Grindavík Pálmi Hafþór Ingólfsson á níundu holu vallarins með Grindavíkurbæ í bakgrunni. Fólk kemur oft gangandi á völlinn með golfsett á bakinu.
Grindavík Pálmi Hafþór Ingólfsson á níundu holu vallarins með Grindavíkurbæ í bakgrunni. Fólk kemur oft gangandi á völlinn með golfsett á bakinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Pálmi Hafþór Ingólfsson, kylfingur og íbúi í Grindavík, tók nýverið Hópstún í Grindavík upp á arma sína og hefur í sínum frítíma gert túnið að par þrjú golfvelli með níu holum en brautirnar eru á bilinu 30 til 90 metra langar. Að sögn Pálma sækja ungir sem aldnir þangað og nýta völlinn til að æfa sig og leika sér í golfi. „Það er sérstakt ánægjuefni að sjá börn og eldri borgara bæjarins þar við leik,“ segir Pálmi í samtali við Morgunblaðið.

Að sögn Pálma hafði á Hópstúni verið vísir að golfvelli áður en ekki verið sinnt í mörg ár. Pálmi hafði um árabil æft sig í stutta spilinu og farið með barnabörnin á Hópstún til að æfa golf, áður en hann ákvað að ráð væri að nýta möguleika túnsins til fulls.

„Mér fannst þetta svo frábært svæði að ég ákvað að taka túnið í fóstur,“ segir Pálmi og segist í kjölfarið hafa sett upp holur á túninu og slegið túnið til að mynda brautir.

Bærinn bætir völlinn frekar

Í kjölfarið steig Grindavíkurbær inn í ásamt Golfklúbbi Grindavíkur og hjálpaði til við að bæta brautirnar á vellinum með aðbúnaði og umhirðu. Pálmi segir samstarfið hafa gengið einkar vel en þó sé enn rými til bætinga fyrir völlinn og af þeim sökum hafi hann ritað erindi til bæjaryfirvalda með hugmyndum til að efla völlinn enn frekar.

Að hans sögn tók bæjarráð Grindavíkur vel í erindið og í kjölfarið var sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs falið að halda utan um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu í samráði við Pálma.

„Hann hefur þegar hafist handa og komin er gróf áætlun fyrir næstu skref. Ekki er ólíklegt að svæðið verði skilgreint sem golfæfingasvæði í deiliskipulagstillögu,“ segir hann, vongóður um að fjármagn verði lagt til frekari framkvæmda á vellinum á næsta ári.

„Ég og embættismennirnir erum búnir að ákveða að hittast í haust og kortleggja þetta allt saman.“

Börn æfa sig á vellinum

Hann segir koma sér mjög vel fyrir íbúa Grindavíkur að hafa golfvöll inni í bænum og tekur fram að nánast öll golfkennsla barna fari fram á vellinum. Þá bendir hann á að staðsetningin sé mikill kostur fyrir börn, þar sem golfvöllur Golfklúbbs Grindavíkur er aðeins fyrir utan bæinn og getur oft reynst erfitt fyrir börn og aðra að fá far að vellinum.

„Þetta er inni í miðjum bænum og þá geta börnin bara rölt yfir með sinn poka og mætt á æfingu.“ Pálmi tekur fram að sér þyki vænt um að sjá hve margir mæti á völlinn og hversu mikið golfiðkun hafi aukist á túninu enda er hann fæddur og uppalinn í Grindavík og kenndi þar um árabil.

Í lokin hvetur Pálmi bæjarbúa Grindavíkur og nágrennis til að taka fram kylfurnar og æfa sig. „Það er ekki hægt að finna betri stað fyrir byrjendur að hefja leik í þessari skemmtilegu íþrótt.“