Glaðbeittur mótmælandi heldur fána Srí Lanka á lofti fyrir framan forsetahöllina. Þjóðin er fegin að losna við Rajapaksa-ættina en ástand hagkerfisins verður lengi að skána.
Glaðbeittur mótmælandi heldur fána Srí Lanka á lofti fyrir framan forsetahöllina. Þjóðin er fegin að losna við Rajapaksa-ættina en ástand hagkerfisins verður lengi að skána. — AFP/Arun Sankar
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá París ai@mbl.is Óskynsamlegar innviðaframkvæmdir, mikil skuldasöfnun og röð heimskulegra inngripa hafa kippt fótunum undan hagkerfi Srí Lanka og erfitt er að finna góða lausn á vandanum.

Það er vísindaleg staðreynd að hápunkti tónlistarmenningar 9. áratugarins var náð í apríl 1982 þegar þeir Simon Le Bon, Nick Rhodes, Roger Taylor, John Taylor og Andy Taylor lentu á eyjunni Srí Lanka.

Duran Duran hafði slegið í gegn árið 1981 með samnefndri plötu. Tökum á plötunni Rio var nýlokið þegar strákarnir voru sendir með hraði til Asíu til að gera nokkur tónlistarmyndbönd. Ástralinn Russell Mulchay (sem síðar átti eftir að leikstýra fyrstu Highlander -myndinni) stjórnaði verkefninu. Rétt eins og strákarnir í bandinu var hann kornungur en hafði samt afrekað að gera myndbönd fyrir m.a. Paul McCartney, Elton John og Ultravox.

Gengu um hvítar strendur

Öllu var tjaldað til og útkoman var þrjú einstaklega dramatísk og hrífandi tónlistarmyndbönd fyrir lögin „Save a Prayer“, „Hungry Like the Wolf“ og „Lonely in Your Nightmare“. Þar má sjá strákana úr bandinu ganga um hvítar strendur og fögur musteri, klæddir í tvíhneppt pastellituð jakkaföt – hver öðrum sætari og að sjálfsögðu með sítt að aftan og risavaxna axlapúða.

Af myndböndunum þremur er „Save a Prayer“ langsamlega best og tvinnar saman ómótstæðilega laglínu, safaríkan texta og þá allra bestu landkynningu sem Srí Lanka hefur nokkurn tíma fengið. Þar bregða piltarnir á leik og baða sig með fílum, heimsækja fallegt hótel í nýlendustíl og spóka sig á toppi klettavirkisins Sigiriya. Framandi umhverfið rímar einstaklega vel við lag sem fjallar á seiðandi hátt um skyndikynni og þá ólgandi greddu sem við mannfólkið eigum yfirleitt svo erfitt með að hemja – sama hversu oft hún kemur okkur í vandræði.

Spennan lá í loftinu

Á meðan á tökum stóð fór ekki fram hjá meðlimum sveitarinanr að mikil spenna var í loftinu hjá þessu sárafátæka landi. Ári síðar braust út skelfileg borgarastyrjöld sem átti eftir að vara í aldarfjórðung og kosta a.m.k. 150.000 mannslíf.

Á meðan borgarastyrjöldin geisaði stóð efnahagur Srí Lanka nánast í stað og var það ekki fyrr en upp úr aldamótum að friðarumleitanir tóku að bera einhvern árangur – og strax tók hagkerfið mikinn kipp svo að landsframleiðsla á mann fjórfaldaðist frá 2004 til 2018. Var þessi litla eyja suðaustur af Indlandi komin á fleygiferð; ferðamenn og fjármagn streymdu inn og loksins virtist framtíðin björt.

Tómlegir flugvellir og hraðbrautir

Undanfarna mánuði hafa fjölmiðlar flutt fréttir af síversnandi efnahagshruni Srí Lanka og í dag er þar allt komið í kaldakol. Gjaldeyrisforði landsins er á þrotum og ríkissjóður ræður ekki einu sinni við að greiða vexti af himinháum skuldum. Gengi srílönsku rúpíunnar hefur lækkað um helming og uppskerubrestur hjá bændum. Verðbólga er í hæstu hæðum og skortur á bæði eldsneyti og matvælum.

Eins og söguhetjurnar í lagi Duran Duran fór Srí Lanka aðeins of hratt um gleðinnar dyr með Rajapaksa-ættina við völd og þarf núna að súpa seyðið af misgáfulegum pólitískum ákvörðunum hennar.

Valdatíð Rajapaksa-ættarinnar hófst árið 2005, þegar Mahinda Rajapaksa var kjörinn forseti landsins með 50,3% atkvæða. Hann var ekki lengi að raða ættingjum sínum í safarík embætti og gerði t.d. bróður sinn, Gotabaya, að ráðherra varnarmála. Þeir Mahinda og Gotabaya hófust handa við að brjóta uppreisn Tamíla á bak aftur af mikilli hörku og báru að lokum sigur úr býtum. Þrátt fyrir að hafa sýnt algjört vægðarleysi og hafa ótal voðaverk á samviskunni, voru bræðurnir hetjur í augum landsmanna, enda hafði loksins verið bundinn endir á átökin. Í kosningunum 2010 hlaut Mahinda nærri 58% atkvæða og var næsta verkefni á dagskrá að stórbæta innviði í landinu.

Leikvangur og orkuver

Verður seint hægt að segja að Mahinda hafi skort framkvæmdagleði og var hafist handa við meiri háttar hafnarframkvæmdir á tveimur stöðum á landinu. Nýr alþjóðaflugvöllur reis í suðurhlutanum, nýtt raforkuver var byggt norðan við höfuðborgina og fyrsta flokks hraðbrautir lagðar eftir strandlengjunni. Svo dugði ekkert minna en 35.000 sæta krikket-leikvangur.

Það veitti svo sem ekki af að bæta innviðina en kannski gefur það lesendum vísbendingu um hve mikið vit var í öllum þessum framkvæmdum að mannvirkin voru flest kennd við Mahinda sjálfan.

Leið ekki á löngu þar til við blasti að fjármagnið, sem var að stærstum hluta fengið að láni frá Kína, hafði ekki verið nýtt sérstaklega vel. Nýju hraðbrautirnar voru aðallega notaðar til að smala nautgripahjörðum á milli staða og á nýja alþjóðaflugvellinum, þar sem starfa fimm hundruð manns, lenti aðeins ein flugvél á dag. Til að bæta gráu ofan á svart sáu kínversk stjórnvöld að mestu um framkvæmdirnar og notuðu vinnuafl sem var flutt inn frá Kína, svo að allt malbikið og steypan sköpuðu sáralitla vinnu fyrir heimamenn.

Mahinda tapaði gegn Maithripala Sirisena í forsetakosningunum 2015 en komst inn á þing sama ár. Gotabaya var síðan kjörinn forseti 2019 og gerði Mahinda að forsætisráðherra.

Sprengjur, veirur og gjaldeyrisskortur

Þótt Mahinda hefði mátt vanda sig betur við arðsemisútreikningana, þá hefði dæmið kannski getað gengið upp með smá heppni. Enda fjölgaði ferðamönnum ár frá ári og erlendir fjárfestar höfðu komið auga á ótal kosti Srí Lanka, enda landið bæði með duglegt og ódýrt vinnuafl og heppilega staðsett upp á siglingaleiðir til Austur-Asíu og Evrópu að gera.

En allt breyttist á augabragði að morgni páskadags 2019. Þá arkaði hryðjuverkamaður inn í kaþólska kirkju í höfuðborginni Colombo og sprengdi bæði sjálfan sig og messugesti í loft upp. Áður en dagurinn var á enda höfðu verið gerðar árásir á þrjár kirkjur og þrjú hótel og nærri 280 manns látið lífið.

Strax varð mikill samdráttur í komum ferðamanna og gjaldeyristekjur landsins snarminnkuðu. Til að örva hagkerfið var ákveðið að ráðast í róttækar skattalækkanir með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð og lægri lánshæfiseinkunn. Áður en jákvæð áhrif lægri skatta komu fram, fór kórónuveiran á kreik og þurrkaði upp það litla sem eftir var af ferðaþjónustunni.

Það var þá sem að stjórnvöld á Srí Lanka tóku sína allra heimskulegustu ákvörðun: Deilt er um hvort að Gotabaya og Mahinda voru svona einstaklega metnaðarfullir fyrir hönd landbúnaðar í Srí Lanka, eða hvort þeir vildu einfaldlega spara gjaldeyri, en í apríl 2021 var lagt bann á innflutning á áburði og skyldi landbúnaður Srí Lanka verða lífrænn eftirleiðis.

Til að gera langa sögu stutta snarminnkaði uppskera srílanskra bænda, svo að landið þurfti að byrja að flytja inn matvæli sem það hafði áður ræktað sjálft. Við þetta jókst þrýstingurinn á gjaldmiðilinn enn frekar og vöruverð rauk upp.

Fleiri lönd á sömu braut

Eftir langvinn mótmæli sauð loksins upp úr þann 10. júní. Tugir þúsunda mótmælenda kveiktu í heimili forsætisráðherrans og ruddu sér leið inn í forsetahöllina. Þeir Rajapaksa-bræður og þeirra slekti eru ýmist farin úr landi eða láta lítið fyrir sér fara.

Í dag kýs þing landsins nýjan forseta og gefa þrír frambjóðendur kost á sér. Einn er fulltrúi hægriflokksins UNP, annar er fulltrúi sósíaldemókrataflokksins SLPP sem verið hefur pólitískt bakland Rajapaksa-ættarinnar, og svo eiga marx-lenínistar líka sinn fulltrúa.

Sama hver tekur við völdum, þá virðist eina lausnin í stöðunni að þiggja öll þau neyðarlán sem í boði eru, til að reyna að endurræsa hagkerfið, með tilheyrandi skilyrðum. Verður sérstaklega erfitt að koma landbúnaðinum aftur í lag, enda srílönsk bændastétt bláfátæk og jafnvel þótt áburðarbanninu hafi verið slaufað, mun taka langan tíma að ná framleiðslunni á fyrra stig. Ferðamennirnir láta heldur ekki sjá sig ef bensínið er á þrotum og rafmagnið tekið af með reglulegu millibili.

Verður áhugavert að sjá hvernig Srí Lanka reiðir af, og þá ekki síst vegna þess að margar þjóðir sjá fram á að lenda í svipuðum vanda áður en langt um líður. Ef að tekst að leysa Srí Lanka úr snörunni, þá boðar það kannski gott fyrir lönd á borð við Egyptaland, Túnis, Pakistan, Gana, Kenía og Ekvador, sem eru komin á ystu nöf fjárhagslega.

Simon Le Bon gæti ekki bjargað þeim öllum þótt hann vildi.