Eldey Mikið var af fugli og ungum framan við myndavélina í júlí 2021.
Eldey Mikið var af fugli og ungum framan við myndavélina í júlí 2021. — Ljósmynd/eldey.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Það hefur greinilega orðið hrun í súlustofninum í Eldey. Í júlí í fyrra voru um og yfir 300 fuglar fyrir framan vefmyndavélina en nú eru þeir rúmlega 100,“ segir Sigurður Harðarson rafeindavirki.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það hefur greinilega orðið hrun í súlustofninum í Eldey. Í júlí í fyrra voru um og yfir 300 fuglar fyrir framan vefmyndavélina en nú eru þeir rúmlega 100,“ segir Sigurður Harðarson rafeindavirki. Hann hefur umsjón með vefmyndavél í Eldey. Myndir úr henni sjást á eldey.is . Líklegasta skýringin er fuglaflensa.

„Ég sé ekki heldur neina súluunga á myndinni. Þá hef ég ekki séð neina nýja dauða fugla undanfarið eins og var á tímabili. Maður sá alltaf nýja og nýja dauða fugla,“ segir Sigurður. Fuglshræin hverfa ofan í drulluna á milli hraukanna sem súlan situr á. Þar er mikill fuglaskítur og hræin virðast rotna mjög hratt.

„Það voru dauðir fuglar beint fyrir framan myndavélina. Ég sé aðeins móta fyrir þeim nú, vegna þess að ég veit hvar þeir eru. Það er varla hægt að sjá neitt lengur af fuglinum.“

Sigurður kvaðst nýlega hafa rætt við skipstjóra sem rær frá Keflavík. „Hann sagði að þeir sæju dauðar súlur úti um allt í Faxaflóanum, fljótandi á sjónum. Það voru að jafnaði um 40.000 súlur í Eldey. Ef við gefum okkur að 30% af þeim hafi drepist, þá er það gríðarlegur fjöldi,“ segir Sigurður.

Súludauða hefur einnig orðið vart í Færeyjum. Þar hafa einnig fundist margir dauðir skúmar og er dauði þeirra rakinn til fuglaflensunnar.

Gott ástand í Eyjum

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, fór nýlega um allar úteyjar Vestmannaeyja og þar var súluvarp í góðu standi.

„Þetta er svipað og menn sjá á Nýfundnalandi. Þar eru örfáar sjófuglabyggðir, þar sem er mikið um dauða fugla en ekki í öðrum,“ segir Erpur. „Þeir eru líka farnir að sjá langvíur, álkur og lunda drepast og fljóta dauða á sjónum við Nýfundnaland eftir að hafa fengið fuglaflensu. Hún hefur verið mjög svæsin á Bretlandseyjum og eins í Noregi. Fuglarnir okkar virðast almennt hafa sloppið vel hingað til, nema súlurnar í Eldey.“

Erpur er nú í lundarallinu og var í Grímsey í gær. „Hér eru allir klettar fullir af fugli og það var eins í júní. Ég keyrði eftir Landeyjasandi í maí og júní til að sjá hvort eitthvað hefði rekið þar af hræjum. Við höfum fylgst með ástandinu þar í tvö ár. Það var ekkert óvenjulegt að sjá nú og ekkert meira rekið af dauðum fuglum en venjulega.“