30 ára Alexandra fæddist í Reykjavík á Landspítalanum en flutti svo ásamt fjölskyldu sinni til Noregs þar sem þau bjuggu í nokkur ár áður en þau sneru aftur til Íslands.
30 ára Alexandra fæddist í Reykjavík á Landspítalanum en flutti svo ásamt fjölskyldu sinni til Noregs þar sem þau bjuggu í nokkur ár áður en þau sneru aftur til Íslands. Alexandra stundaði nám á myndlistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og síðar í hreyfimyndagerð og teiknun (e. Animation Production) við Listaháskólann í Bournemouth á Englandi og vann meðal annars við teikningu og hönnun fyrir breskt fyrirtæki í tvö ár. Alexandra býr nú í Reykjavík og vinnur hjá hönnunarversluninni Epal þar sem hún selur listaverk eftir sjálfa sig og hannar myndir auk þess að sinna afgreiðslustörfum. „Ég byrjaði að vinna að eigin verkum í Covid-faraldrinum og seldi þá plaköt hjá Kyrrlandi, en það er fyrirtæki sem býður upp á vönduð veggspjöld og eftirprent eftir ýmsa listamenn. Ég fékk svo tækifæri hjá Epal. Ég hef alltaf verið mjög sjálfstæð og stefnan er að vinna fyrir sjálfa mig einn daginn.“ Alexandra starfar einnig sem verktaki þar sem hún hannar persónur og teiknar. Hún notast mest við forritin Adobe Suite, Illustrator, Photoshop og After Effects þar sem hún vinnur hreyfimyndir ásamt teikningum. Hún heldur úti netversluninni Artaly, sem selur ýmsar vörur eins og teikningar og ljósmyndir. „Ég setti upp netverslunina Artaly til að selja myndirnar mínar og það hefur gengið vonum framar.“

Fjölskylda Móðir Alexöndru er Margrét Ragna Lýðsdóttir, f. 22.8. 1963, starfsmaður í umönnun á Droplaugarstöðum. Eldri systir Alexöndru er Isabelle Nordskog, f. 1986, starfsmaður í umönnun á Droplaugarstöðum, og yngri systir hennar er Yvonne Rós Becker, f. 1996, nemi í vélaverkfræði og alþjóðlegum viðskiptum, búsett í Þýskalandi.