Elín Guðlaugsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 21. apríl 1930. Hún lést á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra, Dalhrauni 3 í Vestmannaeyjum.

Foreldrar hennar voru Ragnhildur Friðriksdóttir frá Rauðhóli, Dyrhólahreppi, f. 12. júní 1902, d. 16. ágúst 1977, og Guðlaugur Halldórsson frá Stórabóli á Mýrum, f. 20. maí 1898, d. 2. apríl 1977. Systkini Elínar: Friðþór, f. 1926, Alda, f. 1928, Guðbjörg (tvíburasystir Elínar), f. 1930, og Vigfúsína, f. 1934.

Maki Elínar var Jóhann Ármann Kristjánsson, f. 29. desember 1915, d. 6. desember 2002. Börn Elínar og Jóhanns Ármanns eru: Guðlaugur, f. 29.4. 1948, maki Margrét Jenný Gunnarsdóttir, f. 17.5. 1951. Börn þeirra eru a) Sigríður Elín, f. 18.4. 1973, maki Bjarnhéðinn Grétarsson, þau eiga þrjú börn. b) Agnes, f. 2.5. 1977, maki Þorbjörn Víglundsson, og eiga þau þrjú börn. c) Jóhann Ármann, f. 18.9, 1981. Ragna, f. 6.11. 1949, maki Jørn Bukdahl Boklund, f. 8.10. 1946. Börn þeirra eru a) Erik Jóhann, f. 6.10. 1969, b) Anette Ella, f. 15.6. 1971, maki Jan Idor Jacobsen Boklund, f. 1971, og eiga þau þrjú börn. Guðný Kristín, f. 7.6. f. 1953. Jóhann Ellert, f. 8.10. 1956, maki Solveig Inger Tresselt Krusholm, f. 27.4. 1958. Börn þeirra eru a) Simon, f. 26.11, 1983, b) Sarah, f. 3.10. 1986, maki Liv-Irén Westnes og eiga þær tvö börn.

Elín ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar allt sitt líf að undanskildu í gosinu 1973-1974. Hún fór þá í sjúkraliðanám og útskrifaðist sem sjúkraliði haustið 1974. Elín vann framanaf við fiskvinnslu í Fiskiðju Vestmannaeyja, en stærstan hluta starfsævi sinnar starfaði hún sem sjúkraliði á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja þar til hún fór á eftirlaun 1998.

Útför Elínar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum i dag, 20. júlí 2022, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ella frænka mín verður borin til grafar í dag. Ég næ eiginlega ekki utan um hugsunina að það sé engin Ella frænka í Vestmannaeyjum. Mér er þungt fyrir brjósti þegar ég sest niður og reyni að setja saman nokkur orð til að minnast hennar frænku minnar. Það er svo margt sem kemur upp í hugann.

Það var ekki sjaldan sem ég hringdi í Ellu frænku til að ræða um lífið og tilveruna og eins kom fyrir að hún hringdi til að fylgjast með hvernig lífið gengi hjá mér og var hvatning hennar mér mikils virði.

Ella frænka missti manninn sinn, Jóhann Á. Kristjánsson, í desember 2002. Þetta var mikill missir, því þau tókust á við lífið í sameiningu, gleði þess og sorgir, af slíkri rósemi og styrk, sem þeim einum er fært sem mikið er gefið. Mér er það í barnsminni að fólkið mitt nefndi nöfn þeirra hjóna alltaf saman. Ella og Jói í Vestmannaeyjum.

Ég var ein af þeim fjölmörgu sem voru svo heppin að eiga ávallt stað á Bessastígnum, hvort sem það var gisting, matur, kærleikur eða hvetjandi orð.

Hlátur þeirra og lífsgleði var ástæðan fyrir því að það var alltaf líf og fjör á heimilinu, enda hjónin einstaklega gestrisin. Ávallt veisluborð með öllum þeim dýrindis kræsingum sem hugsast geta. Nú tilheyrir kaniltertan fortíðinni.

Það var svo aðdáunarvert hvað þau bæði tvö gáfu sér mikinn tíma fyrir okkur krakkana. Það var mikið hlegið og sprellað og var hún jú stundum kölluð Ella sprella.

Ég minnist hennar með hlýju í hjarta og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að eiga hana sem frænku. Hún var einstök manneskja og alltaf til staðar, alveg sama hvað var. Ég mun ávallt muna góðmennsku hennar og kærleika. Hugur minn er fullur af minningum sem munu lifa áfram. Hún var fyrirmynd og mun ég hafa minningar um dugnað hennar og hlýju að leiðarljósi í lífi mínu.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna,

sem horfðu eftir þér í sárum trega,

þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,

þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

(Tómas Guðmundsson)

Gulli, Ragna, Guðný, Jóhann og fjölskyldur, ég votta ykkur samúð mína.

Aníta Hamar Thorarensen.

Þegar við hjónin fluttum til Eyja árið 1974 voru ytri aðstæður þar ekki eins og í dag. Gosið hafði gjörbreytt Heimaey, vikursandur var um allt og fauk hann svo eins og hríðarkóf þegar hvessti. En þarna leið okkur einstaklega vel og var það sérstaklega að þakka öllu því góða fólki í Aðventkirkjunni sem hélt utan um okkur, hreinlega dekraði við okkur með „bílalánum“, heimboðum og alls konar stuðningi. Þar í hópi voru Ella og Jói, þessi indælishjón, sem ætíð var svo gaman að koma til. Þau voru alltaf svo lífleg, hjálpfús og rausnarleg. Það var veisla í hvert skipti sem kíkt var í heimsókn! Ella var lífsglöð, gamansöm og einstök húsmóðir. Dýrmætt er að eiga minningar um samskipti við svona eðalfólk! Og nú þegar lífshlaupi Ellu er lokið er mér efst í huga þakklæti og virðing í garð hennar og þeirra hjóna.

Guð blessi og styrki börn Elínar, fjölskyldur og ástvini alla.

Einar Valgeir.