvini frá okkur fjölskyldunni í Japan,

Sara E. Matuszak Hjaltadóttir.