[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Hollenska kvennalandsliðið í fótbolta varð fyrir áfalli í gær, þegar ljóst varð að Lieke Martens , lykilmaður liðsins, verður ekki meira með á Evrópumótinu á Englandi vegna meiðsla.

*Hollenska kvennalandsliðið í fótbolta varð fyrir áfalli í gær, þegar ljóst varð að Lieke Martens , lykilmaður liðsins, verður ekki meira með á Evrópumótinu á Englandi vegna meiðsla. Martens meiddist gegn Sviss í lokaleik Hollands í riðlakeppninni og verður ekki leikfær fyrr en eftir mótið. Áfallið er ekki það fyrsta sem hollenska liðið verður fyrir á mótinu, því Vivianne Miedema , markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi, greindist með kórónuveiruna á dögunum og aðalmarkvörðurinn, Jacintha Weimar , lék aðeins fyrsta leikinn vegna meiðsla. Holland mætir Frakklandi í átta liða úrslitum á föstudag.

*Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur gengið frá kaupum á bakverðinum Jed Spence frá Middlesbrough. Kaupverðið er um 20 milljónir punda og gerir leikmaðurinn fimm ára samning. Hinn 21 árs gamli Spence lék sem lánsmaður hjá Nottingham Forest á síðustu leiktíð og lék 46 leiki. Hann er sjötti leikmaðurinn sem Tottenham fær fyrir leiktíðina en félagið hafði áður samið við Ivan Perisic , Fraser Forster , Yves Bissouma , Richarlison og Clement Lenglet .

*Portúgalski knattspyrnumaðurinn Fábio Silva , dýrasti leikmaðurinn í sögu enska úrvalsdeildarfélagsins Wolves, hefur gert eins árs lánssamning við Anderlecht í Belgíu. Wolves greiddi 37 milljónir punda fyrir Silva fyrir tveimur árum en hann hefur aðeins 17 sinnum verið í byrjunarliði Wolves og skorað fjögur mörk.

*Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur gert samning við Bandaríkjamanninn Keith Jordan og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Hann er 24 ára og 200 sentímetra hár framherji. Jordan skoraði 29 stig og tók 11 fráköst að meðaltali í leik í írsku B-deildinni á síðustu leiktíð. Skallagrímur endaði í sjöunda sæti 1. deildarinnar á síðasta tímabili.

*Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fundaði í gær og úrskurðaði fjóra leikmenn úr Bestu deild karla í bann. Brynjar Hlöðversson úr Leikni í Reykjavík er kominn í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í 0:5-tapinu fyrir KA á sunnudag. Þá eru þrír leikmenn komnir í bann vegna uppsafnaðra áminninga. Oliver Sigurjónsson hjá Breiðabliki, Eggert Gunnþór Jónsson úr FH og Aron Jóhannsson hjá Val eru allir komnir í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda á tímabilinu.

*Sébastien Haller , knattspyrnumaður hjá Dortmund, hefur yfirgefið æfingabúðir félagsins í Sviss eftir að hafa greinst með æxli í eista. Haller gekk í raðir Dortmund fyrir þessa leiktíð frá Ajax. Hinn 28 ára gamli Haller kvartaði undan óþægindum á æfingu á mánudag og eftir læknisskoðun kom æxli í eista í ljós. Ekki er ljóst hvort um illkynja æxli sé að ræða. Dortmund greiddi Ajax 31 milljón evra fyrir Haller og átti hann að fylla í það skarð sem Erling Braut Haaland skildi eftir þegar hann gekk í raðir Manchester City. Haller skoraði 34 mörk fyrir Ajax á síðustu leiktíð og þar af ellefu í átta leikjum í Meistaradeild Evrópu.