Úlfarsfell Hér rís hið nýja hverfi í framtíðinni. Aðeins glittir í Leirtjörnina fyrir ofan gulu gröfuna. Nú þegar hafa nokkur hús risið við Leirtjörn.
Úlfarsfell Hér rís hið nýja hverfi í framtíðinni. Aðeins glittir í Leirtjörnina fyrir ofan gulu gröfuna. Nú þegar hafa nokkur hús risið við Leirtjörn. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Áformað er að nýtt íbúðahverfi með allt að 360 íbúðum bætist við á svæðinu vestan og norðan Leirtjarnar í Úlfarsárdal. Nú þegar eru í byggingu íbúðarhús nokkur við Leirtjörn, þ.e.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Áformað er að nýtt íbúðahverfi með allt að 360 íbúðum bætist við á svæðinu vestan og norðan Leirtjarnar í Úlfarsárdal. Nú þegar eru í byggingu íbúðarhús nokkur við Leirtjörn, þ.e. við göturnar Silfratjörn, Rökkvatjörn, Jarpstjörn og Gæfutjörn.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti skipulagslýsingu hverfisins á fundi sínum 29. júní sl. en framundan er vinna við deiliskipulagið sjálft. Stefnt er að markvissu samráðsferli á skipulagstímabilinu.

Tillaga auglýst næsta vor

Vinna við tillögu að nýju deiliskipulagi mun standa fram á næsta ár en búist er við því að deiliskipulagstillaga verði auglýst næsta vor og brugðist við athugasemdum í framhaldinu, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Þar kemur fram að núverandi íbúðahverfi í Úlfarsárdal hefur verið í uppbyggingu síðan 2006 og hafi nú öllum lóðum verið úthlutað. Hverfið sé því nærri því fullbyggt. Lokið er uppbyggingu á skólum, bókasafni, sundlaug og öðrum þjónustustofnunum og nýlega voru íþróttamannvirki Fram tekin í notkun.

Í núverandi deiliskipulagi fyrir Úlfarsárdal, sem tók gildi árið 2018, er fjallað um uppbyggingarsvæði norðan Skyggnisbrautar, við Leirtjörn: „Reiknað er með að nýtt byggingarsvæði við Leirtjörn verði ríflega sex hektarar að stærð og þar rúmist um 360 íbúðir í fjölbýlishúsum og sérbýlishúsum, aðallega raðhúsum. Fjölbýlishúsin eru á lóðum við Skyggnisbraut en raðhúsin móta jaðar byggðarinnar við opna náttúru Úlfarsfells.“ Horft verður til þess við gerð nýs deiliskipulags.

Byggðin verður að hluta til fyrir eldra fólk en fyrir liggja samningar um uppbyggingu lífsgæðakjarna, húsnæðisuppbyggingu fyrir eldri borgara með fjölbreyttu framboði á þjónustu í nærumhverfinu, meðal annars á þessu svæði, segir á heimasíðu borgarinnar.

Við Leirtjörn í Úlfarsárdal, í Gufunesi og við Ártúnshöfða er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum fyrir eldri borgara. Þegar er ákveðið að ganga til samninga við Samtök aldraðra og Leigufélag aldraðra, eins og tilkynnt var í byrjun maí.

Verslun og þjónusta í hverfinu

Uppbygging fyrir verslun og þjónustu er hafin á lóð á núverandi Leirtjarnarsvæði. Í tillögu að nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir íbúðabyggð með möguleika á samfélagsþjónustu, til dæmis hjúkrunarheimili, þjónustukjörnum eða leikskóla. Gert er ráð fyrir að nýtingarhlutfall alls svæðisins geti orðið 0,6-0,7. Ekki sé hægt að fastsetja slíkt þar sem kortleggja þarf hvort sprungur eru á svæðinu, líkt og á því svæði sem nú er uppbyggt. Gert er ráð fyrir að byggingar verði 2-5 hæða en falli að sama skapi að útivistarsvæði og núverandi byggð.