[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir fæddist 20. júlí 1982 í Reykjavík. Hún ólst upp í Ártúnsholtinu en þangað flutti hún fjögurra ára gömul ásamt foreldrum sínum og systkinum.

Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir fæddist 20. júlí 1982 í Reykjavík. Hún ólst upp í Ártúnsholtinu en þangað flutti hún fjögurra ára gömul ásamt foreldrum sínum og systkinum. Þorbjörg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 2002 og hóf þá nám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2006. Meðfram grunn- og menntaskóla stundaði Þorbjörg píanónám við Nýja tónlistarskólann og lauk framhaldsgráðu í píanóleik árið 2004.

Hún vann sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum en árið 2007 hóf hún laganám við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 2012. „Meðfram laganáminu starfaði ég sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Að laganámi loknu hóf ég störf hjá umboðsmanni skuldara og starfaði þar fram að mínu fyrsta fæðingarorlofi.“ Undanfarin ár hafa Þorbjörg og eiginmaður hennar, Ólafur Páll Vignisson, verið í eigin rekstri en þau eiga og reka gistihús fyrir austan, á Hornafirði. Gistihúsið heitir Lilja Guesthouse og eru þau þar með 26 herbergi auk veitingaþjónustu. „Gistiheimilið er á Hólabrekku, jörð sem maðurinn minn ólst upp á og okkur stóð til boða að byggja þarna viðbót við húsið sem var fyrir en tengdamóðir mín rak þar sambýli. Hún hafði hætt rekstrinum og húsið stóð autt með níu herbergjum svo við ákváðum að byggja til viðbótar við það og eru þar samtals 26 herbergi í dag. Við sögðum upp okkar störfum og ákváðum að reka þetta saman. Reksturinn hófst 2017 og hefur gengið vonum framar en heimsfaraldurinn setti vissulega strik í reikninginn og þegar Covid skall á snerum við til annarra starfa.“

Stuttu eftir að heimsfaraldurinn skall á hóf Þorbjörg störf í smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis og var ein þriggja stjórnenda teymisins. „Bókanirnar hrundu niður um þetta leyti og við þurftum að finna okkur aðra vinnu. Við lokuðum hins vegar aldrei fyrir fullt og allt og héldum alltaf í vonina um að þetta myndi hrökkva aftur í gang. Ég skráði mig í bakvarðasveitina og var síðan kölluð inn í smitrakningarteymi almannavarna og fór strax á fullt í það. Maðurinn minn fór út í lögmennsku og sinnir því enn þann dag í dag. Ferðaþjónustan er aftur komin af stað og gistihúsið okkar er þéttbókað. Við erum svo heppin að hafa gott starfsfólk fyrir austan sem annast daglegan rekstur.“

Þorbjörg er í talsmannaþjónustunni og starfar nú sem talsmaður hælisleitenda. Hjónin eru að ýmsu leyti enn að jafna sig eftir áhrif heimsfaraldursins en sjá fram á bjarta tíma. „Við sjáum um öll samskipti og bókanir við viðskiptavini okkar en erum ekki tilbúin til að sleppa takinu á störfum okkar í borginni að svo stöddu. Það var rómantísk hugsun hjá okkur í byrjun að flytja austur í rólegra umhverfi og rútínu en það gekk ekki þar sem við fengum hvorki húsnæði né leikskólapláss fyrir börnin okkar. Það er okkar draumur að eiga afdrep fyrir austan þar sem við getum farið og verið yfir sumartímann. Maðurinn minn á rætur að rekja þangað en hann ólst upp á þessari jörð og móðir hans átti þar heima. Stjúpfaðir hans býr þar í dag og er með fjárbúskap á jörðinni. Þetta tekst hjá okkur einn daginn. Það er dásamlegt að vera þarna og finna kraftinn frá jöklunum allt í kring.“

Þorbjörg er upptekin kona en finnur sér þó tíma fyrir áhugamál og snúa þau helst að útiveru, ferðalögum og samveru með fjölskyldu og vinum. „Ég var komin með mikla hlaupadellu á tímabili og vonast til að geta stundað náttúruhlaup að nýju en ég tók pásu frá hlaupum þegar ég gekk með þriðju dóttur okkar sem nú er orðin 16 mánaða gömul.“

Fjölskylda

Eiginmaður Þorbjargar er Ólafur Páll Vignisson, f. 3.10. 1984, lögmaður. Þau eru búsett í Úlfarsárdal og eiga þrjár dætur: Ragna Maren, f. 24.4. 2013, Aldís Anna, f. 5.5. 2015, og Katrín Elva f. 15.3. 2021. Fyrir á Ólafur tvo syni, Arnar Hrafn, f. 6.7. 2005 og Vignir Valur, f. 17.11. 2006. Systkini Þorbjargar eru: Dagbjört Þorsteinsdóttir, f. 10.8. 1971, kennari í Reykjavík, og Styrmir Þorsteinsson, f. 1.2. 1974, stálsmiður, búsettur á Þórarinsstöðum í Hrunamannahreppi.

Foreldrar Þorbjargar eru hjónin Þorsteinn B. Jónmundsson, f. 4.8. 1944, húsgagnasmiður, og Ragna Jóhannsdóttir, f. 17.3. 1948, hjúkrunarfræðingur.