Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Smyril Line Cargo við Hafnarskeið 22 í Þorlákshöfn. Þær verða á þriðja þús. fermetrar.
Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Smyril Line Cargo við Hafnarskeið 22 í Þorlákshöfn. Þær verða á þriðja þús. fermetrar. — Teikning/Arkís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo, segir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins í Þorlákshöfn muni efla starfsemina enn frekar.

Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi, segir áformað að hefja framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins í Þorlákshöfn í haust.

Fyrirtækið hefur auglýst eftir tilboðum í verkið og er útboðsfrestur til 29. ágúst. Verkið felst í að byggja 2.241 fermetra vöruhús, aðliggjandi 268 fermetra skrifstofuhús og 81 fermetra tollgæsluhús á lóð fyrirtækisins við Hafnarskeið 22, að því er segir í útboðslýsingu. Skal framkvæmdum við nýju höfuðstöðvarnar vera lokið hinn 30. október 2023.

Spurð hvað verkið kosti, bendir hún á að beðið sé tilboða í verkið. Þegar niðurstaða útboðsins liggi fyrir verði hægt að ræða kostnaðinn.

„Við erum með tvö vöruhús í Þorlákshöfn. Eigum annað húsið en leigjum hitt. Með þessari nýbyggingu sameinum við alla starfsemina og skrifstofuna í Þorlákshöfn,“ segir Linda. Hún segir aðspurð ekki standa til að flytja þangað skrifstofuna við Klettháls í Reykjavík.

„Nýja húsið verður sérsniðið að okkar starfsemi. Við verðum með sextán hleðslubryggjur en við flytjum vörur með flutningavögnum. Við munum geta bakkað þeim að hliðunum og losað vörur beint inn í vöruhúsið. Þar verður sérrými fyrir kælivöru, en við flytjum út mikið af fiski, og hinn hlutinn verður fyrir þurrvöru í innflutningi. Þarna verður allt á einum stað; skoðunarstöð fyrir tollinn, góð aðstaða fyrir starfsmenn og svo afgreiðsla og skrifstofuhúsnæði. Umhverfi starfsmanna verður mun betra. Við erum með góða vörumeðhöndlun en hún verður enn betri þegar hægt verður að keyra allar vörur beint inn í vöruhús. Nú notum við færanlegar hleðslubryggjur en þetta verður þægilegri aðstaða undir einu þaki. Allt skipulag hjá okkur í Þorlákshöfn batnar en við erum nú dreifð um bæinn.“

Innflutningur aukist mikið

Hvar er eftirspurnin að aukast?

„Bæði í inn- og útflutningi. Við höfum vaxið mjög hratt á fimm árum. Við byrjuðum með eitt skip í apríl 2017 en erum nú með þrjú skip á viku. Innflutningur hefur aukist gífurlega á allri vöru, þ.m.t. þurrvöru og neytendavöru, en bílar, vélar og tæki eru líka stór hluti innflutningsins, sem og byggingarvörur.

Landeldi skapar tækifæri

Í útflutningi er stærsti hlutinn ferskur fiskur. Úflutningur á laxi er að aukast og það munu skapast mikil tækifæri í Þorlákshöfn þegar landeldið byrjar. Þannig að við sjáum fyrir okkur áframhaldandi vöxt á þessu svæði, svæði sem næstum enginn var að hugsa um þegar við byrjuðum en hefur aldeilis blómstrað síðan skip okkar, Mykenes, kom í fyrsta skipti í apríl 2017. Veltan hefur aukist mikið og viðskiptavinir í inn- og útflutningi hafa tekið þessum möguleika vel. Við sköpuðum mikla samkeppni og buðum upp á nýja leið til að flytja vörur. Við flytjum ekki vörur í gámum, eða setjum tæki á dekk, sem sjór getur gengið yfir, heldur er allur flutningur innan skips og allt keyrt inn og út. Vörumeðhöndlun er einföld og flutningstíminn skammur.

Þorlákshöfn er frábær staður en auðvitað tókum við áhættu með því að sjá hvort það myndi ganga að koma með svona stór skip. Það hafði ekki verið reynt en hefur gengið mjög vel. Nú er verið að stækka höfnina, sem skapar enn betri tækifæri fyrir okkur til að koma með enn stærri skip,“ segir Linda.

Styttir siglingatímann

Þú nefnir hagræðið fyrir ykkur af því að vera í Þorlákshöfn en hver er ávinningur viðskiptavina?

„Það sem gerði útslagið er að ekki þarf að sigla fyrir Reykjanesið en það tekur átta tíma hvora leið. Með því var hægt að afhenda útflutningsvöru fram á föstudagskvöld og hún var komin í dreifingu um alla Evrópu á þriðjudagsmorgni. Þetta breytti miklu fyrir fiskframleiðendur, sem gátu unnið ferskan fisk fram eftir degi á föstudegi í staðinn fyrir að þurfa að frysta fiskinn eða senda í flugi. Þannig sköpuðum við nýja leið til að flytja út ferskan fisk en við þekktum markaðinn og vissum að þetta þyrfti.“