Tónlistarmaðurinn Povl Dissing.
Tónlistarmaðurinn Povl Dissing. — Wikimedia/Eirik Newth
Danski tónlistarmaðurinn Povl Dissing er látinn, 84 ára að aldri. Ritzau hefur eftir eiginkonu Dissings, Piu Jacobæus, að hann hafi látist í faðmi fjölskyldunar á mánudag eftir langvarandi veikindi.

Danski tónlistarmaðurinn Povl Dissing er látinn, 84 ára að aldri. Ritzau hefur eftir eiginkonu Dissings, Piu Jacobæus, að hann hafi látist í faðmi fjölskyldunar á mánudag eftir langvarandi veikindi.

Dissing hóf feril sinn sem kornettleikari og hafði sérstakan áhuga á djassi og blús áður en hann fann sinn eigin stíl sem var meira í ætt við þjóðlagatónlist. Árið 1973 sló hann í gegn í samstarfi við ljóðskáldið Benny Andersen þegar þeir sendu frá sér plötuna Svantes viser sem er heilmikill óður til hversdagsins. Meðal laga á plötunni er „Svantes lykkelige dag“ þar sem ljóðmælandinn syngur um ágæti lífsins meðan hann bíður eftir því að kaffið verði tilbúið.

Á löngum og farsælum ferli sendi Dissing frá sér yfir 25 plötur og geisladiska. Hljómsveitin Dissing, Dissing, Las og Dissing, sem hann stofnaði ásamt sonum sínum tveimur, Rasmusi og Jonasi, naut mikillar hylli í Danmörku og kom víða fram. Árið 2017 fékk Dissing heilablæðingu eftir slæmt höfuðhögg sem batt skyndilegan enda á feril hans. Fjórum árum síðar var hann fyrstur Dana tekinn inn í frægðarhöll fyrir þjóðlagatónlist sem Tønder Festival Fond stendur að. Af því tilefni var Dissing lýst sem þjóðareign og sagður mikilvægur innblástur fyrir danskt tónlistarlíf.