Óhapp Fólk fer fram á bætur frá vátryggingafélögum vegna ýmiss konar óhappa og tjóna sem það verður fyrir. Sé kröfu um bætur hafnað, er hægt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar innan eins árs frá því að kröfu var hafnað.
Óhapp Fólk fer fram á bætur frá vátryggingafélögum vegna ýmiss konar óhappa og tjóna sem það verður fyrir. Sé kröfu um bætur hafnað, er hægt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar innan eins árs frá því að kröfu var hafnað. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum berast hundruð mála á hverju ári. Frá 2009 til og með 2021 úrskurðaði nefndin í 5.671 máli eða 436 málum á ári að meðaltali.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum berast hundruð mála á hverju ári. Frá 2009 til og með 2021 úrskurðaði nefndin í 5.671 máli eða 436 málum á ári að meðaltali.

Á lista, sem birtur er á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar, sést að niðurstöðu er breytt, málskotsaðila í vil, í minni hluta tilvika. Á árunum 2009-2019 var hlutfall slíkra breytinga frá 21% tilvika 2013 upp í 33% tilvika 2018.

Lögreglumaður í átökum

Samantekt úrskurða frá 2021 sýnir vel hve fjölbreyttum málum er vísað til úrskurðarnefndarinnar. Mál nr. 462/2021 fjallar um kröfu rannsóknarlögreglumanns sem slasaðist þegar hann var að handtaka einstakling sem lét ófriðlega.

Lögreglumaðurinn slasaðist á fæti og olnboga í átökunum. Hann var með almenna slysatryggingu og krafðist bóta. Tryggingafélagið hafnaði kröfunni vegna þess að meiðslin urðu í handalögmálum sem eru sérstaklega undanskilin samkvæmt skilmálum tryggingarinnar.

Þessu var mótmælt enda var lögreglumaðurinn að sinna starfi því sem slysatryggingin náði til og slíkar handtökur hluti af starfinu. Ekki hafi verið um handalögmál að ræða í skilningi ákvæðisins.

Nefndin taldi að skilmálar tryggingarinnar gerðu ekki greinarmun á því hvernig handalögmálin voru tilkomin. Lögreglumaðurinn ætti því ekki rétt á bótum úr slysatryggingunni.

Slasaðist er strætó bremsaði

Strætisvagni á leið 2 var nauðhemlað þegar bíll fyrir framan hann snarstoppaði. Kona sem var farþegi í vagninum skaust til í sætinu og skallaði með andlitið og höfuð í sætin. Við höggið eyðilögðust gleraugu hennar. Hún fór samdægurs á Læknavaktina og fékk vottorð um áverka sem hún varð fyrir.

Konan taldi atvikið vera bótaskylt úr ábyrgðartryggingu vagnsins en tryggingafélagið sagði með öllu ósannað að slysið hefði valdið konunni varanlegum afleiðingum.

Til var myndbandsupptaka sem sýndi atvikið þegar strætisvagninn snarhemlaði og konan kastaðist í sætið fyrir framan. Þá lá fyrir læknisvottorð um áverka hennar. Þótt ekki lægju fyrir upplýsingar um umfang líkamstjóns konunar þótti talið sannað að hún hafi orðið fyrir einhverju slíku tjóni við atvikið. Því væri tjón hennar bótaskylt úr ábyrgðartryggingu strætisvagnsins.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að líkamstjón konunnar væri bótaskylt úr ábyrgðartryggingu strætisvagnsins.

Kanínu kennt um reiðhjólaslys

Hjólreiðamaður var að hjóla í Elliðaárdalnum. Þar hljóp kanína fyrir hjólið, þannig að hann missti stjórn á hjólinu og lenti á tré. Hjólreiðamaðurinn slasaðist alvarlega, missti meðvitund og var fluttur á slysadeild.

Hann krafðist bóta úr ábyrgðartryggingu tryggingafélags, þar eð eigandi hjólastígsins bæri ábyrgð á að tryggja öryggi þeirra sem ættu leið um hann. Afar slæm lýsing hafi m.a. verið á slysstaðnum. Með betri lýsingu hefði verið hægt að sjá kanínuna sem hljóp í veg fyrir hjólið. Auk þess hefði lengi verið vitað af kanínufaraldri á svæðinu án þess að nokkuð væri gert í því fyrr en eftir slysið.

Tryggingafélagið taldi ekkert benda til þess að slysið mætti rekja til háttsemi starfsmanna þess sem á hjólastíginn. Það taldi einnig ósannað að kanína hefði hlaupið í veg fyrir hjólreiðamanninn. Nefndin úrskurðaði að hjólreiðamaðurinn ætti ekki rétt á bótum úr tryggingunum.