Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Það er í sjálfu sér orðið að aukaatriði hvort sala Símans á Mílu til franska fjárfestingarsjóðsins Ardian gengur í gegn eða ekki, skaðinn sem Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur valdið er orðinn svo gott sem óafturkræfur. Mögulega kann salan að klárast á lægra verði en upphaflega var áætlað og það eru þá hluthafar Símans, m.a. lífeyrissjóðir, sem bera kostnaðinn af því.

Þetta er þó ekki eina dæmið þar sem SKE veldur töfum með hægagangi. Það má nefna sölu Arion á Valitor, samruna N1 og Festar sem og Haga og Olís. Fleiri dæmi eru til. Þetta skrifast þó ekki á fagmennsku eða vönduð vinnubrögð og það töpuðu allir á þessum töfum – nema kannski vinur aðstoðarforstjórans sem skipaður var óháður kunnáttumaður eins og frægt er.

Nú er það ekki þannig að sá sem hér haldi á penna sé alla daga að velta því fyrir sér hvað útlendingar halda um okkur. Ef vinnubrögð SKE væru fagleg og athugasemdir eftirlitsins ættu sér stoð í raunveruleikanum væri kannski hægt að bera virðingu fyrir því. Svo er þó ekki.

Það er hvorki spennandi né áhugavert fyrir erlenda fjárfesta að athafna sig hér á landi, þrátt fyrir að stjórnmálamenn tali reglulega um mikilvægi þess að auka erlendar fjárfestingar í landinu.

Og það er mergur málsins. Það er gaman að tala um erlendar fjárfestingar og samkeppnishæfni landsins þegar það á við – en svo kemur bara eitthvað allt annað í ljós þegar á reynir. Næst þegar ráðherra ræðir við erlenda aðila um það hversu frábært það er að fjárfesta á Íslandi þarf viðkomandi þó að minna á að SKE tekur sinn tíma í að skoða málin og stjórnmálamenn eru í raun ekki hrifnir af erlendum fjárfestingum.

Reyndar þarf ekkert að benda útlendingunum á þetta, þeir vita þetta nú þegar. Þar liggur skaðinn.