Sól tér sortna Reykjarmökkur stígur til himins í Dartford í Kent í gær.
Sól tér sortna Reykjarmökkur stígur til himins í Dartford í Kent í gær. — AFP/William Edwards
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Rúmlega 400 slökkviliðsmenn í London börðust í gær við að minnsta kosti sjö elda, þar á meðal í íbúðarhúsum í Wennington í Austur-London, þar sem eldur kviknaði upphaflega í graslendi en barst þaðan í nærliggjandi hús.

Bað slökkviliðið borgarbúa í gær um að hringja ekki í neyðarnúmerið 999 nema um ýtrustu neyð og hreina lífshættu væri að ræða, þar sem neyðarsímaverðir hefðu ekki undan að svara í símann. Eins voru borgarbúar hvattir til að grilla hvorki né kveikja elda af öðru tilefni.

Gerði slökkviliðið heiðarlega tilraun til að halda borgarbúum upplýstum um gang mála á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem sjá mátti fjölda tilkynninga um ástandið, svo sem að 30 dælubifreiðar og 175 slökkviliðsmenn berðust við eld í graslendi á Pea Lane í Upminster og að ekki sæjust handa skil á M25-brautinni.

„Þetta er neyðarástand“

Eins tilkynnti slökkvilið um bruna og fjölda bifreiða og manna á staðnum í Green Lanes, Oaks Road, Ballards Road, Broadway við Wembley og víða annars staðar um borgina. Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær, varaði breska veðurstofan þá við eldhættu, nokkuð sem fátítt er þar í landi.

„Þetta er skelfilegt,“ sagði Freya Gutteridge, íbúi í Wennington, við breska ríkisútvarpið BBC í gær, „við erum nokkur hér sem vinnum á sama stað og við erum felmtri slegin yfir afdrifum heimila fjölskyldna okkar. Við vitum að okkur verður gert að rýma svæðið ef við erum í hættu en hér í hverfinu eru bensínstöðvar og við óttumst um alla hérna,“ sagði Gutteridge.

Lestafyrirtæktið c2c Rail bað fólk um að nota járnbrautirnar sem minnst vegna bruna nálægt helstu akstursleiðum lestanna. Sadiq Khan borgarstjóri skrifaði á Twitter-svæði sitt og bað borgarbúa að gæta sín í hvívetna. „Slökkviliðið hefur lýst yfir neyðarástandi vegna stórbruna í höfuðborginni í dag. [...] Þetta er neyðarástand, slökkviliðið sætir gríðarmiklu álagi. Gætið að ykkur.“

Hiti fór í fyrsta sinn á skráningartíma yfir 40 gráður í Bretlandi í gær, þegar hann mældist 40,2 gráður á Heathrow-flugvellinum um hádegisbil.