— Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sigurgeir Svanbergsson gefur sér að sig taki fimm til sex klukkusundir að synda frá Vestmannaeyjum upp á Landeyjasand. Að því hefur hann stefnt síðustu mánuði og nú nálgast stóra stundin.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sigurgeir Svanbergsson gefur sér að sig taki fimm til sex klukkusundir að synda frá Vestmannaeyjum upp á Landeyjasand. Að því hefur hann stefnt síðustu mánuði og nú nálgast stóra stundin. Upphafleg áætlun var að synda á morgun, fimmtudag, en þar sem spáð er rigningu og hugsanlega gjólu er ekki ósennilegt að frekar verði farið á laugardag. Áheitum er safnað með sundinu og renna þau til Barnaheilla. Framlögin nýtast til að styðja við börn á stríðshrjáðum svæðum.

Undirbúningur og stífar æfingar

„Sjósundi fylgir að fylgjast þarf vel með veðri og öðrum síbreytilegum aðstæðum. Stórir áfangar eins og nú eru framundan krefjast líka mikils undirbúnings og stífra æfinga, eins og ég hef stundað að undanförnu,“ segir Sigurgeir. Á síðasta ári synti hann af Kjalarnesi yfir Kollafjörð og tók land í Bryggjuhverfinu í Reykjavík. Það verkefni segir okkar maður að hafi skilað sér góðri þjálfun og miklum lærdómi – og fyrir vikið sé hann í góðum færum fyrir næsta verkefni.

„Úti fyrir suðurströndinni liggja sjávarstraumar frá austri til vesturs. Þetta eru miklir kraftar sem geta hrakið til dæmis sjósundsfólk til og frá, svo miklu munar. Samkvæmt því kom best út að synda frá Eyjum til lands, þá með því sem næst óendanlega suðurströndina fyrir framan sig. Landtaka ætti að vera auðveldari þannig,“ segir Sigurgeir.

Í föruneyti hans í sundinu verður mannskapur sem vel þekkir til staðhátta, bæði á slöngubát og kajak. Liðsmenn Björgunarfélags Vestmannaeyja verða heldur ekki langt undan.

„Fari ég á fimmtudag legg ég af stað frá Eiðinu í Eyjum laust eftir hádegi. Verði laugardagurinn hins vegar niðurstaðan, yrði farið síðdegis, en þar ráða sjávarföll og hvernig straumar verða.“

Hitinn í heilann

Um þrjú ár eru síðan Sigurgeir byrjaði að stunda sjósund. Hann segir að á barnsaldri hafi sér alltaf fundist gaman að busla í lækjum og vötnum og því verið fljótur að komast á bragðið, þegar hann kynntist töfrum þess að synda í sjó. „Ég bý austur á Eskifirði og segjast verður að aðstæður þar eru ekki sem bestar, sjórinn aðeins fjögurra til fimm gráðu heitur. Hér fyrir sunnan er hitinn hins vegar 11 til 12 gráður. Því finnst mér ég nánast vera kominn til sólarlanda þegar ég æfi hér fyrir sunnan, eins og gert hefur verið stíft síðustu daga. Þar koma sterkt inn Nauthólsvík og Fossvogurinn, sem ég syndi jafnt þveran og endilangan,“ segir Sigurgeir.

„Svo má líka segja að svaml í köldum sjó sé engu líkt. Andstæðurnar eru skarpar og líkamsstarfsemin breytist. Hitinn í líkamanum fer beint upp í heila meðan á sundi stendur og slíkt skapar í raun alveg einstaka tilfinningu. Þess vegna hlakka ég mikið til Eyjasunds.“