Þýskaland Á síðustu dögum hafa þýskar orkuveitur þurft að ræsa aftur gömul kolaorkuver, líkt og þetta skammt frá Köln, við lítinn fögnuð.
Þýskaland Á síðustu dögum hafa þýskar orkuveitur þurft að ræsa aftur gömul kolaorkuver, líkt og þetta skammt frá Köln, við lítinn fögnuð. — Ina Fassbender/AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Þrátt fyrir að hitasvækjan sé að gera út af við meginlandsbúa Evrópu þessi dægrin, þá hafa þeir þó ekki síður áhyggjur af kuldunum á vetri komanda, því það kemur vetur og þessi á eftir að verða kaldari en vanalega vegna orkukreppu.

Baksvið Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þrátt fyrir að hitasvækjan sé að gera út af við meginlandsbúa Evrópu þessi dægrin, þá hafa þeir þó ekki síður áhyggjur af kuldunum á vetri komanda, því það kemur vetur og þessi á eftir að verða kaldari en vanalega vegna orkukreppu.

Mikið er látið með að fólk geispi golunni í hitabylgjum, en í Evrópu krókna árlega margfalt fleiri úr kulda, einkum gamalt, efnalítið fólk. Það er þó ekki það eitt sem hryllir sig við vetrinum, stjórnmálastéttin er sem lömuð og það hriktir í fjármálamörkuðum.

Áðurnefnda orkukreppu má einkum rekja til innrásar Rússa í Úkraínu, sem hófst fyrir fimm mánuðum, og mun hafa bein eða óbein áhrif um gervalla Evrópu. Þar er Þýskaland í sérflokki, en sú efnahagsaflvél meginlandsins má heita ofurseld rússneskri orku og þrátt fyrir ótal viðvaranir, árum saman, létu þýskir valdhafar í öllum helstu stjórnmálaflokkum sér þær í léttu rúmi liggja.

Hrollvekjandi viðvörun

Orkukreppan snertir þó ekki Þýskaland eitt eða aðeins Evrópu, því Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf á mánudag út hrollvekjandi viðvörun um að í fyrsta sinn í sögunni vofði yfir orkukreppa á heimsvísu og hún myndi reynast Evrópu einkar erfið.

Dr. Fatih Birol, framkvæmdastjóri IEA, sagði að evrópsk ríki yrðu að taka höndum saman til þess að afstýra skorti á jarðgasi til húshitunar á komandi vetri vegna minnkandi framboðs á rússnesku gasi. Það er nú þegar aðeins um 40% af því sem vant er.

Dr. Birol minnti á að stofnunin hefði varað við þessari stöðu í september í fyrra, löngu áður en til innrásar Rússa kom, en að ríki Evrópusambandsins hefðu ekki brugðist við svo nokkru næmi.

Nú sé hins vegar raunveruleg hætta á að Vladímír Pútín skrúfi alveg fyrir gasið til Evrópu, til þess að knýja Þjóðverja til undirgefni. Það mun reynast alvarlegt högg fyrir atvinnulíf og grafalvarlegt fyrir heimili, jafnvel þó svo þeir gefist skjótt upp gagnvart Rússum.

IEA segir að ekki verði hjá því komist að minnka orkunotkun verulega, hvað sem líður tilraunum til þess að tryggja jarðgas annars staðar frá. Og það kemur niður á þjóðarframleiðslunni þegar í stað. Skrúfi Rússar ekki frá Nordstream gasleiðslunni aftur núna í vikunni, er hætt við að iðnaðarframleiðsla dragist saman um 30-60%, sem væri nánast rothögg fyrir þýskt efnahagslíf.

Áhrif um allan heim

Aðrar ráðstafanir, svo sem skömmtun eða orkuuppboð, fælu í sér þrengingar, sem Þjóðverjar hafa ekki upplifað síðan í Seinna stríði.

Samt sem áður er þetta rétti tíminn til þess að grípa til slíkra ráða í Þýskalandi og fleiri ríkjum Evrópusambandsins, til þess að eiga von um að geta birgt sig nægilega upp af gasi fyrir veturinn ef Pútín skyldi loka á allt gas um leið og kólna fer.

En þetta á ekki aðeins við um þau lönd, sem eru háð rússnesku gasi, enda orkumarkaðir mjög samofnir. Jafnvel Norðmenn – með sína gnótt af olíu, gasi og raforku frá fallvötnum – velta fyrir sér skömmtun á raforku. Ekkert ríki fer varhluta af alþjóðlegri orkukreppu, sem snýst ekki síður um þjóðaröryggi en framboð og eftirspurn. Komandi vetrarhörkur geta reynst dauðans alvara.

Þýska efnahagsklúðrið

Vestur-Þjóðverjar hófu orkukaup frá Sovétríkjunum árið 1970, í nafni Ostpolitik , þíðu í von um að viðskipti gætu mildað einræðisöflin. Þeirri sjálfsblekkingu var við haldið fram á þetta ár, þrátt fyrir ótal viðvaranir. Eina afleiðingin er sú að þýskt efnahagslíf og velferð milljóna Þjóðverja er háð duttlungum valdhafa í Kreml.

Þjóðverjar fluttu í fyrra inn 55% af jarðgasi, 35% olíu og 45% kola inn frá Rússum og borga þannig fyrir hernað Rússa gegn Úkraínu.