Loksins Anko van der Werff, forstjóri SAS, er sæll að deilu lokinni.
Loksins Anko van der Werff, forstjóri SAS, er sæll að deilu lokinni. — AFP/Lars Schroder
Eftir að fréttir bárust af samningum í deilu flugmanna skandinavíska flugfélagsins SAS í fyrrakvöld, og þar með lokum 15 daga verkfalls sem setti strik í reikning margs ferðalangsins, innan sem utan Norðurlandanna, var í fyrstu óljóst um afdrif nýs...

Eftir að fréttir bárust af samningum í deilu flugmanna skandinavíska flugfélagsins SAS í fyrrakvöld, og þar með lokum 15 daga verkfalls sem setti strik í reikning margs ferðalangsins, innan sem utan Norðurlandanna, var í fyrstu óljóst um afdrif nýs samnings.

Frá SAS barst tilkynning um að ekkert hefði verið undirritað, þrátt fyrir að fjölmiðlar kepptust við að segja frá samningum í höfn. Eldsnemma í gærmorgun var því loks slegið föstu að málinu væri lokið að þessu sinni.

Loksins eðlilegur rekstur

Nýi samningurinn nær til fimm og hálfs árs og tryggir meðal annars 450 af 560 flugmönnum, sem misstu störf sín í heimsfaraldrinum, vinnu á ný. „Loksins getum við hafið eðlilegan rekstur á nýjan leik og flogið með viðskiptavini okkar í eftirsóttar sumarleyfisferðir,“ sagði Anko van der Werff, forstjóri félagsins, í gær.

Flugmennirnir sem misstu vinnuna brigsluðu SAS um að komast hjá endurráðningum með því að nýta sér starfsmannaleigur. Þeim áburði hafa stjórnendur félagsins vísað á bug frá upphafi.

„Það gleður mig mjög að deilunni er lokið. Hún stóð allt of lengi og hafði allt of víðtæk áhrif,“ sagði Roger Klokset, formaður stéttarfélags norskra flugmanna SAS, í gær, um leið og hann bað farþega félagsins afsökunar á verkfalli sem náði til 900 flugmanna.

„Von mín er að við komum flugumferð í gang á nýjan leik svo fljótt sem verða má og komum fólki þangað sem það ætlar sér. Það er ánægjuefni að við tókum slaginn fyrir þá sem sættu uppsögnum og á þeim vettvangi tel ég okkur hafa unnið sigur,“ sagði Klokset enn fremur.