[merki Samkeppniseftirlitsins, Mílu og Símans]
[merki Samkeppniseftirlitsins, Mílu og Símans]
Tugmilljarða kaup franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á dótturfélagi Símans er nú í uppnámi vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sett.

Tugmilljarða kaup franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á dótturfélagi Símans er nú í uppnámi vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sett. Þessi skilyrði gætu orðið til þess að ekkert verði af kaupunum eða í það minnsta að kaupverðið lækki. Tilkynnt var um kaupin í október í fyrra og hófust þá umræður um mögulega hættu af því að erlendur aðili eignaðist svo mikilvægan tæknibúnað hér á landi. Slíkar áhyggjur eiga rétt á sér. Ráðherrar fjölluðu meðal annars um málið og niðurstaðan varð sú að með tilteknum ráðstöfunum væri ekki hætta á ferðum.

Kaupin eru nú búin að velkjast hjá SKE mánuðum saman. Forstjóri Símans hefur bent á að SKE hafi áður sjálft mælt með því að slíta í sundur eignarhald Símans og Mílu.

Forstjóri helsta keppinautarins, Sýnar, tekur undir þetta og vonast eftir að kaupin gangi í gegn. Hann telur seinaganginn í afgreiðslu málsins hjá hinu opinbera einsdæmi í Evrópu. Og hann bendir á að Sýn hafi lent í svipuðu og að ferlið hér taki þrefalt lengri tíma en gerist í öðrum Evrópulöndum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kvartað er undan því að SKE tefji mál óhóflega eða þvælist fyrir umfram það sem tíðkast erlendis eða ástæða er til.

Hvernig stendur á því að þetta ástand er látið viðgangast hér á landi árum saman?