„Heildarkostnaður samfélagsins við veikburða heilbrigðisstofnanir eða -kerfi er mun meiri en ef þær væru öflugar,“ segir Markús.
„Heildarkostnaður samfélagsins við veikburða heilbrigðisstofnanir eða -kerfi er mun meiri en ef þær væru öflugar,“ segir Markús. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Þegar hann tók við sem forstjóri HSS fyrir þremur árum vakti það athygli að Markús hafði hvorki menntað sig í heilbrigðisvísindum né starfað áður í heilbrigðisgeiranum.

Þegar hann tók við sem forstjóri HSS fyrir þremur árum vakti það athygli að Markús hafði hvorki menntað sig í heilbrigðisvísindum né starfað áður í heilbrigðisgeiranum. Markúsi, sem varð fyrstur Íslendinga doktor í endurskoðun, þykir hafa tekist að snúa rekstri stofnunarinnar við með róttækum breytingum á stjórnun og skipulagi, en starfsfólk HSS hefur fylkt sér á bak við breytingarnar og unnið hörðum höndum að innleiðingu þeirra.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Þegar ég tók til starfa á HSS var flestum ljóst að stofnunin átti við vanda að etja. Stór hluti vandans voru og eru reyndar enn ytri aðstæður en það var alveg jafn ljóst að við þurftum fyrst að líta í eigin barm og því byrjuðum við á að taka til í eigin garði.

Við réðumst í stefnumótunarvinnu, innleiddum nýtt markvissara og einfaldara skipurit, sem hafði m.a. þau markmið að sameina deildir, fækka deildarstjórum og stytta boðleiðir. Í því sambandi má nefna að við höfum verið óhrædd að fara eigin leiðir þegar við á. Ég gerði töluverðar breytingar á framkvæmdastjórninni og þá settum við á laggirnar stöðu gæðastjóra sem heyrir beint undir forstjóra.

Þessu til viðbótar höfum við einnig verið að kljást við ýmis miserfið mál, vinna úr fortíðarvanda stofnunarinnar með nýrri stefnu, ásamt því að leysa öll þau aukaverkefni sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér. Þannig að okkur hefur heldur betur ekki leiðst í vinnunni!

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Ég held í rauninni minni fagþekkingu, t.d. í endurskoðun, ekki við með neinum skipulögðum hætti. Eins og með flest önnur fög, þá er erfitt að halda við þekkingu í þeim nema starfa á þeim vettvangi.

Í starfi mínu sem forstjóri reynir á margvíslega þekkingu og það hefur í raun komið mér á óvart hvað margt af því sem ég hef lært í gegnum skólagönguna hefur nýst mér í þessu starfi, jafnvel þótt ég hafi löngu verið búinn að afskrifa að sú þekking myndi nokkurn tíma koma að gagni.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég gæti gert mun betur þar. Hringur í Costco telst vera góður göngutúr í mínum bókum. Þó get ég gengið endalaust um að skoða borgir þegar hitinn er kominn yfir 20 gráður. Ég legg annars mikið upp úr vönduðum og góðum mat sem ég kýs að gera sem mest frá grunni. Í því sambandi hef ég flutt inn ófá eldhústækin frá Ítalíu, t.d. spíralhrærivél sem er hálft hestafl. Þannig að nú er svo komið að eldhúsinu mínu svipar einna mest til ítalsks kaffihúss.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Helstu kostirnir sem ég sé við rekstrarumhverfið er það að ég hef sem forstjóri nokkuð frjálsar hendur með að taka af skarið með ýmis verkefni. Þá er mitt vald til ákvarðana innan stofnunarinnar mikið og því get ég tekið ákvarðanir eða höggvið á hnúta án tafar.

Gallarnir við rekstrarumhverfið eru því miður of margir og hamlandi. Rekstur heilbrigðisstofnana er eins miðstýrður og hugsast getur. Alþingi og ráðuneytin ákvarða tekjurnar, fjármálaráðherra semur við stéttarfélögin um launin (sem eru langstærsti kostnaðarliðurinn) og svo eru verkefni stofnananna lögbundin. Til dæmis það eitt að taka á leigu húsnæði fyrir ríkisstofnanir er háð samþykki inni í kerfinu og er jafnvel margra ára ferli. Þetta kemur með beinum hætti niður á rekstrinum og þjónustunni og veldur mikilli sóun á dýrmætu skattfé sem ég, þú og allt vinnandi fólk greiðum fyrir.

Eins og flestir vita er rekstur heilbrigðisstofnana verulega undirfjármagnaður og hefur verið lengi. Það er því alltaf verið að elta einhverja tíkalla til að láta enda ná saman. Þannig er sparað í öllu sem hægt er, s.s. viðhaldi, aðbúnaði starfsfólks og öðru sem viðkemur því. Það leiðir þá til þess að fólk vill síður vinna á stofnununum og þá verða færri eftir til að bera byrðarnar. Með því eykst veikinda- og yfirvinnukostnaður svo dæmi sé tekið. Þannig að við sitjum uppi að lokum með dýran rekstur og verri þjónustu. Heildarkostnaður samfélagsins við veikburða heilbrigðisstofnanir eða -kerfi er mun meiri en ef þær væru öflugar.

Síðustu misseri höfum við þurft að grípa til samfélagslegra takmarkana, m.a. vegna þess að heilbrigðiskerfið hefur ekki þolað aukið álag.

Við erum því í neikvæðum spíral sem við verðum að brjótast út úr. Það er hægt að gera með því að fjárfesta í tæknilausnum, ásamt öflugum innviðum. Með því móti þyrfti færri hendur til að vinna verkin og þá yrðu vinnustaðirnir einnig meira aðlaðandi í augum fagfólks sem kepptist um að fá að starfa á stofnununum. Slíkar fjárfestingar myndu því draga verulega úr kostnaði við þjónustuna til lengri tíma. Þannig að það eru svo sannarlega til tækifæri til breytinga ef vilji er fyrir hendi!

Hin hliðin

Nám: Stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 2000; BSc frá Open University á Englandi og stjórnunargráða frá sama skóla 2003; framhaldsgráða í framleiðslu, stjórnun og tækni frá sama skóla 2006; MSc í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík 2009; doktorsgráða í endurskoðun frá sama skóla 2015.

Störf: Bókari hjá Samvinnuferðum – Landsýn 1998 til 2000, áhættustýring hjá sama fyrirtæki 2000 til 2001; sérfræðingur hjá Ernst & Young í Reykjavík 2009 til 2011; aðjúnkt í reikningshaldi hjá HÍ 2012 til 2013; sérfræðingur á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar 2016 til 2019; forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja frá 2019.

Áhugamál: Helstu áhugamálin eru í eldhúsinu, s.s. matreiðsla, brauðbakstur og ísgerð. Ég reyni að gera sem flest frá grunni og nýt mín í að stúdera aðferðir og verkferla. Þá má færa rök fyrir því að ég sé alveg tækjaóður þegar kemur að þessu áhugamáli.

Fjölskylduhagir: Maki minn er Hanna María Jónsdóttir sálfræðingur og börnin eru Sara, Magnús Darri og Adríana.