Þakklæti Ingibjörg Sigurjónsdóttir flutti þakkarorð í Hafnarhúsinu. Í bakgrunni sjást verk eftir Erró.
Þakklæti Ingibjörg Sigurjónsdóttir flutti þakkarorð í Hafnarhúsinu. Í bakgrunni sjást verk eftir Erró. — Morgunblaðið/Hákon
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Mér hafa alltaf þótt þetta svo ótrúlega falleg verðlaun, en hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að þau myndu falla mér í skaut.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Mér hafa alltaf þótt þetta svo ótrúlega falleg verðlaun, en hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að þau myndu falla mér í skaut. Þessi viðurkenning kemur mér því ánægjulega á óvart,“ segir Ingibjörg Sigurjónsdóttir sem í gær hlaut styrk úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Hafnarhúsinu á 90 ára afmælisdegi Errós. Var þetta í 23. sinn sem styrkurinn er veittur. Listamaðurinn Erró stofnaði sjóðinn árið 1997 til minningar um móðursystur sína Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. „Markmið sjóðsins er að styrkja myndlistarkonur með því að veita þeim sérstök framlög til viðurkenningar og eflingar á listsköpun þeirra. Að jafnaði er veitt árlega úr sjóðunum en í tilefni 90 ára afmælis Errós ákvað stjórn sjóðsins að veita sérstaka aukaúthlutun,“ segir í tilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur. Síðast var veitt úr sjóðnum í apríl í tengslum við opnun yfirlitssýningar Errós í Hafnarhúsinu.

„Það felst dýrmæt hvatning í því að hljóta þessa viðurkenningu. Þetta er stuðningur og hvati til að halda áfram og gera meira,“ segir Ingibjörg.

Mikilvægur fjársjóður

Ingibjörg, sem fædd er í Reykjavík árið 1985, lauk BA-gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Aðspurð segist Ingibjörg vinna fjölbreytt myndlistarverk, jafnt þrívíða skúlptúra, lágmyndir og rýmisverk sem teikningar og málaðar myndir. „Verk mín eiga það til að láta lítið yfir sér. Þau gefa ekki alveg allt upp við fyrstu sýn. Þau eru oft afar viðkvæm og þurfa mikla aðstoð frá áhorfendum til að fá að vera til, því sum þeirra má bókstaflega ekki anda á án þess að þau hrynji,“ segir Ingibjörg og tekur fram að verk hennar einkennist þannig af hverfulleika sem endurspeglist bæði í efnisvalinu og framsetningu. „Mér finnst spennandi að ögra lögmálum stöðugleika og þyngdar þannig að áhorfandinn skynjar að ekkert er gefið. Fábrotin fundin efni sem bera í sér dulda merkingu verða svo oft mestu verðmætin,“ segir Ingibjörg og bætir við að í einhverjum skilningi sé hún ávallt að vinna með verk sem séu á mörkum þess að vera til.

Styrkupphæðin sem Ingibjörg hlýtur úr Listasjóði Guðmundu nemur einni milljón króna, sem er ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi. „Svona peningar verða smá heilagir og þeir þurfa að fara í myndlistina sjálfa. Þetta má ekki fara í rafmagnsreikninginn,“ segir Ingibjörg ákveðin og tekur fram að styrkupphæðin sé sér því mikilvægur fjársjóður sem hún geti gripið í þegar á þurfi að halda í hennar listsköpun.