Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Fyrirhugað er að samþykkja fyrstu heildrænu lögin um landamæri og landamæraeftirlit á Íslandi í haust en það tókst ekki á síðasta þingi.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Fyrirhugað er að samþykkja fyrstu heildrænu lögin um landamæri og landamæraeftirlit á Íslandi í haust en það tókst ekki á síðasta þingi. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið. Í umsögn sem embætti ríkislögreglustjóra sendi Alþingi, kemur fram að framkvæmd landamæraeftirlits muni taka umfangsmiklum breytingum ef frumvarpið verður samþykkt.

Hluti laganna er partur af samræmdu landamæraeftirliti hjá Schengen-ríkjunum sem mun taka í gildi samtímis hjá öllum aðildarríkjunum. Schengen-ríkin samanstanda af 22 ríkjum Evrópusambandsins og ríkjum í Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).

Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur embættis ríkislögreglustjóra, skrifar undir umsögnina frá embættinu. Helgi leggur áherslu á það í umsögn sinni að lagafrumvarpið verði samþykkt sem allra fyrst. Hann segir skipulag verkefnisins gríðarlega viðamikið og kostnaðarsamt.

Bryndís segir að það hafi ekki tekist að taka frumvarpið fyrir á síðasta þingi, vegna þess að það hafi verið lagt fram of seint. „Það kom það stuttu fyrir sumarfrí að við sáum strax að við myndum aldrei ná að fara vel yfir það,“ segir hún en bætir við að þau í nefndinni stefni á að taka frumvarpið fyrir um leið og þingið kemur saman aftur. Mistök urðu til þess að frumvarpið var ekki sent til umsagnar. „Tölvupósturinn skilaði sér víst ekki til umsagnaraðila.“

Þarfar og dýrar breytingar

Hún segir mikilvægt að samþykkja frumvarpið svo að Ísland uppfylli skyldur sínar sem þátttökuríki í Schengen-samstarfinu.

Helgi segir í umsögninni að mikilvægt sé að samþykkja frumvarpið sem fyrst. Annars gæti Ísland tafið fyrir því að Schengen-ríkin taki nýtt komu- og brottfarakerfi á landamærum í gagnið. „Gangverkið í hinum nýju Schengen-upplýsingakerfum er slíkt að ekki er hægt að ræsa kerfin fyrr en öll Schengen-ríkin eru tilbúin og því er mikilvægt að Ísland standi við sínar skuldbindingar.“

Bryndís segir litla hættu á því að Ísland komi til með að tefja þessar framkvæmdir og bendir á að önnur aðildarríki hafi einnig tafist við það að samþykkja sambærileg lög. „Það varð einhver seinkun hjá öðrum þjóðum innan Schengen sem keypti þennan tíma fyrir okkur.“ Hún segir því ekki varhugavert að samþykki laganna hafi verið frestað þar til eftir sumarið.

Að mati Bryndísar er það mjög líklegt að frumvarpið verði samþykkt í haust eða snemma næsta vor. Aðspurð segir Bryndís að það gæti haft afleiðingar fyrir Ísland ef lögin yrðu ekki samþykkt. Þrátt fyrir að það standi til að taka frumvarpið fyrir í haust, segir Bryndís að hún hafi ekki náð að kynna sér frumvarpið til hlítar þar sem það var lagt fram svo seint og gat því ekki sagt til um hvaða breytingar það kemur til með að hafa í för með sér. Hún tekur þó fram að breytingarnar feli í sér kostnaðarsamar framkvæmdir. „Mér skilst að kostnaðurinn felist fyrst og fremst í tölvukerfi og búnaði sem þarf á flugvöllinn,“ segir hún.