Helga Aðalsteinsdóttir fæddist í Nesi við Seltjörn 21. september 1950. Hún lést á líknardeild Landspítalans 11. júlí 2022. Níu ára að aldri flutti hún með foreldrum sínum og systkinum að Korpúlfsstöðum. Foreldrar Helgu voru hjónin Aðalsteinn Þorgeirsson, f. 1916, d. 1987, bústjóri ættaður frá Önundarfirði, og Svanlaug Þorsteinsdóttir, f. 1919, d. 2007, uppalin í Reykjavík. Helga var fimmta barn þeirra hjóna af átta. Systkini hennar eru Guðrún, f. 1939, d. 2018, Þorgerður, f. 1940, Ísfold, f. 1946, Þorsteinn, f. 1948, Aðalsteinn, f. 1952, Birgir, f. 1955 og Svanlaug, f. 1959.

Helga giftist 9. júní 1973 Ásbirni Þorleifssyni en þau slitu samvistir vorið 2000. Börn Helgu og Ásbjarnar eru: 1) Pálmi Ásbjarnarson, f. 1975. Börn hans eru Róbert Andri og Árdís Helga. 2) Bryndís Ásbjarnardóttir, f. 1977. Börn hennar eru Helga María og Arnar Orri. 3) Íris Björk Ásbjarnardóttir, f. 1982. Eiginmaður hennar er Kristinn Ólafur Kristinsson, f. 1978. Synir þeirra eru Mikael Andri, Viktor Ágúst, Kristinn Arnar og Tómas Fannar.

Helga gekk í Brúarlandsskóla í Mosfellsbæ. Árið 1966 fór Helga í vist hjá Ingibjörg Helkås fyrir utan smábæinn Sky í Noregi. Þar sinnti hún hestamennsku og ýmsum bústörfum. Árið 1969 fór hún sem au pair til Long Island í New York og dvaldi þar í eitt ár. Helga var mikil hestakona og stundaði hestamennsku frá barnsaldri. Á yngri árum starfaði hún hjá Tryggingu hf. og í versluninni London dömudeild hjá Katli Axelssyni. Á meðan börnin voru að alast upp vann hún mikið heima fyrir, meðal annars við prjónaskap. Varði hún talsverðum tíma í sjálfboðavinnu í skíðaskála Ármanns og vann tvö sumur hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Hún byggði einbýlishús í Hryggjarselinu með þáverandi eiginmanni sínum, Ásbirni. Árið 2000 flutti Helga til Skotlands í rúmt ár og vann þar við umönnun. Eftir það hóf Helga störf hjá Austurbakka og undi þar vel þar til fyrirtækið var lagt niður. Við tóku afleysingastörf yfir sumarið þar til hún hóf störf hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti Íslands. Þar starfaði hún fram að 67 ára aldri. Útför Helgu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. júlí 2022, klukkan 13.

Leiddu mig heim í himin þinn

hjartkæri elsku Jesús minn.

Láttu mig engla ljóssins sjá

er líf mitt hverfur jörðu frá.

(Rósa B. Blöndals)

Það er komið að kveðjustund, elsku Helga okkar kvaddi þennan heim 11. júlí 2022. Ekki óvænt en samt óvelkomið. Baráttan var löng og ströng. En æðruleysi þitt og lífslöngun var sterk. Þú vildir sigrast á veikindunum og komast í ferðina til Hollands. Það var markmið þitt allan tímann. Nú er komið að ferðinni og þú losaðir þig við líkamann svo þú mættir ferðast óhindrað með þeim sem þú elskar mest, svo að þú megir vaka yfir þeim og gleðjast með þeim í ferðinni. Mikilvægast í lífnu voru börnin og barnabörnin þín. Þú varst vakin og sofin yfir velferð þeirra og hamingju. Elsku Helga, góða ferð, þú skilur eftir stórt skarð í hóp okkar Saumsystra. Við höfum haldið hópinn frá því í september 1968. Við hittumst fyrst í Gagnfræðaskóla verknáms Brautarholti í saumadeild. Frá þeim tíma höfum við verið tengdar vináttuböndum og þau slitna ekki þó svo þú farir fyrst á næsta tilverustig. Við munum hittast að nýju og gleðjast saman.

Guðdómlegur geisli blíður

greiðir skuggamyrkan geim.

Á undravængjum andinn líður

inn í bjartan friðarheim.

(Hugrún)

Með þakklæti fyrir allt, stórt og smátt, sem við eigum í minningasjóðnum okkar, þá er það nánast ómögulegt að eiga ekki eftir að sjá brosið þitt og heyra hlátur þinn og geta faðmað þig. Það er erfitt að hugsa sér lífið án þín og kærleika þíns elsku Helga. Við dáðumst að hugrekki þínu og æðruleysi í baráttu þinni. Nú færð þú að láta gleði þína og brosið lýsa þeim sem þú verður samferða á nýjum stað. Megi allar fallegu og góðu minningarnar um þig hugga og strykja börnin þín og barnabörnin. Við vissum að þig langaði að vera lengur hjá þeim og taka þátt í framtíð þeirra. En áhrif þín verða til staðar í hjörtum þeirra og huga um ókomin ár. Við vottum þeim öllum innilega samúð. Elsku Helga, við þökkum þér fyrir minningarnar sem hugga okkur og biðjum algóðan Guð að geyma þig í faðmi sínum. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Við erum ríkari vegna þín og þess sem þú skilur eftir hjá okkur.

Deyr fé, deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Dagný, Erna, Eygló, Jórunn, Kristín, Sesselja og Valgerður.

Elsku mamma, það er erfitt að trúa að þú sért farin. Eins og við töluðum um fyrir ekki svo löngu þá munt þú ávallt fylgja okkur í hjartanu og lifa í minningum okkar. Það er eitt af því sem ég dáðist að síðustu mánuði, hvað þú gast talað við okkur um allar hliðar á þessari erfiðu vegferð sem þú gekkst í gegnum. Við rifjuðum einnig upp gleðistundir, hlógum, dönsuðum og nutum hverrar stundar saman. Styrkur þinn og æðruleysi gaf okkur styrk í gegnum þessi veikindi. Ég hef alltaf dáðst að sjálfstæði þínu og getu til þess að gera, að mér finnst, allt sjálf. Þú varst útsjónarsöm og lausnamiðuð, eitthvað sem ég lærði af þér út frá ýmsum skemmtilegum uppákomum í gegnum lífið. T.d. þegar ég ca. 10 ára ákvað að búa til drulluköku, þú komst heim og í stað þess að skamma mig segir þú; þetta er eins og hið besta lummudeig, bættu bara við smá hveiti. Það reyndist vera alveg rétt, bestu lummur sem ég hef smakkað. Stuttu síðar var ég að fullkomna lummugerðina þegar reykskynjarinn fer af stað, ég hafði skilið snúruna af handþeytaranum eftir á hellunni sem var enn í gangi. Þú kipptir henni úr sambandi þar sem hún var byrjuð að sviðna í sundur og segir; við styttum bara snúruna, Íris mín. Lítið mál, enda var hann notaður í mörg ár með pínulítilli snúru. Til eru margar svona sögur í gegnum árin og eru ófá skipti þar sem strákarnir mínir hafa komið með brotinn hlut eða rifna flík og sagt: „Við þurfum að hringja í ömmu Helgu, hún getur örugglega lagað þetta.“ Þú varst alveg einstaklega hjálpsöm, alltaf reiðubúin að aðstoða okkur Óla og vera til staðar fyrir okkur. Við eigum margar góðar minningar þar sem þú flaugst um allar trissur, bókstaflega: Tulsa, Flórída, New York og Las Vegas til að heimsækja okkur og aðstoða. Minnisstætt er þegar við eignuðumst frumburð okkar. Við vorum ung og vildi ég koma til Íslands til að eiga. Við fengum að búa hjá þér fyrstu vikurnar sem foreldrar. Óli fékk mjög stutt frí úr vinnu svo hann fór fyrr út, þú flaugst því með mér og Mikael heim til Las Vegas. Þið Óli áttuð það saman að hafa unun af góðri matseld, það var svo gaman að heyra ykkur ræða ýmsar aðferðir í eldamennskunni í gegnum árin og ekki má gleyma rauðkálinu fína sem enginn borðaði nema þið tvö. Það var einstaklega gaman að fylgjast með þér með barnabörnunum, gleðin sem skein úr augum þínum þegar þú varst með þeim. Þú varst alltaf til staðar fyrir strákana, bæði í gleði og sorg, það var alltaf hægt að treysta á þig og áttu þeir allir einstaka tengingu við þig. Oft eru það litlu hlutirnir sem standa upp úr eins og þegar þú fórst í vatnsbyssustríð með þeim, þeir fengu að gista hjá þér og þið fóruð á KFC eða þegar þú komst í heimsókn til að fara með strákana og Jack okkar í göngutúr. Besta veganestið sem þú hefur gefið mér er að ala mig upp í þeirri trú að ég geti gert allt sem ég ætla mér. Þú varst mín stærsta klappstýra í þessu lífi og ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki haft þig til að styðja við bakið á mér. Takk fyrir að vera mamma mín, ég elska þig.

Þín

Íris Björk.