Börkur Benediktsson fæddist 15. nóvember 1925. Hann lést 20. júní 2022.

Börkur fæddist á Barkarstöðum í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu og ólst þar upp. Þar bjuggu foreldrar hans, Benedikt Björnsson og Jenný Karólína Sigfúsdóttir. Eiginkona Barkar var Sólrún Kristín Þorvarðardóttir sem lést 22. janúar síðastliðinn. Þau giftust 25. maí 1957.

Börn þeirra: 1) Sigrún Kristín, f. 23.9. 1964, svæðisstjóri. Gift Kristni Garðarssyni framkvæmdastjóra, f. 11.6. 1964. Börn þeirra eru: a) Börkur Smári, f. 12.12. 1990, kvæntur Söru Björk Lárusdóttur, f. 30.12. 1990. Börn þeirra eru Breki Freyr, Ylfa Dögg og Atli Snær. b) Sigurður, f. 23.3. 1990, kvæntur Sunnevu Rán Pétursdóttur, f. 9.3. 1994, börn þeirra eru Yrja Katrín og Tindur Huginn. c) Björn Rúnar, f. 16.6. 2000, unnusta hans er Fanney Elfa Einarsdóttir, f. 29.11. 2001. 2) Björn Helgi, f. 28.12. 1968, skrifstofustjóri. Kvæntur Ólöfu Ásdísi Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 8.2. 1974. Börn þeirra eru: a) Margrét Júlía, f. 6.7. 2001. b) Birna Kristín, f. 16.2. 2004. c) Valtýr Gauti, f. 9.11. 2009.

Börkur hlaut barnafræðslu í farskóla í Fremri-Torfustaðahreppi, stundaði nám í Reykjaskóla í Hrútafirði 1944-1945 og nam búfræði við Hólaskóla 1947-1948. Börkur og Sólrún fluttu til Reykjavíkur árið 1959. Þau keyptu jörðina Núpsdalstungu í Miðfirði og hófu þar búskap árið 1973 sem stóð allt til ársins 2015 þegar þau fluttu aftur til Reykjavíkur.

Útför verður frá Melstaðarkirkju í Miðfirði miðvikudaginn 20. júlí kl. 14.

Athöfninni verður streymt á vef Melstaðarkirkju:

https://tinyurl.com/2ccvsscn

Nú eru þau bæði farin yfir móðuna miklu, elsku mamma og pabbi, með rétt fimm mánaða millibili. Það er skrítið, þótt mig hafi grunað að ekki yrði langt á milli þeirra enda voru þau einstaklega samheldin hjón.

Mamma var ung, aðeins 15 ára, þegar hún kynntist þessum myndarlega bóndasyni innan úr Miðfirði. Ömmu leist ekkert allt of vel á þennan ráðahag þar sem hann var aðeins átta árum yngri en hún sjálf eða 28 ára. Hverjum hefði svo sem litist á það í dag? Í sambandi foreldra minna skipti aldursmunurinn aldrei máli. Mamma var þroskuð og ábyrg og pabbi léttur í lund og fasi og gerði eins og Solla hans vildi. Þau bjuggu um tíma í Reykjavík eða þar til ég var á níunda ári og Bjössi bróðir á því fimmta. Þá fluttu þau í sveitina. Mér fannst það óspennandi að fara úr blokkinni með öllum krökkunum í sveitina þar sem ekkert var um að vera, – eða það hélt ég. Sveitin okkar, Núpsdalstunga í Miðfirði, hafði verið í eyði í nokkur ár.

Húsakostur var ekki upp á marga fiska, fjós og fjárhús úr torfi og íbúðarhúsið bárujárnsklætt að hluta, annars úr torfi og með torfþaki. Kalt vatn í krana, aladdínlampi, kolakynding og hænurnar í kjallaranum var lífið okkar fyrsta árið og svo kom rafmagn, ljós og hiti. Einhverjum hefði þótt þetta afleitar aðstæður fyrir börn en það er ekki mín upplifun. Ástríkir og umhyggjusamir foreldrar sem pössuðu upp á að öllum liði vel vekja aðeins góðar minningar. Næstu árin fóru í gífurlega uppbyggingu á húsakosti og ræktun á túnum. Þvílík elja og ósérhlífni, þrautseigja og útsjónarsemi. Allt gert heima sem hægt var að gera, brauð, kökur, kleinur, kæfa, slátur, reykt kjöt, saltað, súrsað, siginn fiskur. Saumuð rúmföt, anorakkar, buxur, smíðasvunta á pabba, prjónaðir vettlingar, sokkar, húfur og lopapeysur.

Minningarnar streyma í gegnum hugann. Pabbi fór út eftir morgunmat, klæddi sig í anorakk og stígvél og ég tölti á eftir í anorakk og stígvélum að hjálpa til í girðingavinnu, smyrja heyvinnuvélarnar, gefa í fjárhúsunum eða hvað það nú var sem þurfti að gera. Mamma inn í eldhúsi með svuntu og hnoðskálina og er að undirbúa brauðbakstur. Það er komið inn í tíu-kaffi og aftur í hádegismat. Lagt sig. Besti tími dagsins – frjáls tími. Miðdegiskaffi og kvöldmatur og loks kvöldkaffi. Allt í röð og reglu, enginn skortur og ekkert óhóf. Við Bjössi förum út með snjóþoturnar og finnum okkur góðar snjóhengjur til að renna niður.

Löngu síðar komum við með strákana í heimsókn í sveitina, þau standa úti á stétt og taka á móti okkur með sterku innilegu faðmlagi, brosi og kossum. Gúllasið og kartöflumúsin bíða á borðinu ásamt rabarbarasultu og grænum baunum. Strákarnir taka út búrið og hvort ekki sé allt eins og síðast. Það er svo gaman, það eru allir svo glaðir.

Sigrún K.

Barkardóttir.