Sala á kampavíni er á uppleið. Það eru ekki síst Bandaríkjamenn sem eru sólgnir í vínið.
Sala á kampavíni er á uppleið. Það eru ekki síst Bandaríkjamenn sem eru sólgnir í vínið. — Morgunblaðið/Stefán Einar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fór mikill skjálfti um alla þá sem koma að framleiðslu kampavínsins í Frakklandi þegar kórónuveiran setti öll ferðalög og mannamót úr skorðum.

Það fór mikill skjálfti um alla þá sem koma að framleiðslu kampavínsins í Frakklandi þegar kórónuveiran setti öll ferðalög og mannamót úr skorðum. Enginn drykkur er eins tengdur þeirri gleði sem felst í því að ferðast á nýjar slóðir eða fagna með vinum og fjölskyldu og einmitt kampavín. Algjört hrun varð í sölu þess og Comité Champagne, sem ræður miklu um magn og umgjörð framleiðslunnar í héraðinu sem vínið er kennt við, greip til harkalegra aðgerða. Krafði vínhús og ræktendur um að draga úr framleiðslu og halda að sér höndum. Eins og oft áður, í miðstýrðu Frakklandi, töldu menn happasælast að stýra þessum hlutum með handafli, jafnvel þótt sú staðreynd hafi legið á borðinu allan tímann að framleiðslutími kampavíns er að lágmarki eitt og hálft ár og oftast miklu lengri.

Og hvað gerðist svo þegar takmörkunum var aflétt? Rauk fólk til og keypti sér meira rauðvín eða bjór? Kannski, en ekki fer sérstökum sögum af því. Hins vegar jókst kampavínsneyslan hratt og bendir flest til að hún verði komin á meiri ferð en nokkru sinni fyrr þegar þetta ár verður gert upp.

Útflutningurinn sífellt sterkari

Það er hins vegar forvitnilegt að rýna í nýlega útkomna skýrslu frá Comité Champagne, sem í miðstýringaræðinu heldur úti mjög nákvæmu yfirliti yfir stöðu kampavíns á markaði, ekki aðeins í Frakklandi heldur um heim allan. Þar sést að á árinu 2021 seldu franskir vínframleiðendur 320 milljónir flaskna og er það svipað magn og sást í sölutölum í lok fyrsta áratugar þessarar aldar. Hins vegar hafa markaðirnir breyst mikið á þeim rúma áratug sem síðan er liðinn. Ein helsta breytingin er sú að hlutdeild útflutnings hefur vaxið mikið. Árið 2017 varð hann í fyrsta sinn jafn mikill og salan innanlands í Frakklandi en í fyrra var hlutdeild útflutningsins komin í 56% eða 180 milljónir flaskna.

Önnur áhugaverð breyting, sem raunar kom fram í tölunum frá því í fyrra, er sú staðreynd að Bretland, sem á öllum öldum hefur verið langsterkasti útflutningsmarkaður kampavíns, féll úr því heiðurssæti og vék þar fyrir Bandaríkjunum. Ekki er það vegna dvínandi áhuga Breta á hinum göfuga drykk heldur aðeins fyrir það að markaðurinn fyrir kampavín í Bandaríkjunum hefur vaxið stórum á undanförnum árum. Sé litið til samanburðar við 2019, síðasta árið fyrir faraldurinn, óx salan í Bandaríkjunum um 33% en aðeins 10% í Bretlandi. Í fyrra seldust sumsé um 33 milljónir flaskna í Bandaríkjunum en tæpar 30 milljónir í Bretlandi. Eru þetta langsamlega stærstu markaðir fyrir víntegundina en þar á eftir kemur Japan (kampavín fer svo svakalega vel með öllu fiskmeti).

Bandaríkjamenn taka forystu

Sérstaka athygli vekur þegar rýnt er í útflutningstölurnar fyrir stærstu markaðina að Bandaríkjamenn eru ekki aðeins farnir að neyta meira kampavíns en nokkur önnur þjóð heldur hafa þeir dýrari smekk en aðrir þegar kemur að því hvaða kampavín verður fyrir valinu. Útflutningurinn þangað var í fyrra um 10% meiri en til Bretlands en söluandvirðið nam 793 milljónum evra, um 289 milljónum evra hærri fjárhæð en í tilviki Bretanna.

Kampavínssala eykst jafnan meðal þjóða þar sem velmegun er mikil og þar sem hún fer vaxandi. Sérstaka athygli vekur að Þjóðverjar drógu úr neyslu sinni á kampavíni milli áranna 2019 og 2021. Kann það að skýrast af óhagganlegri hagsýni þeirra en þetta kann einnig að gefa til kynna að þar sé tekið að harðna á dalnum. Það er óhætt að fullyrða að það sé raunin á Ítalíu þar sem efnahagsástandið hefur verið með daprasta móti en sá markaður virðist enn vera að gefa eftir þegar kemur að kampavíni. Það getur ekki skýrst af því að Ítalir séu að færa sig í auknum mæli í Prosecco, enda eru þeir smekkmenn á vín, þrátt fyrir allt.

Norðmenn sífellt stórtækari

Í Noregi virðist hagsældin engan enda ætla að taka. Líkt og Íslendingar voru Norðmenn lengi í hópi fátækustu ríkja Evrópu en ríkir að náttúruauðlindum hafa þeir komið sér í fremstu röð á örfáum áratugum. Þar fer neysla gæðavína vaxandi ár frá ári og þar er kampavínið engin undantekning. Vöxturinn milli 2019 og 2021 er raunar ævintýralegur þar í landi. Jókst úr rúmum 900 þúsund flöskum í ríflega 1,4 milljónir.

Svipaða sögu, en þó ekki alveg eins drastíska, má segja héðan frá Íslandi. Árið 2019 seldust um 85 þúsund flöskur af kampavíni en í fyrra höfðu menn tekið sig heldur betur á og náð að hífa neysluna upp í 123 þúsund flöskur. Jafngildir það vexti upp á 45%. Hafa þessar tölur vakið athygli í Champagne og hlæja menn yfir þeirri staðreynd að hér hefur því selst ein flaska fyrir hverja þrjá Íslendinga. Hlutfallið í Noregi, til samanburðar, er flaska á hverja 3,8 íbúa landsins.

Svíarnir samir við sig

Horft til öflugasta útflutningsmarkaðarins þá selst ein kampavínsflaska í Bandaríkjunum fyrir hverja 10 íbúa ríkisins. Það eru í raun aðeins blessaðir Svíarnir sem slá okkur við með um 2,8 íbúa að baki hverri flösku. Þeir hafa reyndar verið sólgnir í kampvínið lengi, enda smekkmenn á margt, ekki aðeins hönnun heldur einnig góðan mat og vín.

Ísland mun alltaf teljast til örmarkaðar þegar kemur að innflutningi á víni. Hins vegar mun hann eflast á komandi árum með tilliti til gæða og aðgengis að fágætisvínum. Því ræður helst sú staðreynd að ferðaþjónustan þarf á góðu víni að halda til að þjónusta betur borgandi ferðamenn. En Íslendingar eru einnig sjálfir að læra inn á þessar lystisemdir í auknum mæli. Netverslun með áfengi opnar þar ýmis tækifæri en mestu máli mun fræðsla og forvitni skipta. Það eru drifkraftar sem ekkert fær hamið til lengri tíma litið.