Slóvakía Elín Rósa Magnúsdóttir og Valskonur fara til Slóvakíu.
Slóvakía Elín Rósa Magnúsdóttir og Valskonur fara til Slóvakíu. — Morgunblaðið/Eggert
Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Löng ferðalög bíða íslensku liðanna fjögurra sem voru í pottinum er dregið var í fyrstu umferð Evrópubikars karla og kvenna í handbolta í gær.

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Löng ferðalög bíða íslensku liðanna fjögurra sem voru í pottinum er dregið var í fyrstu umferð Evrópubikars karla og kvenna í handbolta í gær.

Í kvennaflokki voru bikarmeistarar Vals í efri styrkleikaflokki og mætir liðið Dunajská Streda frá Slóvakíu en liðið endaði í þriðja sæti í deildinni heima fyrir á síðustu leiktíð. ÍBV og KA/Þór voru í neðri styrkleikaflokki og dróst ÍBV gegn Ionias frá Grikklandi. Liðið hafnaði í öðru sæti grísku A-deildarinnar á síðustu leiktíð. KA/Þór dróst gegn Gjorche Petrov Skopje frá Norður-Makedóníu en liðið er ríkjandi meistari í heimalandinu. ÍBV fór alla leið í átta liða úrslit keppninnar á síðustu leiktíð.

Í karlaflokki dróst ÍBV gegn MK Holon frá Ísrael en liðið fór í undanúrslit meistarakeppninnar í heimalandinu á síðustu leiktíð. Eyjamenn þekkja það vel að mæta liðum frá Ísrael því liðið mætti Hapoel Ramat Gan árið 2015 og SGS Ramhat Hashron HC árið 2018. Haukar og KA eru einnig í keppninni en þau sitja hjá í fyrstu umferðinni. Karlalið ÍBV var eina íslenska liðið sem fékk fyrri leikinn á heimavelli en leikirnir verða leiknir helgarnar 8. og 9. október og 15. og 16. október.

Það gæti þó breyst því ekki er óalgengt að félög kaupi útileikina og báðir leikir verði spilaðir á sama stað tvo daga í röð. Íslensku kvennaliðin sem kepptu í Evrópubikarnum á síðustu leiktíð léku til að mynda báða leiki sína á útivelli í 1. umferðinni á síðasta ári.