[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Reykjavíkurstórveldin KR og Fram skildu jöfn, 1:1, í lokaleik 13. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í gærkvöldi.

Fótboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Reykjavíkurstórveldin KR og Fram skildu jöfn, 1:1, í lokaleik 13. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í gærkvöldi. KR er því áfram í sjöunda sæti, nú með 17 stig, og Fram í sætinu fyrir neðan með 14.

Úrslitin voru heilt yfir sanngjörn í frekar jöfnum leik. Ægir Jarl Jónasson jafnaði snemma í seinni hálfleik fyrir KR eftir að Magnús Þórðarson hafði komið Fram yfir undir lok fyrri hálfleiks. Leikurinn var allt öðruvísi en þegar liðin mættust í fyrstu umferðinni. Þá keyrðu KR-ingar yfir nýliðana, sköpuðu sér fullt af færum og unnu 4:1. Þá átti góð byrjun að leggja grunninn að sterku tímabili hjá KR en nýliðarnir virtust vera í vandræðum. Síðan þá hefur Fram vaxið töluvert í deild þeirra bestu á meðan KR-ingar hafa verið í nokkru basli. KR átti í stökustu vandræðum með að skapa sér færi á móti skipulögðu Framliði, sem hefur gert vel í að styrkja sig í félagaskiptaglugganum.

Almarr og Brynjar styrkja Fram

„Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn úrvalsdeildarinnar spáðu KR 4. sætinu í sumar en í þar var nýliðum Fram spáð 12. og neðsta sætinu. Það var í ágætis takti við þann spádóm að KR vann sannfærandi 4:1-sigur er liðin mættust í fyrstu umferðinni en síðan þá hefur betur ræst úr tímabili Framara, sem spiluðu vel í kvöld.

Með innkomu Almarrs Ormarssonar á miðjuna og Brynjars Gauta Guðjónssonar í vörnina er komin reynsla og yfirvegun í lið nýliðanna, sem fékk á sig alltof mörg mörk í fyrstu umferðum mótsins. Framarar hafa bara tapað einum af síðustu sex leikjum sínum og eru að spila sinn besta fótbolta til þessa í sumar. Að sama skapi hefur KR nú ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum og virðist ekkert ganga upp í Vesturbænum,“ skrifaði Kristófer Kristjánsson m.a. um leikinn á mbl.is.

KR hefur aðeins unnið einn leik af sjö á heimavelli í sumar og aðeins skorað sex mörk, sem er afleit uppskera hjá eins stóru félagi. Sæti Rúnars Kristinssonar gæti verið orðið heitt, en kröfurnar eru miklu meiri í Vesturbænum. Þar vilja menn berjast um titla.

Flestir spáðu Frömurum beint aftur niður í 1. deildina, en eftir leikinn í gær er Fram sex stigum fyrir ofan fallsæti eftir þrettán leiki. Þá er liðið nýbyrjað að spila á glænýjum og glæsilegum heimavelli í Úlfarsárdal og á fínni siglingu í deild þeirra bestu eftir langa veru í næstefstu deild. Þetta er góður tími til að vera Framari eftir mögur ár.

KR – Fram 1:1

0:1 Magnús Þórðarson 44.

1:1 Ægir Jarl Jónasson 47.

M

Grétar Snær Gunnarsson (KR)

Pálmi Rafn Pálmason (KR)

Sigurður Bjartur Hallsson (KR)

Ægir Jarl Jónasson (KR)

Almarr Ormarsson (Fram)

Delphin Tshiembe (Fram)

Magnús Þórðarson (Fram)

Tiago Fernandes (Fram)

Dómari : Sigurður H. Þrastarson – 8.

Áhorfendur : Um 850.

* Liðsuppstillingar, gul spjöld, viðtöl og greinar um leikina – sjá mbl.is/sport/fotbolti.