Erla Sigurjónsdóttir fæddist 10. maí 1929 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum föstudaginn 1. júlí sl.

Foreldrar hennar voru Sigurjón Danivalsson, f. 29.10. 1900, d. 15.8. 1958, menntaður búfræðingur og síðar framkvæmdastjóri, og Sólveig Lúðvíksdóttir, f. 1.7. 1905, d. 9.11. 1991, húsfreyja. Erla átti einn bróður, Örn, f. 15.6. 1945, d. 11.5. 1949 af slysförum.

Erla giftist 6.9. 1952 Manfreð Vilhjálmssyni, f. 21.5. 1928, arkitekt. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Jónsson, f. 31.5. 1901, d. 10.7. 1972, húsasmíðameistari í Reykjavík, og Marta Ólafsdóttir, f. 3.6. 1894, d. 12.11. 1983, húsfreyja.

Börn Erlu og Manfreðs eru: 1) Sólveig, f. 26.8. 1954, tækniteiknari. Barnsfaðir hennar er Ólafur Karlsson sjómaður. Börn þeirra eru Rakel og Sigurjón Örn. 2) Vilhjálmur Már, f. 10.10. 1957, véltæknifræðingur. Maki Jóhanna Diðriksdóttir upplýsingafræðingur. Börn þeirra eru Sólveig og Manfreð Már. 3) Gunnhildur, f. 4.7. 1961, upplýsingafræðingur. Maki Einar Rúnar Axelsson læknir. Börn Erla, Halldóra Sólveig og Kristján Logi. Fyrir átti Einar börnin Axel, Ingunni og Loft. 4) Sigurjón Már, f. 27.10. 1963, flugumferðarstjóri. Maki Svandís Tryggva Petreudóttir, sjúkraliði og upplýsingafræðingur. Börn þeirra eru Tryggvi Már, Sigurveig Unnur og Guðný Erla. 5) Valdís Fríða, f. 17.2. 1968, læknir. Maki Lárus Jónasson læknir. Börn þeirra eru Lúðvík og Málfríður.

Barnahópur Erlu og Manfreðs er mjög blómlegur og eru afkomendur alls 31; fimm börn, 12 barnabörn, átta barnabarnabörn og sex barnabarnabarnabörn.

Erla ólst upp í Reykjavík en dvaldi mörg sumur í Mývatnssveit. Hún kynntist eiginmanni sínum árið 1950 og fluttu þau til Gautaborgar í Svíþjóð, en hann var þar við nám í arkitektúr. Meðan á dvöl þeirra stóð stundaði hún nám í sænsku. Árið 1956 sneru þau aftur til Íslands, bjuggu fyrst í Reykjavík og settust síðan að á Álftanesi árið 1962. Manfreð teiknaði hús þeirra, Smiðshús, og hafa þau búið þar allan sinn hjúskap.

Erla útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1950. Hún hélt sænskunámi áfram eftir heimkomu við Háskóla Íslands. Hún kenndi við Bjarnastaðaskóla á Álftanesi í nokkur ár. Erla starfaði ötullega fyrir Sjálfstæðisfélag Bessastaðahrepps. Hún sat í hreppsnefnd á áttunda og níunda áratugnum ásamt því að sitja í ýmsum nefndum tengdum sveitarstjórnarmálum. Erla var kosin oddviti Bessastaðahrepps árið 1982 og gegndi því embætti í tvö kjörtímabil. Ásamt þessum störfum var hún húsmóðir á mannmörgu heimili á Álftanesi og mjög virk í félagsmálum. Hún var meðal annars formaður Kvenfélags Bessastaðahrepps í mörg ár og var heiðursfélagi í því félagi. Erla var einn af hvatamönnum að stofnun Tónlistaskóla Álftaness sem starfaði í nokkra áratugi en tilheyrir nú Tónlistarskóla Garðabæjar.

Útför Erlu fer fram frá Bessastaðakirkju í dag, 20. júlí 2022, kl. 13.

Ein mesta gæfan í lífinu er að eiga góða móður og föður og vorum við systkinin í Smiðshúsi svo lánsöm að fá þá dýrmætu gjöf. Því fylgir mikil sorg að kveðja mömmu okkar en jafnframt innilegt þakklæti. Hún var einstök kona og það voru mikil forréttindi að alast upp undir hennar visku og verndarvæng.

Mamma átti mjög góða ævi en hún var ekki án áfalla og var stærsta áfallið þegar hún missti einkabróður sinn, fjögurra ára gamlan, af slysförum daginn eftir að hún varð tvítug. Þessi lífsreynsla fylgdi henni og hafði án efa áhrif á hennar lífsgildi og viðhorf. Hún tók áskorunum lífsins með miklu æðruleysi og þroska og var þakklæti henni ætíð efst í huga.

Mömmu og pabba auðnaðist samvera í 72 ár. Þau voru ólík en jafnframt sérstaklega samrýmd og samhent. Þau voru heppin að finna hvort annað á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn árið 1950. Mamma var þar í útskriftarferð með hvíta stúdentshúfu og tók pabbi strax eftir þessari fallegu stúlku. Hann var þá nemandi í Chalmers í Gautaborg og bar sína skólahúfu sem mamma sagði að hefði minnt á íslensku skotthúfuna.

Foreldrar okkar byggðu ættaróðalið Smiðshús fyrir 60 árum sem pabbi teiknaði og faðir hans Vilhjálmur byggði. Fjölskyldan óx hratt auk þess sem amma Solla bjó á heimilinu. Í Smiðshúsi var mikið líf og fjör og sinnti mamma því á sinn einstaka hátt með kærleik, asaleysi og smá stríðni. Sagði hún oft við hin margvíslegustu tilefni „þetta er æsandi líf“.

Mamma gegndi ýmsum hlutverkum á lífsleiðinni. Hún var mikill námsmaður og útskrifaðist úr Versló með næsthæstu einkunn. Hún varð síðan húsmóðir á stóru heimili en sinnti jafnframt fleiri störfum og var mikilvæg fyrir samfélagið á Álftanesi. Meðal annars var hún oddviti hreppsins og formaður Kvenfélagsins. Stoltust var hún samt af afkomendunum sem eru orðnir fjölmargir. Hún fylgdist af einlægum áhuga með öllum, var styðjandi, fordómalaus og úrræðagóð. Hin síðari ár skrifaði hún oft á afmæliskortin „lífið er fagurt“ og voru það falleg orð til barna, barnabarna, langömmubarna og langalangömmubarna.

Að vera komin á tíræðisaldur aftraði foreldrum okkar ekki frá því að lifa lífinu lifandi og eru ófáar kaffihúsaferðirnar og matarboðin sem við minnumst með gleði. Foreldrar okkar voru svo lánsöm að geta búið heima í Smiðshúsi alla tíð. Margir afkomendur búa á Álftanesi þannig að samgangur var mikill og gleðistundir í Smiðshúsi ófáar.

Mamma var alla tíð mjög glæsileg kona. Þrátt fyrir árin 93 var hugur mömmu eins og hjá ungri konu. Hún las mikið, var minnug, víðsýn, áhugasöm um þjóðmál og alheiminn almennt. Mamma trúði á æðri mátt og að ástvinir biðu okkar í „Sumarlandinu“ þegar stundin kæmi. Hún var viss um að allt hefði tilgang og að búið væri að ákveða lífsgönguna fyrirfram. Það var því ekki tilviljun að mamma kvaddi á afmælisdag mömmu sinnar 1. júlí.

Guð blessi elsku pabba í hans miklu sorg. Með djúpum söknuði og einlægu þakklæti kveðjum við dásamlegu mömmu okkar sem hafði kærleika og jákvæðni að leiðarljósi í lífinu og var okkur öllum svo stórkostleg fyrirmynd.

Valdís Fríða, Sigurjón Már, Gunnhildur, Vilhjálmur Már og

Sólveig.

Í dag kveð ég tengdamóður mína, Erlu Sigurjónsdóttur. Hægláta hógværa sómakonu sem hugsaði hlýtt til allra og vildi öllum vel. Fylgdist vel með öllum afkomendum en hún var orðin langalangamma með um 30 afkomendur. Alzheimer heimsótti Erlu aldrei á hennar löngu ævi, hún las blöðin upp til agna og var vel að sér í öllu sem við kom líðandi stundu. Minnisstætt er mér þegar við fórum í mat í klúbbhúsi Keilis en þaðan er mjög fallegt útsýni. Hún níræð, snýr baki í sjónvarpið en Manfreð maður hennar gegnt sjónvarpinu og hefur orð á því að það sé verið að sýna beint frá golfmóti. Þá segir Erla, sem aldrei hefur golfkylfu snert um ævina, já það er víst mót í gangi á milli Ameríku og Evrópu sem kallast Ryder Cup og svo fór hún að lýsa leikfyrirkomulaginu á meðan hakan á undirrituðum seig neðar og neðar í forundran. Þó hún hafi verið vel að sér í Ryder Cup var hún betur að sér í þjóðfélagsumræðunni og pólitíkinni. Pólitísk var hún enda fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna á Álftanesi og umræðan við eldhúsborðið oft lífleg og skemmtileg en af hennar hálfu alltaf málefnaleg og einkenndist ávallt af virðingu gagnvart öllum sama hvar í flokki menn stóðu. Þó ég unni henni hvíldar mun ég sakna þeirrar miklu persónu sem hún bar með sér. Sem fyrirmynd gaf hún okkur sem hana þekktum svo margt sem mun lifa með okkur og í okkur svo lengi sem við munum lifa. Takk fyrir mig og hvíl í friði.

Einar Rúnar Axelsson.