Sé tjón verkkaupa meira en fjárhæð tafabótanna er verkkaupa almennt ekki fært að krefja verktaka um bætur umfram umsamdar tafabætur.

Það er ekki einfalt mál að koma í örfá orð öllum þeim lagalegu álitaefnum sem sprottið geta af beitingu tafabóta í verksamningum. Tilgangur greinar þessarar er hins vegar að gera með einföldum hætti grein fyrir frumskilyrðum þess að til beitingar slíkra bóta geti komið.

Tafabætur, sem einnig hafa verið nefndar dagsektir eða févíti, eru í eðli sínu umsamdar skaðabætur sem hafa þann tilgang að bæta verkkaupa það tjón sem hann getur orðið fyrir af völdum vanefnda verktaka við skil á verki. Þannig er samið fyrirfram um tiltekna fjárhæð sem verktaka beri að greiða nái verktaki ekki að ljúka verki sínu á tilsettum tíma. Fjárhæð tafabótanna er þá yfirleitt margfölduð með þeim fjölda daga sem skil dragast. Þegar samið hefur verið um staðlaðar skaðabætur líkt og tafabætur er það almennt svo að sá sem krefst bóta á grundvelli slíkra samningsákvæða þarf ekki að sýna fram á tjón sitt. Þannig getur komið til þess að tjón verkkaupa vegna skiladráttar sé minna en þær tafabætur sem verktaka hefur verið gert að greiða eða þá að tjón verkkaupa sé meira en fjárhæð greiddra tafabóta. Sé tjón verkkaupa meira en fjárhæð tafabótanna er verkkaupa almennt ekki fært að krefja verktaka um bætur umfram umsamdar tafabætur. Það er því ávallt einhver áhætta fólgin í því að semja um tafabætur en kostir og hagræði við beitingu þessara umsömdu bóta hefur hins vegar verið talið vega mun þyngra.

Líkt og gefur að skilja er skilyrði fyrir beitingu tafabóta að samið hafi verið um slíkar bætur og á verkkaupi ekki rétt til tafabóta í framangreindum skilningi nema samningsákvæði kveði á um það. Er þá yfirleitt að finna ákvæði um þetta í verksamningum aðila. Án slíkra ákvæða gilda almennar reglur kröfuréttar um vanefndir og skaðabætur þar sem meðal annars þyrfti að sýna fram á tiltekið tjón sem skiladráttur hafi valdið. Í framkvæmd og við beitingu samningsákvæða af þessu tagi geta komið upp ýmis álitaefni um túlkun ákvæðanna sem ekki verður farið yfir hér. Liggi fyrir ákvæði eða annars konar samkomulag aðila um tilteknar bætur sem reikna skuli með ákveðnum hætti, ef verkskil dragast, er ljóst að verkkaupi getur krafist tafabóta ef verktaki stendur ekki við gefin loforð um skil á verki.

Þrátt fyrir að samningsákvæði um tafabætur sé fyrir hendi er ljóst að einnig þarf að liggja fyrir, áður en verkkaupi beitir ákvæðum verksamnings um tafabætur, að skiladráttur hafi orðið á verki. Það kann að virðast einfalt mál að staðreyna hvort þetta skilyrði sé uppfyllt enda yfirleitt samið um tiltekna skiladagsetningu. Ef verki er skilað seinna en á þeim degi ætti skiladráttur að liggja fyrir. Það er hins vegar ekki alltaf svo enda getur verktaki við tilteknar aðstæður átt rétt á framlengingu verktímans. Í íslenska staðlinum ÍST 30:2012, sem algengt er að samið sé um að gildi um réttarsamband aðila í verksamningum, eru fyrir hendi tilteknar reglur um rétt verktaka til framlengingar verktíma. Samkvæmt þeim getur verktaki meðal annars öðlast rétt til framlengingar verktíma ef breytingar hafa orðið á verki sem tafið hafa framkvæmdir, háttsemi verkkaupa sjálfs hefur valdið seinkun á verki, óviðráðanleg ytri atvik verða sem seinka framkvæmdum eða tíð er sérlega óhagstæð. Beiting þessara reglna er háð hinum ýmsu skilyrðum sem ekki verða gerð skil hér. Séu þau hins vegar uppfyllt á verktaki rétt til framlengingar verktíma. Verktaki hefur því við þær aðstæður rétt til að skila verki síðar en samið var um. Hversu langur sá frestur skuli vera ræðst af aðstæðum hverju sinni og þeirri töf sem framangreind atvik valda á verki.

Hafi verktaki átt rétt á framlengingu verktíma fram til þess er raunveruleg verklok fóru fram, eða síðara tímamarks, er ljóst að skiladráttur hefur ekki orðið á verki og skilyrði til beitingar tafabóta þannig ekki uppfyllt. Sé staðan þessi getur hins vegar komið til þess að verktaki eigi rétt til bóta vegna þess kostnaðar sem leiðir af framlengdum verktíma.

Beiting tafabóta er því háð því að fyrir liggi samningsákvæði um slíkar bætur og að skiladráttur hafi orðið, þ.e. að verktaki hafi ekki átt rétt til framlengingar verktíma fram til raunverulegra verkloka. Séu þessi skilyrði uppfyllt getur verkkaupi almennt dregið áfallnar tafabætur frá síðari greiðslum til verktaka. Rétt er að taka fram að önnur atriði geta komið í veg fyrir að verkkaupi eigi rétt á tafabótum. Þeim verða mögulega gerð skil síðar.