Innlend orka og sjálfstæður orkumarkaður kemur sér vel

Verðbólga í ríkjum Evrópusambandsins er tæp tíu prósent og á evrusvæðinu tæp níu prósent. Verðbólgan í Bandaríkjunum er svipuð. Þar hefur verið gripið til verulegra vaxtahækkana, ólíkt því sem gert hefur verið í seðlabanka evrunnar, enda verið talið að efnahagsástandið þar standi ekki undir vaxtahækkunum. Ekki er ólíklegt að þetta breytist á fimmtudag, þegar næsta vaxtaákvörðun verður tekin fyrir evrusvæðið. Seðlabankinn þar á orðið erfitt með að láta eins og verðbólgan komi honum ekki við og megi óáreitt fara í tveggja stafa tölu.

Verðbólgan hér á landi er á svipuðu róli og í Evrópu og Bandaríkjunum, en ástæður hennar eru að hluta til aðrar. Orkuverð hefur snarhækkað erlendis og hefur mest um hækkun verðbólgunnar að segja, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hér á landi er það hins vegar ekki orkan sem veldur verðbólgunni. Í staðinn er það að stórum hluta húsnæðisskortur í boði meirihlutans í Reykjavík.

En hækkar ekki olían hér á landi líkt og erlendis, kynni einhver að spyrja. Svarið er vissulega jú, það hækkar hér, eins og sjá má á bensínstöðvunum. En orka er ekki aðeins innflutt jarðefnaeldsneyti, fjarri því. Hér á landi er hún að stærstum hluta innlend raforka úr vatnsföllum og heitt vatn úr iðrum jarðar.

Væri Ísland tengt orkumarkaði Evrópusambandsins, væri verðbólgan talsvert hærri hér á landi. Ef Ísland þyrfti ekki að búa við meirihlutann í Reykjavík væri verðbólgan nær því sem hún er í Sviss, þar sem hún er rúm þrjú prósent. Sviss hefur einnig borið gæfu til að vera ekki beintengt orkumarkaðnum evrópska og þarf því ekki að þola höggið af hækkandi orkuverði með sama hætti og ríki Evrópusambandsins.