Maximo Torero er yfirhagfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm.
Maximo Torero er yfirhagfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Maximo Torero, yfirhagfræðingur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir aukna hættu á matvælakreppu í heiminum.

Baldur Arnarson baldura@mbl.is Maximo Torero, yfirhagfræðingur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir aukna hættu á matvælakreppu í heiminum. Með því á hann við að minna framboð og hærra verð geti skert fæðuöryggi ríkja sem standa höllum fæti í því efni. Þá minnki hátt áburðarverð líkur á að markaðurinn geti brugðist við minna framboði frá Úkraínu og Rússlandi, í kjölfar innrásar Rússa, með því að auka við framleiðsluna á móti. Það geti þrýst enn frekar á matarverð. Við þetta bætist hærri fjármagnskostnaður.

Á leiðinni til höfuðstöðva Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm ekur leigubílstjórinn hringinn í kringum Colosseum og staðnæmist svo við annan enda Circus Maximus sem skemmdist mikið í bruna í tíð Nerós keisara en var svo endurbyggður. Þar handan götunnar eru höfuðstöðvarnar.

Vopnaleit er sambærileg við það sem gerist á flugvöllum og taka öryggisverðir á móti gestum á marmaraklæddum gangi. Gengið er upp tröppur og þar innar er stofnskrá stofnunarinnar meitluð í marmara á sex tungumálum. Þar við hlið er skjöldur til minningar um ráðstefnu í Hot Springs í Virginíu í miðri síðari heimsstyrjöldinni. „Hér, á Homestead-hótelinu, hafa 44 þjóðir fundað 18. maí til 3. júní, 1943, og lagt til að stofnuð verði Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem tileinkuð er betra lífi fyrir alla jarðarbúa.“

Nú, tæpum 80 árum síðar, stendur heimurinn frammi fyrir hættunni á mikilli hungursneyð í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Það er því einkar forvitnilegt að heyra hvernig Maximo Torero Cullen, yfirhagfræðingur stofnunarinnar, metur horfurnar á þessum ólgutímum.

Sat í stjórn Alþjóðabankans

Torero lauk doktorsnámi frá Kaliforníuháskóla (UCLA) og starfaði hjá alþjóðlegu rannsóknarstofnuninni International Food Policy Research Institute (IFPRI) í 15 ár en hún heyrir undir Alþjóðabankann. Þá sat hann í stjórn Alþjóðabankans í tvö ár, ásamt því að vera prófessor í hagfræði við Kyrrahafsháskóla í heimalandi sínu, Perú, og Alexander von Humboldt-félagi við Háskólann í Bonn.

Samtalið hefst á að ræða um ástæður þess að matvælaverð fer hækkandi um heim allan.

„Eitt af vandamálunum hvað snertir útflutning á landbúnaðarafurðum, ekki síst kornmeti, er mikil samþjöppun. Nokkur ríki gegna lykilhlutverki við útflutning á kornmeti. Svo dæmi sé tekið var hlutfallið [hjá helstu útflutningsríkjum] í hveiti um 68% árið 2008, um 80% í maís og um 90% í hrísgrjónum. Það þýðir að fimm helstu löndin fluttu út 80% til 90% af afurðunum. Nú stöndum við frammi fyrir sambærilegri áskorun. Af því leiðir að þegar útflutningur stöðvast frá tveimur ríkjum, Rússlandi og Úkraínu, dregst útflutningur á kornmeti – ekki framleiðslan – saman um 30%. Þegar stríðið braust út var búið að flytja út um 70% af kornmetinu [frá þessum tveimur ríkjum] en hluti þess beið útflutnings og þess vegna hefur verðið hækkað. Svo ein skýringin á því sem er að gerast [varðandi þróun matvælaverðs] er að útflutningur frá þessum ríkjum hefur stöðvast. Þessi vandi á sér hins vegar lengri aðdraganda vegna þess að í kjölfar kórónuveirufaraldursins leiddu aðgerðir til að örva eftirspurn í hagkerfunum til aukins þrýstings á hrávöruvörumarkaði, þ.m.t. matvörur. Svo verðið var þegar á uppleið. Stríðið í Úkraínu hefur bætt gráu ofan á svart.“

Eftirspurnin var markvisst aukin

Gætirðu útskýrt þetta nánar?

„Ráðist var í umtalsverðar aðgerðir til að reisa við hagkerfin [í faraldrinum]. Þróuðu ríkin ýttu umtalsvert undir neyslu með örvandi aðgerðum. Ef framboðið er stöðugt og eftirspurnin er aukin þá mun verðið hækka og við horfum nú fram á það... Nú stendur fjöldi ríkja frammi fyrir matvælakreppu af ástæðum sem eru ótengdar verðþróun. Þessi 53 ríki horfa fram á slíka kreppu vegna átaka, loftslagsbreytinga og efnahagslegs samdráttar.“

Hvað áttu við með því að þessi 53 ríki standi nú frammi fyrir matvælakreppu?

„Þegar við vísum til landa sem eru í matvælakreppu tökum við mið af flokkunarkerfi [um matvælaöryggi sem heitir á ensku The Integrated Food Security Phase Classification, IPC, og skiptist í fimm þrep og er hungursneyð efsta þrepið]. Þessi 53 ríki eru því öll ofarlega á þessum kvarða eða í þriðja þrepi eða jafnvel ofar á vissum landsvæðum. Og mörg þeirra eru í vanda vegna átaka, þar með talið Súdan og Jemen, og svo hafa þurrkar og krappar efnahagslægðir komið þeim í tvísýna stöðu. Hækkandi matarverð eykur auðvitað á vandann sem þau stóðu þegar frammi fyrir. Því er ekki hægt að halda því fram að stríðið skýri þessa erfiðleika þeirra. Þau voru þegar í vanda stödd.“

Hækkar um tugi milljarða dala

Áætlað er að rúmlega 190 milljónir manna búi í þessum 53 ríkjum. Gætirðu tekið dæmi um áhrif hærra matvælaverðs á efnahag þeirra?

„Miðað við óbreyttan innflutning mun hækkun matvælaverðs hafa í för með sér að útgjöld ríkjanna, sem teljast vera í viðkvæmastri stöðu, aukast um 45-46 milljarða dala en þar búa 1,7 milljarðar manna.

Við erum með verkefni [sem heitir á ensku Food Import Financing Facility] sem nær til þessara ríkja en þau eru í viðkvæmri stöðu. Og sú staða er skilgreind út frá heildarinnflutningi þeirra á matvælum. Þetta eru lágtekju- og meðaltekjulönd sem eiga í erfiðleikum með greiðslujöfnuð sinn. Þetta eru löndin sem munu ekki hafa ráð á hækkandi matarverði. Við höfum beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að aðstoða þessi lönd því þau munu ekki ráða við breytingar á greiðslujöfnuði sínum vegna hærra verðs á matvælum. Og það gæti endað með félagslegum erfiðleikum.“

Birgðastaðan var góð fyrir faraldurinn

Hvað með matarbirgðir?

„Þegar birgðastaðan er skoðuð þarf að gæta varúðar því að hún var góð áður en kórónuveirufaraldurinn hófst og af þeim sökum bar ekki á skorti í faraldrinum. Nægt framboð var á matvælum en vissulega hafði verð í sumum tilfellum áhrif á aðgengið. Varðandi birgðastöðuna núna ætla ég að taka Kína og Úkraínu út fyrir sviga, því við viljum sjá í hversu viðkvæmri stöðu heimurinn er. Annars vegar vegna þess að Úkraína safnar miklum birgðum vegna þess að landið getur ekki flutt þær út og hins vegar verður öll neyslan og framleiðslan í Kína ekki flutt úr landinu.

Ef við tökum hveiti sem dæmi, var birgðastaðan 154 milljónir tonna tímabilið 2018/2019 – ef Kína og Úkraína eru undanskilin – en er nú 148 milljónir tonna, tímabilið 2022/2023. Birgðir af maís hafa lækkað úr 147 milljónum tonna í 132 milljónir tonna – ef Kína og Úkraína eru undanskilin – og hefur því gengið á birgðirnar á síðustu tveimur árum.“

Birgðasöfnunin gengið til baka

Þú nefndir áðan birgðastöðuna árið 2008. Var það vegna áhrifa alþjóðlegu fjármálakreppunnar á markaðina?

„Já, og svo dró úr matvælaframleiðslu vegna þurrka árið 2011. Síðan jukust birgðir umtalsvert á ný en nú er aftur farið að ganga á þær.“

Hvaða áhrif mun það hafa á verð?

„Sem stendur er þetta ekki vandamál. Vandamálið er að ef birgðir halda áfram að minnka niður fyrir tiltekinn þröskuld þá getur markaðurinn ekki brugðist við til samræmis. Það hefur nú áhrif á verðið líkt og árin 2007/2008. Ef ekki er hægt að losa um birgðir til að brúa bilið vegna minni framleiðslu, þá mun það að sjálfsögðu höggva skörð í framboðið. Draga mun meira úr framboðinu og þá hækkar verðið.“

Hvernig meturðu þá áhættu núna?

„Ég myndi segja að hún væri enn lítil en ef stríðið heldur áfram og það gengur meira á birgðir [gæti það breyst]. Því ef losa mætti um birgðirnar í Úkraínu er staðan betri en hún var. Birgðir Úkraínu eru nú um 24 milljónir tonna og munu senn aukast enn frekar með nýrri uppskeru. Svo ef flytja mætti þá matvöru, sem fer að hluta í skepnufóður, út úr Úkraínu, þá myndum við endurheimta það sem tapaðist. En það mun ráðast af gangi stríðsins. Ef stríðið heldur áfram, birgðirnar í Úkraínu komast ekki á markað og það mun áfram ganga á birgðirnar, þá gæti áhættan farið frá því að vera lítil til þess að teljast vera miðlungi mikil. Með því myndi áhættan nálgast að vera mikil. Það gæti orðið vandamál á næsta ári en er ekki vandamál þessa árs. Fæðuframboð er ekki vandamál í ár en gæti orðið það á næstu tveimur árum.“

Matvælaverð var þegar á uppleið

Það er mikið rætt um hækkun matvælaverðs. Er hún að hluta tengd hækkandi orkuverði?

„Hér þarf að skilja milli áhrifaþátta. Sem áður segir var matvælaverð þegar á uppleið og verðið mun halda áfram að hækka.“

Hvers vegna?

„Vegna þess að hvað varðar kornmeti sjáum við ekki lausn á vandamálinu. Ef kornmetið verður ekki flutt út reiknum við ekki með því að verðið lækki. Matvælaverðsvísitala FAO náði sögulegu hámarki í mars. Hún lækkaði aðeins í apríl og svo aðeins meira í maí. Ástæða þess að hún lækkaði í apríl og maí var ekki síst sú að dregið var úr hömlum á útflutningi pálmaolíu frá Indónesíu. En verð á kornmeti heldur áfram að hækka og er enn sögulega hátt. Undir það heyra hveiti, maís og hrísgrjón. Ég segi að verð á kornmeti geti haldið áfram að hækka ef áburður kemst ekki á markað. Hátt verð á áburði skýrist ekki aðeins af eftirspurn heldur líka framboði. Orkuverð hefur þar áhrif, ekki síst verð á jarðgasi enda er þess þörf við framleiðslu á nitri. Nokkrum áburðarverksmiðjum hefur verið lokað enda stendur framleiðslan ekki undir sér þegar gasverð er jafn hátt og um þessar mundir. Þar með talið áburðarverksmiðjur í Bretlandi. Það mun setja þrýsting á framboðshliðina.

Framboðið mun því minnka en við það bætast hömlur á útflutning frá Rússlandi sem ýta enn frekar undir verðhækkanir á áburði. Það mun aftur skerða kaupgetu bænda á áburði og það mun hafa áhrif á uppskeru næsta árs, sem þrýstir enn frekar á verðið. Maís, sojabaunir og olíufræ hafa ekki aðeins bein áhrif á matarverð því þessar afurðir eru einnig notaðar í skepnufóður. Það mun auðvitað hafa áhrif á verð allra dýraafurða og þá eru olíufræ notuð í margar afurðir. Ólíkt ríkjunum í Norður-Afríku þá flytja ríkin í Afríku sunnan Sahara ekki inn mikið hveiti eða gulan maís. Ríkin í Afríku sunnan Sahara nota hins vegar olíufræ og neyta mikils magns hrísgrjóna. Framboðið á hrísgrjónum [til þessa heimshluta] var gott tímabilið 2021/2022 en ef verðið myndi hækka, þá myndi staðan í Afríku sunnan Sahara og í heiminum breytast mikið. Því þarf að afstýra því að verð á hrísgrjónum hækki eftir uppskeruna 2022/2023 en eina ástæðan fyrir því að verðið gæti hækkað tengist [verðþróun á] áburði.“

Hvað um kornmeti? Þar virðist hætta á verðhækkunum. Þú nefnir áhrifaþætti eins og áburð.

„Verð á áburði mun líka halda áfram að hækka. Þróuðu ríkin munu ráða við verðhækkanir. Ég einbeiti mér að þróunarlöndum og fátækum ríkjum. Hver skyldi vera uppistaðan í fæðu fólks í þessum löndum? Hrísgrjón í Suður-Asíu og í Afríku sunnan Sahara eru það hrísgrjón, olíufræ, kassavarót og slíkar afurðir. Hrísgrjón eru því ein helsta afurðin sem gæti aukið á vanda ríkja í viðkvæmri stöðu. Það er áhyggjuefni mitt,“ segir Torero og sýnir hvernig útflutningshömlur á Úkraínu ættu að þýða að 8 milljónir tonna vantaði upp á framboðið af hveiti. Þar muni hins vegar þremur milljónum tonna sem skýrist af því að Indverjar hafi aukið útflutning um 4,5 milljónir tonna, ásamt því sem Frakkar hafi aukið útflutning á hveiti.

Þá tekur hann dæmi af maís en þar vanti um 8 milljónir tonna í framboðið. Þar hefði átt að muna 14 milljónum tonna en raunin sé 8 milljónir tonna vegna þess að Argentína og Bandaríkin fluttu út meira. Markaðurinn hafi því brugðist við aðstæðum með því að auka framboðið.

Verð á áburði áhyggjuefni

„Verðið í ár endurspeglar nú þegar höggið á framboðshliðinni. Áhyggjuefni næsta árs er ef Rússar og Úkraínumenn geta ekki flutt út kornmeti en þá munu 30% af útflutningnum falla niður. Hversu mörg ríki skyldu geta vegið það upp? Ef verð á áburði væri lágt og framboðið nægt, þá gætu þau bætt upp 70% til 80% af þessum mun. Þá yrði minna framboði mætt með aukinni framleiðslu og verð myndi hækka en þó ekki umtalsvert. Vandamálið í augnablikinu, og áhyggjuefni okkar, er að þetta er ekki að gerast. Verð á áburði er hátt og ekki jafn viðráðanlegt og áður. Því mun markaðurinn ekki auka framboðið eins og vonast var. Við það bætast loftslagsmálin en það hafa verið töluverðir þurrkar, til dæmis í Bandaríkjunum og Brasilíu, sem minnka líkurnar á því að framboðið verði aukið í takt við væntingar. Þá snýst málið ekki lengur aðeins um að fólk hafi ekki lengur ráð á vissum matvælum heldur líka um aðgang að matvælum og þá getum við kallað það matvælakreppu.“

Þú ert hagfræðingur. Mér leikur forvitni á að heyra mat þitt á stöðunni í Bandaríkjunum. Nú er þar mikil umræða um verðbólgu og viðbrögð bandaríska seðlabankans við henni. Mun þróun mála þrengja að lágtekjufólki í Bandaríkjunum? Þar með talið kaupmætti í matvælum.

„Að sjálfsögðu. Bandaríski seðlabankinn reiknar með að vaxtahækkanir muni slá á eftirspurn. Hann stendur frammi fyrir takmörkuðu framboði [á ýmsum vörum] eða tilfærslu á eftirspurn vegna efnahagsbatans [eftir að faraldurinn gekk yfir] og vill nú takmarka eftirspurn svo verðlag lækki... Áhyggjuefnið er að allur fjármagnskostnaður hækki fyrir vikið. Að kostnaður við fjármögnun húsnæðis hækki sem og greiðslukortagreiðslur og kostnaður af lánum. Svo jafnvel í Bandaríkjunum mun efnaminna fólk þurfa að greiða hærri matarreikning, greiða meira í afborganir af lánum og borga meira fyrir rafmagn og rekstur heimilis. Svo svarið er já. Það mun þrengja að þessum hópi.

Hærri vextir þýða hærri orkukostnað

Það er mikilvægt að taka fram að matarverð er ekki að hækka vegna eftirspurnarvanda. Þegar fjármagni var beint í hagkerfin í faraldrinum varð tilfærsla á eftirspurn og nú hefur gengið á birgðirnar. Og það á sér tvær utanaðkomandi skýringar. Önnur er stríðið í Úkraínu og hin er staðan í orkugeiranum, sem hefur ekkert haft með vaxtahækkanir að gera. Hins vegar munu vaxtahækkanir auka raforkukostnað enn frekar, enda verður fjárfesting dýrari. Svo satt að segja sé ég ekki hvernig vaxtahækkanir ættu að leysa vandann, í ljósi þess hvað skýrir verðbólgu í matvöru. Ég held að vaxtahækkanir gætu aukið á vandann og það er þvert á Phillips-kúrfuna [sem lýsir sambandinu milli verðbólgu og atvinnuleysis]. En við höfum horft fram á það frá árinu 1995 að þetta samband er flöt lína svo Phillips-gildin eiga ekki lengur við. Ástæðan er sú að sækja má vinnuafl til margra staða. Það er ekki svo að hagsveiflan muni taka við launahækkunum og að því verði minna atvinnuleysi fyrir vikið. Það mun ekki gerast. Svo kenningar í hagfræði eru á breytingaskeiði,“ segir Torero.

Hann fylgir svo blaðamanni út um völundarhús höfuðstöðvanna en á leiðinni er komið við á 8. hæð en þaðan blasir við borgin eilífa sem verður 28 alda gömul eftir aldarfjórðung.