Áætlaður kostnaður við framkvæmdina hleypur á milljarði.
Áætlaður kostnaður við framkvæmdina hleypur á milljarði. — Ljósmynd/Aðsend
Orkumál Orkufyrirtækið Varmaorka hóf að bora nýja borholu við Efri-Reyki í byrjun mánaðar. Fyrirtækið mun einnig koma upp tækjum sem munu nýta umframvarmann í nýju borholunni og eldri borholu sem er á svæðinu.

Orkumál Orkufyrirtækið Varmaorka hóf að bora nýja borholu við Efri-Reyki í byrjun mánaðar. Fyrirtækið mun einnig koma upp tækjum sem munu nýta umframvarmann í nýju borholunni og eldri borholu sem er á svæðinu. Ef vel tekst til er áætluð raforkuframleiðsla á svæðinu tvö megavött. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er milljarður króna og er ráðgert að henni ljúki innan tveggja ára. Hins vegar verður nýja borholan tilbúin fyrir mánaðamót.

Breyta umframvarma í raforku

Ragnar Sær Ragnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Varmaorku, segir tíma til kominn að nýta umframvarmann á svæðinu. Honum hafi verið sleppt út í andrúmsloftið í 35 ár. Hann útskýrir svo hvernig vatnið í borholunum er of heitt til húshitunar og því þurfi að kæla það niður. Þar myndist tækifæri til raforkuframleiðslu.

Heita vatnið sem vinnst úr verkefninu verður notað til húshitunar og í baðlónsverkefni sem hefur verið samþykkt á svæðinu. Ragnar segir aukna orkuöflun á svæðinu ýta undir fleiri atvinnutækifæri þar og í kring. „Svæðið er metið af jarðvísindamönnum með þeim öflugri sem þekkjast miðað við lághitasvæði,“ segir hann. Raforkuframleiðslan sé lítil miðað við háhitasvæði sem geta framleitt tugi megavatta.

Aukin afkastageta

Nýja borholan mun skila 50 lítrum á sekúndu og að auki skilar eldri borholan 35 lítrum á sekúndu af heitu vatni. Ragnar segir fyrirtækið framleiða raforku í Reykholti, Borgarfirði og um eitt megavatt á Flúðum með sambærilegri tækni, sem vinnur rafmagn úr umframvarma úr borholu á svæðinu. logis@mbl.is