Byggingar Braggarnir þrír, lengi pakkhús Kaupfélags Rangæinga, hafa sett svip sinn á Hvolsvöll. Sá þeirra sem er lengst hér til hægri verður rifinn fljótlega og hinir síðar. Frábært byggingarsvæði á allra besta stað opnast með því.
Byggingar Braggarnir þrír, lengi pakkhús Kaupfélags Rangæinga, hafa sett svip sinn á Hvolsvöll. Sá þeirra sem er lengst hér til hægri verður rifinn fljótlega og hinir síðar. Frábært byggingarsvæði á allra besta stað opnast með því. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Til stendur á næstu vikum að rífa einn af þremur bröggum sem standa á baklóð við Austurveg í miðbænum á Hvolsvelli. Í fyllingu tímans á raunar að rífa alla braggana og lóðin sem þeir standa á verður tekin undir nýjar verslunar- og þjónustubyggingar. Mikil eftirspurn er nú eftir slíku húsnæði á Hvolsvelli og mikilvægt er að svara kalli þar um, segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Til stendur á næstu vikum að rífa einn af þremur bröggum sem standa á baklóð við Austurveg í miðbænum á Hvolsvelli. Í fyllingu tímans á raunar að rífa alla braggana og lóðin sem þeir standa á verður tekin undir nýjar verslunar- og þjónustubyggingar. Mikil eftirspurn er nú eftir slíku húsnæði á Hvolsvelli og mikilvægt er að svara kalli þar um, segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.

Sveitamarkaður hafi aðstöðu

Braggarnir þrír voru reistir fyrir áratugum af Kaupfélagi Rangæinga, sem þá var og hét. Þeir voru lengi pakkhús, hvar fengust meðal annars ýmsar vörur til landbúnaðar, sem bændur í nærliggjandi sveitum nýttu sér. Seinna var verslun Húsasmiðjunnar í bröggunum. Í einum þeirra er nú markaður með ýmsar vörur smáframleiðaenda á svæðinu.

„Nú verður að segjast eins og er að braggarnir eru ónýtir. Til að mynda er allt burðarvirki þeirra ryðgað í gegn,“ segir Anton Kári.

„Við byrjum því á að rífa einn bragganna og annan að hluta til. Látum þó einn standa áfram, svo sveitamarkaðurinn, sem er mikilvæg starfsemi, hafi áfram aðstöðu.“

Verslanir, veitingahús og íbúðir

Nýtt deiliskipulag fyrir miðbæinn á Hvolsvelli var samþykkt fyrir þremur árum. Samkvæmt því verður útbúin gata að baki Austurvegi, sem er aðalgata bæjarins og hluti af Hringveginum. „Á þessu nýja miðbæjarsvæði sjáum við fyrir okkur að verði einnar til þriggja hæða hús þar sem gætu verið til dæmis veitingastaðir, litlar verslanir og í einhverjum tilvikum íbúðir. Slíkt húsnæði er mikilvægt að fá hér, enda í samræmi við þá þróun hér í byggðarlaginu sem við viljum sjá,“ segir Anton Kári um framvindu þessara mála sem hafa verið lengi í deiglunni.

Auglýst hefur verið eftir tilboðum í niðurrif braggans – og því fylgir að fyrirtækið sem verkefnið fær myndi einnig annast gatnagerð og aðra jarðvinnu á svæðinu. Ætlunin er síðan sú að hefjast megi handa við byggingaframkvæmdir á svæðinu undir lok þess árs eða á fyrri hluta þess næsta.