Guðmundur Kristinn Gunnarsson fæddist 30. ágúst 1930 á Gestsstöðum í Sanddal í Borgarfirði. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 9. júlí 2022.

Foreldrar Guðmundar voru Kristín Jóhannsdóttir, f. 22.6. 1894, d. 25.8. 1987, og Gunnar Daðmar Guðjónsson, f. 7.9. 1899, d. 5.1. 1949. Systur Guðmundar eru Jóhanna, f. 22.10. 1931, Guðrún, f. 7.9. 1933, d. 23.7. 2016, og Sesselja Þorbjörg, f. 17.11. 1934.

Eiginkona Guðmundar er Þórhildur Arnfríður Jónasdóttir, f. 1.6. 1930. Þau gengu í hjónaband 21.12. 1954. Dætur Guðmundar og Þórhildar eru: 1) Kristín Hólmfríður, f. 21.9. 1954, maki Sölvi Jónsson, f. 25.1. 1954, d. 10.9. 2013. Börn þeirra eru: 1) Arnhildur Eyja, f. 15.1. 1980, maki Ólafur Guðmundsson, f. 25.10. 1979, þeirra börn Kristófer Sölvi og Katrín Lea. 2) Borghildur Ína, f. 7.3. 1984, maki Guðlaugur Rúnar Jónsson, f. 17.2. 1981, þeirra börn Eyja og Sær. 3) Gunnar Óli, f. 1.11. 1986, börn hans Arnar og Halldóra. 2) Elín Gunnhildur, f. 21.11. 1959, maki Lúðvík Eckardt Gústafsson, f. 14.5. 1951. Börn þeirra eru: 1) Dagmar Þórhildur, f. 21.7. 1996, sambýlismaður Þangbrandur Húmi Sigurðsson, f. 30.11. 1996. 2) Benedikt Máni, f. 18.12. 2001. Dóttir Lúðvíks af fyrra hjónabandi er Ásdís Berglind, f. 9.8. 1980, maki Ólafur Þorsteinsson, f. 13.9. 1977, þeirra börn Styrmir Bergur og Hekla Guðrún.

Guðmundur stundaði gagnfræðaskólanám í Reykjavík og fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk stúdentsprófi vorið 1951. Að stúdentsprófi loknu flutti Guðmundur norður í Laugar í Reykjadal þar sem hann starfaði sem kennari við héraðsskólann til ársins 1973 er fjölskyldan flutti til Akureyrar. Eftir það var Guðmundur starfsmaður Skattstofu Norðurlandsumdæmis eystra, eða allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Meðfram störfum sínum á skattstofunni og eftir að hann fór á eftirlaun vann Guðmundur sem leiðsögumaður og fararstjóri íslenskra og erlendra ferðamanna. Hann fór margar ferðir sem fararstjóri hjá Ferðafélagi Akureyrar og hjá því félagi gegndi hann einnig stjórnarstörfum. Fyrir störf sín hjá Ferðafélaginu var Guðmundur útnefndur heiðursfélagi. Guðmundur tók þátt í ýmsum öðrum félagsstörfum, til dæmis söng hann um árabil í karlakórum og var félagi í Lionsklúbbum.

Útför Guðmundar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. júlí 2022, klukkan 13.

Í dag kveð ég ástkæran föður minn, Guðmund Kristin Gunnarsson. Við slík tímamót reikar hugurinn til baka.

Mínar fyrstu minningar eru tengdar Laugum í Reykjadal þar sem við bjuggum þar til ég var 14 ára. Gott var að vera kennarabarn og alast upp á Laugum. Þar var margt um manninn, mikið af börnum og alltaf eitthvað um að vera. Á þessum árum voru héraðsskólar menningarsetur dreifbýlisins þar sem íslenskar hefðir voru í hávegum hafðar. Pabbi naut þess að starfa við slíka stofnun og var enginn svikinn af vinnuframlagi hans. Ýmsar samkomur voru fastir liðir í skólastarfinu, svo sem skólasetning, útskrift, 1. desember-hátíð og þorrablót, að ógleymdum böllunum. Tónlistarfólk úr skólanum og nágrenni fékk tækifæri til að stíga á svið á þessum uppákomum. Þar gat pabbi ræktað tónlistaráhuga sinn. Einnig fengu aðrir fjölskyldumeðlimir að sækja þessa viðburði sem var upphefð fyrir alla.

Ferðalög voru ætíð ofarlega í huga pabba. Pabbi var mikill unnandi íslenskrar náttúru, kunnátta hans var ótæmandi þannig að alltaf var nóg að segja frá. Fjölskyldan fór í ótalmargar ferðir um landið. Oft voru farnar illfærar slóðir á hálendinu, enda átti pabbi ávallt jeppabifreiðar á þeim árum. Sumar ferðir voru talsvert glæfralegar, til dæmis þegar pabbi þurfti næstum að skríða eftir hengibrú yfir Tungná til að ná í bílakláfinn sem þá var staðsettur hinum megin við ána.

Meirihluti fjölskyldu pabba býr á höfuðborgarsvæðinu. Lítil dreifbýlisstúlka hlakkaði alltaf til árvissra ferða suður til að heimsækja ættingjana. Ég naut þess að fá að skoða í búðir „stórborgarinnar“ og jafnvel kaupa eitthvert lítilræði. Slíkt var ekki sjálfsagður hlutur á þeim árum og fæstir skólafélaganna norður á Laugum höfðu heimsótt höfuðborgina.

Seinna varð ég þess aðnjótandi að ferðast erlendis með foreldrum mínum. Einnig heimsóttu pabbi og mamma mig tvisvar til Berlínar þar sem ég var við nám. Pabbi gat alltaf komið manni á óvart með þekkingu sinni á staðháttum, mönnum og málefnum á erlendri grundu.

Pabbi átti mörg áhugamál. Hann las mikið og á heimili okkar var til mikið af bókum. Þar mátti finna alls konar bókmenntir, allt frá flóknustu fræðibókum til spennandi glæpasagna. Einnig gerði hann sér far um að lesa bækur á sem flestum tungumálum. Enska, Norðurlandamál, þýska og jafnvel franska voru engin hindrun en hann gerði sér far um að viðhalda sinni menntaskólatungumálakunnáttu og notaði orðabækur óspart.

Foreldrar mínir heimsóttu mig og fjölskyldu mína reglulega hér fyrir sunnan meðan heilsan leyfði. Fyrst komu þau ávallt akandi en eftir að heilsu pabba hrakaði varð flug fyrir valinu. Við leituðumst við að fara með þeim á tónleika eða aðra menningarviðburði. Ég man vel að það var glaður öldungur sem í fyrsta sinn heimsótti Hörpu og hlýddi á Sinfóníuhljómsveit Íslands spila undurfagra klassíska tónlist.

Pabbi minn, nú ertu lagður af stað í þitt hinsta ferðalag.

Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Elín Gunnhildur (Ella Gunna).