Fokið er í flest skjól önnur en þau sem Pútín „mikli“ er sagður veita skálkum nær og fjær.

Mikill er máttur Pútíns, ef marka má að um langt skeið hefur hann verið skálkaskjól fyrir margra þjóðarleiðtoga, gangi ekki allt í haginn. Geri þeir mistök eða séu óþægilega langt frá því að efna hástemmd loforð, sem hjálpuðu þeim í kosningum, skal Pútín leika stóra rullu í þeim hrakförum öllum.

Þegar Donald Trump sigraði nokkuð óvænt í kosningum var sett upp gríðarlega langt og snúið leikrit um samantekin ráð þeirra Trumps og Pútíns og samsæri um að tryggja slíka niðurstöðu. Tugir saksóknara og löglærðra aðstoðarmanna undir forystu fyrrum forstjóra FBI voru látnir liggja yfir þeim „ásökunum og yfirheyrslum“ á þriðja ár! Helstu fjölmiðlar vestra, kenndir við meginstraum fjölmiðlunar í landinu, að ógleymdum „stórblöðunum tveimur“, Washington Post og New York Times, tóku virkan þátt í leiknum með birtingu lekinna frétta, stundum vikulega, frá sérstaklega áreiðanlegum heimildum, enda „stórblöðum“ varla trúað til annars.

Allt var þetta á sandi byggt og fyrrnefndum fjölmiðlum til hneisu. Á daginn kom að kosningastjórn Hillary Clinton hafði pantað þessa samsuðu í skýrsluformi um mótframbjóðandann frá fyrrum breskum njósnara og greitt fyrir.

Biden ákvað með forsetatilskipun, á fyrstu dögum í embætti, að leggja stein í götu þess að Bandaríkin væru áfram sjálfbær í olíuframleiðslu. Verð eldsneytis í Bandaríkjunum hefur rokið upp úr öllu valdi, en sú verðhækkun, segir Biden, er „Pútín að kenna“ en ekki ákvörðunum hans sjálfs! Verðbólga í Bandaríkjunum er að sögn Bidens einnig alfarið sök Pútíns, en Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, blés á þá kenningu við yfirheyrslu á þingi. Verðbólgan hafi verið komin á fulla ferð, löngu fyrir innrás Rússa, og stafi fyrst og síðast af ógætilegum fjárlagasprengingum sem álpast var í.

Tæknikratastjórn Marios Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, virðist nú riða til falls, en um það verður kosið á þingi í dag, miðvikudag. Þeir, sem vilja verja Draghi falli, segja að aðförin að stjórn hans sé gerð til að styrkja stöðu Pútíns í stríði hans við Úkraínu og þykir betra að veifa röngu tré en öngvu.