[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Yfirhagfræðingur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af því að matarverð geti hækkað enn frekar.

Maximo Torero Cullen, yfirhagfræðingur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), segir nokkra samverkandi þætti hafa aukið líkur á matvælakreppu.

Aðgerðir til að örva hagkerfin í kórónuveirufaraldrinum hafi þrýst á hrávöruverð, þar með talið matarverð, þegar innrás Rússlands í Úkraínu ýtti enn frekar undir matarverð.

Vegna góðrar birgðastöðu fyrir faraldurinn hafi áhrifin verið minni en ella.

„Vandamálið er að ef birgðir halda áfram að minnka, niður fyrir tiltekinn þröskuld, þá getur markaðurinn ekki brugðist við til samræmis. Það hefur nú áhrif á verðið líkt og árin 2007/2008. Ef ekki er hægt að losa um birgðir til að brúa bilið vegna minni framleiðslu, þá mun það að sjálfsögðu höggva skörð í framboðið,“ segir Torero og bendir á óbein áhrif stríðsins á áburðarmarkaðinn. Orkuverð hafi hækkað í kjölfar innrásarinnar, þar með talið verð á jarðgasi, og það leitt til þess að áburðarverksmiðjum var lokað. Þá hafi hömlur á útflutningi áburðar frá Rússlandi haft áhrif.

Er ekki að aukast á móti

„Verðið [á matvörum] í ár endurspeglar nú þegar höggið á framboðshliðinni. Áhyggjuefni næsta árs er ef Rússar og Úkraínumenn geta ekki flutt út kornmeti en þá munu 30% af útflutningnum falla niður. Hversu mörg ríki skyldu geta vegið það upp? Ef verð á áburði væri lágt og framboðið nægt, þá gætu þau bætt upp 70% til 80% af þessum mun. Þá yrði minna framboði mætt með aukinni framleiðslu og verð myndi hækka en þó ekki umtalsvert. Vandamálið í augnablikinu, og áhyggjuefni okkar, er að þetta er ekki að gerast,“ segir Torero en ViðskiptaMogginn hitti hann að máli í Róm. Hafði hann þá í nógu að snúast en hærra matarverð hefur sett mannúðaraðstoð FAO í viðbragðsstöðu.