Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson og kallar Rófur: Í garðinum var gróður fagur, greru þarna alls kyns blóm sólu vermd á sumardegi, sumir töldu þetta hjóm. Þarna ætti að rækta rófur, rósir vildu ekki sjá.

Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson og kallar Rófur:

Í garðinum var gróður fagur,

greru þarna alls kyns blóm

sólu vermd á sumardegi,

sumir töldu þetta hjóm.

Þarna ætti að rækta rófur,

rósir vildu ekki sjá.

Af rófum magafylli fengu,

fölnuðu svo blómin smá.

Á morgungöngu um Höfðaskóg komst Anton Helgi Jónsson á frábæra tónleika:

Engin nóta reynist röng

róin fyllir hugann

þegar ástarsælusöng

syngur hunangsflugan.

Jón Jens Kristjánsson um veðrið:

Langt er í vetur og langt í hret

er ljóst þeim sem betur vita

fullyrt að geti fyrri met

fallið hjá Bretum hita

Hér yrkir hann hvatningu til kvennalandsliðsins sem leikur við Frakka í hitaviðvörun:

Þær munu ei berjast í bökkum

er binda á sig skóna með tökkum

hér sé þeim lof

þó helst verði um of

heitt til að spila í frökkum.

Guðmundur Beck fann þessa á blaði, – Kannski hef ég stolið þessu eða gert í svefni?

Vita skaltu víst til sanns

vert er á að minna

að blessun ríka burgeisans

er bölvun allra hinna.

Friðrik Steingrímsson um lífsins gang:

Ólafur bóndi var oft með raus

þó aldrei hann vissi neitt í sinn haus.

Var alltaf í basli

og búið í drasli,

dag nokkurn dó hann svo ráðalaus.

Magnús Halldórsson orti á sunnudag:

Það er ekkert hjá ýmsu hinu,

eins og jú margur sér,

en lofsvert hvað lúsmýinu,

líkar að smakka á mér.

Þessi boðskapur Kristjáns H. Theódórssonar líkar mér enda á níræðisaldri:

Hófsöm drykkja heilsu eflir,

haft er fyrir satt.

Ungdómurinn tæpt þó teflir,

ef teygar ölið hratt.

Öldungur úr bauk og bikar,

bergja veigar má.

Frá því marki ef hvergi hvikar,

hvern dag, sér að fá.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is