Það vakti athygli hvernig ýmsir lífeyrissjóðir ráðstöfuðu atkvæðum sínum í stjórnarkjöri sem fram fór í Festi í síðustu viku.

Það vakti athygli hvernig ýmsir lífeyrissjóðir ráðstöfuðu atkvæðum sínum í stjórnarkjöri sem fram fór í Festi í síðustu viku. Alveg óháð frambjóðendum og þeim aðilum sem kjörnir voru í stjórn eða þeim sem felldir voru úr stjórn, þá vekja vinnubrögð lífeyrissjóðanna margar spurningar.

Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) greiddi öll sín atkvæði einum frambjóðanda eftir þrýsting frá öðrum hluthöfum. Það gerði LSR einnig (þó öðrum frambjóðanda en þeim sem LIVE kaus) á meðan Brú, Birta og Almenni greiddu tveimur einstaklingum atkvæði. Það er í sjálfu sér ekkert að því að kjósa með þessum hætti í margfeldiskosningu eins og þeirri sem fram fór á hluthafafundi Festar, og fyrir því kunna að vera málefnalegar ástæður. Það sem aftur á móti vekur athygli er að þessi ráðstöfun er úr öllum takti við hegðun lífeyrissjóða í stjórnarkjörum síðastliðin ár – og ef það eru málefnalegar ástæður fyrir því þá hafa þær ekki komið fram opinberlega. Hvort og hvenær það verður er erfitt að vita.

Lífeyrissjóðir hafa á liðnum árum haft það náðugt í skjóli tilnefninganefnda sem stilla upp stjórnum sem sjóðirnir síðan velja. Slagurinn þar sem hluthafar bítast um stjórnarsæti fer því frekar fram á borði tilnefninganefnda en á aðalfundum, sem hentar lífeyrissjóðum mjög vel. Það má þó spyrja ýmissa spurninga í framhaldinu. Ætla lífeyrissjóðir að gera það að venju sinni að kjósa einn mann en ekki heila stjórn? Ef svo er, hverjir ákváðu það og hvenær? Ef svo er ekki, af hverju var það þá gert bara þarna? Ef um einstakt tilvik var að ræða, hvað réð því að fara þessa leið? Var það utanaðkomandi þrýstingur og ef svo er, er það í lagi? Í hvaða stöðu er sá einstaklingur sem fékk öll atkvæði eins sjóðs og komst þannig í stjórn, er hann fulltrúi allra hluthafa í stjórn eða bara þess sjóðs sem kaus hann? Getur lífeyrissjóður sem á hlutabréf bæði í Festi og Högum hagað sér með mismunandi hætti í félögunum?

Það má stilla væntingum í hóf um hvort svör fáist við þessum spurningum, en það má í það minnsta velta við þessum steinum.