Bryndís Jónasdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 5. maí 1934 og ólst upp á Laugavegi 91 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Mínerva Málfríður Jósteinsdóttir (1896-1971) frá Rípurheppi í Skagafirði og Jónas Jónasson skósmiður (1897-1964) frá Helluvaði á Rangárvöllum.

Systkini Bryndísar voru Elín Jónasdóttir (1914-2005), Theodór Jónasson (1921-2013), Margrét Jónasdóttir (1925-2014) og Hjördís Jónasdóttir (1934-2016).

Bryndís giftist 1. desember 1954 Haraldi Jónassyni lögfræðingi (1930-2001). Þau skildu 1966. Börn þeirra: Mínerva Margrét, tónlistarkennari og músíkþerapisti, f. 1955. Börn hennar: Guðrún Eva, Heiðdís Anna, Kolbeinn Helgi. Guðríður, blaðamaður og prófarkalesari, f. 1958. Sonur hennar, Einar Þór, lést 2018. Svanhildur Sif félagsráðgjafi, f. 1959, börn hennar: Ellen Sif og Davíð. Guðmundur Jónas, leikari, leikstjóri og leiðsögumaður, f. 1962. Börn hans: Eyjólfur Bragi, Margrét Vala, Kristian Emil. Langömmubörnin eru átta.

Síðari eiginmaður Bryndísar var Sigurður Egilsson, húsasmiður og síðar húsvörður, fæddur 1934 á Grenivík. Þau skildu. Sigurður lést 14. febrúar 2020.

Bryndís útskrifaðist frá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands í desember 1956. Hún starfaði um árabil sem yfirhjúkrunarkona við Sjúkrahúsið á Akranesi. Síðar sem yfirhjúkrunarfræðingur á Barnadeild Landakotspítala, um tíma á Barnageðdeild Landspítala, BUGL, þá á Háls-, nef- og eyrnadeild Borgarspítalans og endaði starfsævina við hjúkrun á Kleppsspítala.

Hún bjó lengi í Asparfelli 6 en síðast á hjúkrunarheimilinu Eir. Hún lést 13. júlí sl. og verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag, 20. júlí 2022, kl. 15.

Streymi:

tinyurl.com/43pp2wn2

mbl.is/andlat

Margt rifjast upp við fráfall mömmu. Skemmtilegu barnaafmælin, pylsupartíin þar sem hún spilaði á gítar og söng en tónlistin lék ætíð stórt hlutverk í lífi hennar. Hún sendi okkur systkinin í tónlistarnám, spilaði sjálf á píanó og gítar, og það var líka gaman að skottast með henni á kóræfingar í Akraneskirkju. Við áttum líka sameiginlegan áhugann á góðum glæpasögum og almennilegu kaffi. Ekki var sérlega slæmt að eiga svona sæta mömmu á unglingsárunum, og fá stundum frítt í strætó hjá bílstjórunum á leið eitt út á skyldleikann við hana. Sumir tóku stundum á sig góðan krók og skutluðu henni í vondum veðrum alla leið í vinnuna á Landakoti, nokkuð úr leið, og við mismikla hrifningu hinna farþeganna.

Skömmu eftir aldamótin tókst mér að plata mömmu til að gefa uppskrift að fjölskyldutertunni okkar í kökublað Vikunnar. Þá játaði hún ekki bara fyrir alþjóð, heldur líka okkur rígfullorðnum börnum sínum, að Nammi, nammi, gott, gott-tertan væri í raun bara venjuleg peruterta. Það var óvænt. Við mamma gátum hlegið mikið saman og ekki síst eitt gamlárskvöldið fyrir áratugum þegar við fylgdumst með í miklu hvassviðri prúðbúnu, misdrukknu og skellihlæjandi fólki fjúka um glerhált bílaplanið í Asparfellinu þar sem hún bjó í íbúð á sjöundu hæð síðustu áratugina.

Ég verð alltaf þakklát fyrir aðstoð hennar í kjölfar fæðingar Einars, sonar míns, árið 1980 og umvefjandi ástina þegar hann lést í slysi 2018. Hún nánast þaut upp og niður stigana hjá mér á fjórðu hæð, samt komin á níræðisaldur og átti orðið erfitt með gang.

Krossgátur voru líf hennar og yndi eftir að hún hætti að vinna og hún sagði alltaf að þær héldu heilabúinu góðu sem sannaðist aldeilis á henni. Hún var alla tíð mikið jólabarn og sá iðulega um að brúna kartöflurnar á aðfangadagskvöld heima hjá Hildu systur, ásamt því að gera uppstúfið góða hjá mér á jóladag. Ef jörð skalf hringdum við mamma hvor í aðra en þótt mamma óttaðist fátt má alveg segja að jarðskjálftar hafi ekki verið líf hennar og yndi, frekar en kóngulær. Það er svolítið skrítið að mæta ekki framar til hennar á Eir með rjúkandi pappamál af cappuccino og sérbakað vínarbrauð sem var eitthvað það besta sem hún vissi, en hún var alveg til í að kveðja þessa jarðvist núna, orðin södd lífdaga. Ég mun ætíð hugsa hlýlega til hennar við lestur krassandi glæpasagna í framtíðinni, drekka gott kaffi í leiðinni og láta okkar ástkæra Stabat Mater eftir Pergolesi hljóma undir á meðan. Takk fyrir allt, elsku mamma.

Guðríður Haraldsdóttir.

Elsku besta amma Bryndís fékk loksins kærkomna hvíld. Hún var yndisleg amma og var mér afskaplega góð. Við áttum skemmtilegt samband, hún kenndi mér mikið og ég er þakklát fyrir það. Hún var líka ótrúlega skemmtileg amma. Spilaði á gítar og söng fyrir okkur og ég mun aldrei gleyma hvernig hún söng lagið Þegar Lalli fór langt út á tjörn. Hún laumaði iðulega að mér (og vinum mínum) pening, gerði mig að krossgátunördi og var alltaf að kenna mér góða íslensku. Við spiluðum mikið og gátum hangið endalaust saman. Meira að segja þegar ég var unglingur og upptekin við að hanga með vinunum þá hittumst við samt reglulega í pizzu heima hjá henni og horfðum á popp tíví.

Hún tók mig líka stundum með sér í vinnuna á Kleppsspítala þegar ég var barn og hamraði á mikilvægi þess að koma fram við sjúklingana af virðingu og að tala alltaf við þá eins og þeir væru jafningjar, enda eru þeir það. Hún þoldi ekki heilbrigðisstarfsfólk sem setti sig á háan hest og sýndi vanvirðingu þegar einhver átti bágt eða gerði einhverjar gloríur í sínum veikindum. Hún var hjúkka í húð og hár og þegar hún var farin að gleyma aðeins sökum aldurs gat hún samt alltaf rætt hjúkkumál eins og ekkert væri.

Hún lá ekki á skoðunum sínum og maður fékk alveg að heyra ef henni fannst eitthvað glatað, þá var hennar uppáhaldsorð „viðbjóður“ og ég held að öll fjölskyldan noti þetta orð með hlátur í huga og minningu um hana. Þegar hún var ánægð var hún líka mjög ánægð, þá var maturinn sá besti sem hún hafði á ævinni smakkað, trefillinn sá mýksti sem hún hafði á ævinni snert og tónlistin sú fallegasta sem hún hafði á ævinni heyrt. Ég held að það megi taka hana til fyrirmyndar með að upplifa hlutina sem þá bestu á ævinni nokkrum sinnum í viku. Það gerir lífið skemmtilegra.

Takk fyrir allt, amma mín, ég mun sakna þín.

Ellen Sif.