Guðmundur Magnússon fæddist á Reyðarfirði 9. janúar 1926. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 8. júlí 2022.

Foreldrar hans voru Magnús Guðmundsson verslunarmaður, f. 23. apríl 1893, d. 28. mars 1972, frá Felli í Breiðdal og Rósa Jónína Sigurðardóttir húsfreyja, f. 6. nóvember 1898, d. 20. maí 1939, frá Seyðisfirði. Ungu hjónin kynntust og settu saman heimili á Reyðarfirði. Þau eignuðust níu börn, sem öll eru látin: Aagot, 1919-1983, Emil Jóhann, 1921-2001, Rannveig Torfhildur, 1922-2002, Aðalbjörg, 1923-2018, Stefanía ,1924-2007, tvíburasystir hennar sem lést í fæðingu, Guðný Ragnheiður, 1927-2019 og Sigurður, 1928-2011. Árið 1949 kvæntist Guðmundur Önnu Arnbjörgu Frímannsdóttur, f. 15. janúar 1930. Þegar börnin komust á legg var hún ritari í Hvassaleitisskóla og síðar fulltrúi á Fræðsluskrifstofu Austurlands. Foreldrar Önnu voru Sigríður Þorsteinsdóttir frá Þuríðarstöðum í Fljótsdal, f. 9. júlí 1901, d. 24. ágúst 1974, og Jóhann Frímann Jónsson frá Bessastöðum í Fljótsdal, f. 2. júní 1898, d. 23. ágúst 1960. Börn Guðmundar og Önnu: 1) stúlka, f. 26. nóvember 1949, d. 26. nóvember 1949. 2) Sigríður, f. 1950, maki Hermann Hermannsson, f. 1948, þau eiga tvö börn, sex barnabörn og eitt langömmu/afabarn. 3) Magnús, f. 1952, maki Anna Dóra Árnadóttir, f. 1955, þau eiga tvö börn og átta barnabörn. 4) Rósa Hrund, f. 1954, maki Jóhann Guðnason, f. 1952, þau eiga eitt barn og eitt barnabarn. 5) Guðmundur Frímann, f. 1962, maki Anna Heiða Gunnarsdóttir, f. 1964, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. 6) Arnbjörg, f. 1965, maki Leó Geir Arnarson, f. 1963, þau eiga tvö börn. Guðmundur stundaði ýmis störf víða um land frá 14 ára aldri, einkum á vetrarróðrar- og síldarbátum. Hann útskrifaðist frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1946 og lauk þriggja ára námi á tveimur árum frá Kennaraskóla Íslands vorið 1948.

Veturinn 1948-1949 var Guðmundur ráðinn til að leysa skólastjórann á Reyðarfirði af. Haustið 1949 varð hann kennari við Laugarnesskóla og starfaði þar til 1960. Þá varð hann skólastjóri við hinn nýstofnaða Laugalækjarskóla og síðan við Breiðholtsskóla, sem tók til starfa haustið 1969. Árin 1977-1996 var Guðmundur fræðslustjóri á Austurlandi, en embættið sinnti umdæmi sem náði frá Bakkafirði í norðri og suður í Öræfasveit.

Guðmundur sat í fjölda nefnda og stjórnum félaga og studdi starf Reyðarfjarðarkirkju og ýmissa félaga í heimabyggð og var um árabil fulltrúi leikmanna á Austurlandi á Kirkjuþingi. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit, skrifaði „Skólasögu Reyðarfjarðar“ sem kom út 1998 og bókina „Saga Reyðarfjarðar 1883-2003“ samkvæmt samningi við Menningarnefnd Fjarðabyggðar. Í ritinu „Litríkt land – lifandi skóli“ sem kom út í tilefni af sextugsafmæli Guðmundar 1986, rituðu 16 höfundar fjölbreyttar greinar er varða störf hans, baráttumál og áherslur í skólamálum. Guðmundur stjórnaði kórum og samsöngshópum og spilaði á píanó og harmonikku við margvísleg tækifæri.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 20. júlí 2022, klukkan 13.

Einn fagran vormorgun fyrir margt löngu fékk pabbi sér göngutúr inn fjörðinn sinn, Reyðarfjörð. Hann hreifst svo af fegurðinni, að þegar heim var komið orti hann eftirfarandi ljóð sem hann kallaði „Vor við Reyðarfjörð“.

Nú er vor um veröld alla,

vermir sólin kalda jörð.

Stillt og kyrrt um strönd og hjalla,

stafalogn við Reyðarfjörð.

Inni á leirum litlir fætur

léttan stíga vorsins dans.

Í morgunsárið grasið grætur

gullnum tárum skaparans.

Ríktu kyrrð um veröld víða,

vorsins friður signi jörð.

Út um sjó og upp til hlíða

ársól gylli Reyðarfjörð.

Einnig samdi hann fallegt lag við ljóðið. Þetta ljóð lýsir afar vel sýn pabba á lífið og tilveruna. Þar birtist vonin og trúin á ljósið og kærleikann. Einnig kemst svo vel til skila hversu undurvænt honum þótti um heimahagana, fjörðinn sinn Reyðarfjörð.

Daginn fyrir andlátið fór hann með fyrstu tvær hendingarnar í þessu ljóði eftir Freystein Gunnarsson, kennara sinn úr Kennaraskólanum.

Tíminn líður furðu fljótt,

fölna hár á vanga,

söngvar þagna, nálgast nótt,

nóttin hljóða langa.

Ljósið dvín og lokast brá,

lætur vel í eyrum þá

ómur æsku söngva.

Þetta segir meira en mörg orð. Gæfa okkar systkina felst í því að hafa átt svona kærleiksríkan pabba, með mömmu sér við hlið.

Blessuð sé minning hans.

Sigríður, Magnús,

Rósa Hrund, Guðmundur Frímann og Arnbjörg.

Elsku afi.

Þegar við hugsum til baka þegar við vorum lítil í heimsókn hjá ömmu og afa í Kópavogi fyllist hugurinn af skemmtilegum minningum. Á þeim tíma varstu líka að skrifa bókina um Reyðarfjörð og við hreinlega skildum ekki hversu mikið væri hægt að skrifa um sögu Reyðarfjarðar! En þrátt fyrir það gafstu þér alltaf tíma til þess að taka okkur með í sund, fara með okkur í leiðangra um bæinn og spila fyrir okkur svo fallega á píanóið og syngja með.

Þú varst alltaf svo barngóður og við sáum það svo vel eftir að okkar stelpur fæddust og fóru að koma í heimsókn til þín í Hafnarfjörðinn. Það er okkur minnisstætt þegar þú vildir taka Júlíönnu og Glóeyju í skoðunarferð um ganginn og gerðir þér lítið fyrir og skelltir Glóeyju upp á göngugrindina og arkaðir af stað. Laufeyju leist nú ekki alveg á blikuna en sá svo fljótt að það höfðu allir mikið gaman af. Fanndís Harpa fann alltaf þegar hún kom í Hafnarfjörðinn að þér væri hægt að treysta og rétti iðulega fram hendurnar og bað um að koma í fangið þitt. Okkur þótti líka alltaf gaman að hlusta á sögurnar þínar um gömlu tímana og kíkja með þér og ömmu niður í rjómapönnsur.

Minning þín mun lengi lifa og við erum þakklát fyrir tímann sem við og börnin okkar höfum fengið að eiga með þér. Það eru ekki allir sem fá að eiga afa sem nær 96 ára aldri og því erum við afar þakklát.

Gylfi, Laufey og Abba Bára.