Njáll Skarphéðinsson hefur vakið athygli fyrir námshæfileika sína.
Njáll Skarphéðinsson hefur vakið athygli fyrir námshæfileika sína.
Logi Sigurðarson logis@mbl.is Njáll Skarphéðinsson hlaut tilnefningu fyrir Siebel Scholar-styrkinn, sem er gríðarlega eftirsóttur.

Njáll ræddi við blaðamann í gegnum fjarskiptaforritið Zoom, en þá var hann nýmættur á skrifstofu Facebook í Kaliforníu þar sem hann nú vinnur. Njáll er í meistaranámi í gervigreind hjá Carnegie Mellon, einum fremsta tölvunarfræðiskóla í heiminum. Njáll er eini Evrópubúinn sem komst inn í námið. Aðeins geta tölvunarfræðinemendur hjá tíu skólum hlotið styrkinn, úr skólum á borð við Harvard, Stanford, MIT, Berkeley og Carnegie Mellon. Njáll útskýrir að ekki sé hægt að sækja um styrkinn heldur tilnefna yfirstjórnendur hjá skólunum nemendur. Nemendur þurfa að hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi og sýnt fram á leiðtogahæfni. Þeir sem hljóta styrkinn fá úthlutaðar tæpar fimm milljónir króna. Með tilnefningunni er Njáll kominn í hóp með Sundar Pichai, forstjóra Google.

Þarft að vera á toppnum

„Þetta er örugglega einn flottasti og eftirsóttasti styrkur sem hægt er að fá ef þú ert í meistara- eða doktorsnámi. Þeir gera mjög miklar kröfur um það hverjir geta hlotið styrkinn. Í raun og veru þarftu að vera alveg á toppnum hvað varðar námsárangur og einkunnir. Síðan þarftu að hafa sýnt fram á leiðtogahæfileika,“ segir Njáll, en hann var hæstur í náminu á síðustu önn.

Í þágu íslenskrar máltækni

Inntur eftir því hvernig hann hafi sýnt fram á leiðtogahæfileika nefnir hann rannsókn sem hann fór fyrir, sem snerist um söfnun gagna fyrir íslenska máltækni. Hann leiddi tíu manna teymi og þar af voru fjórir doktorar. Að auki hefur Njáll starfað við fyrirtækjarekstur og nýsköpun á Íslandi.

„Tilfinningin var geggjuð, en málið er að þegar maður er í skóla sem er bestur í heiminum í einhverju þá segir það sig sjálft að allir í kringum þig eru ótrúlega færir,“ segir hann. Aðspurður segist Njáll hafa brennandi áhuga á gervigreind og vill hann helst vinna að þróun hennar þar sem hún hafi áhrif á raunveruleikann. Hann nefnir sem dæmi sjálfkeyrandi bíla. Njáll segir að gríðarleg tækifæri séu fyrir gervigreind að gera matvælaiðnaðinn á Íslandi skilvirkari, þá sérstaklega í sjávarútvegi þar sem Ísland stendur nú þegar mjög framarlega.

Spurður hvernig það sé að vinna fyrir eitt stærsta tæknifyrirtæki í heimi og búa í Kaliforníu segir hann það vera gaman. Veðrið sé ávallt gott, eitthvað sem Íslendingar kannast ekki við. Hann hafi verið smá smeykur er hann flutti fyrst út þar sem allt virtist vera á suðupunkti í landinu en svo komið í ljós að lífið þar væri jafn eðlilegt og á Íslandi.